28.5.2019 | 12:58
Norðmenn fjárfesta í íslenskum vindi
Norska vindorkufyrirtækið Zephyr hefur stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi; Zephyr Iceland. Markmiðið er að reisa hér vindmyllur og vindmyllugarða og bjóða umhverfisvæna raforku á hagkvæmu og samkeppnishæfu verði. Í þessu skyni hyggst fyrirtækið á næstunni m.a. verja verulegum fjármunum til rannsókna á vindaðstæðum á Íslandi.
Norsk sveitarfélög og fylki
Norska Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja. Þau eru Glitre Energi, Vardar og Østfold Energi. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi er Ketill Sigurjónsson, sem jafnframt er hluthafi í fyrirtækinu.
Meira en 500 MW í rekstri
Zephyr hefur verið leiðandi í nýtingu vindorku í Noregi og hefur þegar reist meira en 300 MW af vindafli þar í landi. Sú fjárfesting jafngildir meira en 35 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið er nú að reisa þar nýjan 200 MW vindmyllugarð og verður því senn með um 500 MW af vindafli í rekstri. Það jafngildir raforkunotkun um 75 þúsund norskra heimila.
Öflugir samstarfsaðilar
Zephyr býr yfir mikilli tæknilegri þekkingu og víðtækri reynslu á öllum þáttum vindorkuverkefna og nýtur góðra viðskiptasambanda við ýmsa sterka fjárfesta og fyrirtæki. Meðal nokkurra helstu viðskiptavina Zephyr í verkefnum fyrirtækisins fram til þessa eru álframleiðandinn Alcoa, fjárfestingafyrirtækið Black Rock og tæknirisinn Google.
Við stofnun Zephyr Iceland var eftirhafandi haft eftir stjórnarmönnum félagsins:
Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og stjórnarformaður Zephyr á Íslandi: Ísland býr yfir geysilega góðum vindaðstæðum og jafnvel enn betri en eru í Noregi. Ég er afar ánægður með þá ákvörðun stjórnar Zephyr að Ísland verði fyrsti markaður okkar utan Noregs. Vindurinn á Íslandi, ásamt sveigjanleikanum sem íslenska vatnsaflskerfið býr yfir, skapar Íslandi óvenju gott tækifæri til að nýta vindorku með ennþá hagkvæmari hætti en í flestum öðrum löndum. Samhliða því að íslensk vindorka getur aukið hagsæld á Íslandi, munu verkefni Zephyr Iceland skapa nýjar tekjur fyrir bæði landeigendur og sveitarfélög.
Morten de la Forest, stjórnarmaður í Zephyr á Íslandi:
Zephyr hefur undanfarið kannað íslenska raforkumarkaðinn ítarlega, ásamt viðeigandi löggjöf og stefnu stjórnvalda. Fyrirtækið sér áhugaverð tækifæri til nýtingar vindorku á Íslandi og sterkar vísbendingar eru um að íslensk vindorka verði samkeppnishæf við bæði vatnsafl og jarðvarma. Íslenska vindorkufyrirtækið Zephyr Iceland mun njóta góðs af sérþekkingu og reynslu norska móðurfélagsins og hefur alla burði til að þróa hér verkefni sem munu reynast bæði hagkvæm og umhverfisvæn.
Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi:
Á síðustu árum hefur vindorka orðið sífellt ódýrari og hagkvæmari. Það er því sannarlega tímabært að byrja að nýta vindinn hér á Íslandi til raforkuframleiðslu og þannig stuðla að enn sterkari samkeppnishæfni Íslands. Um leið er afar hvetjandi að hafa fengið svo öflugt og reynslumikið fyrirtæki til samstarfs sem norska Zephyr er. Rétt eins og í verkefnum Zephyr í Noregi, mun Zephyr Iceland leggja höfuðáherslu á vandaðan undirbúning verkefna og góða upplýsingamiðlun, enda er mikilvægt að breið sátt ríki um uppbyggingu af þessu tagi. Framtíð Íslands er vindasöm og björt í senn.
-------
Nánari upplýsingar veitir Ketill Sigurjónsson (s. 863 8333). Starfsstöð Zephyr Iceland er að Kalkofnsvegi 2 við Hafnartorg í Reykjavík. Myndin hér að ofan sýnir vindmyllugarðinn Tellenes, sem Zephyr lauk við sumarið 2017. Hann er 160 MW og er öll raforkan seld til Google með langtímasamningi.
18.5.2019 | 09:08
Frá Reins til Rivian
Rafmagnsbílum fer fjölgandi og verða sífellt betri. Í síðustu grein hér var rakið hvernig Noregur er í fararbroddi rafbílavæðingarinnar. Kannski munum við brátt sjá svipaða þróun hér á Íslandi. Og kannski getum við meira að segja bráðum rennt inn á hálendið - á rafmagnsjeppa!
Biðin eftir alvöru rafmagnsjeppa
Sá sem þetta skrifar hefur litið rafbíla hornauga. Einkum vegna þess að drægi þeirra er ekki enn orðin nóg. þ.e. ekki ennþá unnt að aka mjög langt án þess að endurhlaða. En líka vegna þess að enn eru ekki komnir fram raunverulegir hagkvæmir rafmagnsjeppar. Það kann þó að vera að breytast. Og þar er kannski áhugaverðastur bíll sem kallast Rivian. Þetta er ansið laglegur jeppi, sem á að geta farið um 600 km á einni hleðslu.
Flottur rafmagnsjeppi dregur að sér fjárfesta
Það er athyglisvert að nýverið setti Ford 500 milljónir dollara í þróun Rivian. Og örfáum mánuðum fyrr fjárfesti Amazon fyrir 700 milljónir dollara í Rivian. Það eru sem sagt margir öflugir að veðja á Rivian.
Rivian jeppinn er hugarsmíð ungs verkfræðings,Robert J. Scaringe, sem hefur nú unnið að undirbúningi Rivian í heilan áratug. Og nú virðist sem draumurinn sé loksins að verða að veruleika. Fyrsti Rivian jeppinn á að verða afgreiddur til kaupanda á næsta ári (2020).
Rivian minnir á gamla góða græna Reinsinn
Greinarhöfundur er talsvert spenntur fyrir þessum Rivian. Ekki bara af því þarna er um að ræða flottan bíl og mikilvæg tímamót í bifreiðaframleiðslu. Það er nefnilega svo að þessi græni Rivian minnir töluvert á gamla góða Reinsinn. Sem var árgerð 1971 og tryggur fararskjóti fjölskyldunnar í yfir aldarfjórðung og meira en 400 þúsund km.
Range Rover var sannkallaður tímamótajeppi fyrir næstum fimmtíu árum. Og kannski er nú loks að koma að því að fallegur og stílhreinn rafmagnsjeppi líti dagsins ljós. En mun hann endast jafn vel og fyrsta týpan af Range Rover?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2019 | 14:09
Rafbílabyltingin orðin að raunveruleika?
Er rafbílabyltingin loks brostin á? Hinn hagkvæmi rafmagnsbíll hefur ansið lengi verið rétt handan við hornið. Það þekkjum við vel; við sem horfðum af áfergju á Nýjustu tækni og vísindi hér í Den. Það er a.m.k. svo að í minningunni finnst greinarhöfundi sem hann hafi horft á hverja rafbílafréttina á fætur annarri í þeim ágætu þáttum fyrir margt löngu. Og að rafbílabyltingin hafi lengi verið alveg við það að bresta á.
Rafbílatækninni hefur fleygt mjög fram á síðustu árum. Engu að síður eru rafbílar enn dýrari en hefðbundnir bílar með brunahreyfil. En þetta er að breytast hratt og mögulega mjög stutt í að kostnaðurinn verði svipaður og jafnvel að rafmagnsbílarnir verði ódýrari en þeir hefðbundnu. Það á þó enn eftir að koma í ljós hvort líftími stóru rafhlaðnanna uppfylli kröfur neytenda um langan aksturstíma. Einnig er enn óvíst hversu drægi hreinna rafmagnsbíla, þ.e. bíla sem hafa einungis rafmótor, kemur til með aukast hratt.
Síðustu árin hefur rafmagnsbílum fjölgað verulega og það eru sífellt fleiri sem nú spá því að þess háttar bílar taki senn yfir fólksbílamarkaðinn. Það er samt óvíst hversu hratt rafbílavæðingin mun ganga. Sá sem þetta skrifar mun t.a.m. líklega ekki kaupa sér rafbíl fyrr en drægnin á þokkalega hagkvæmum rafbíl verður orðin a.m.k. 400 km. En hver hefur sinn smekk. Í þessari grein er fjallað um rafmagnsbíla og sérstaklega litið til hinnar hröðu útbreiðslu rafbíla í Noregi. Kannski munum við brátt sjá svipaða þróun hér á Íslandi.
Rafmagnsbílar brátt ódýrari en hefðbundnir bílar
Vegna sífellt betri og ódýrari rafgeyma, auk þess sem sífellt fleiri bílaframleiðendur eru að koma með nýja rafmagnsbíla, fer framleiðslukostnaður rafmagnsbíla hratt lækkandi. Vísbendingar eru um að við nálgumst nú mjög þau mikilvægu vatnaskil þegar rafbíllinn verður ódýrari en hefbundnir sambærilegir bílar með sprengihreyfil. Samkvæmt Bloomberg New Energy Finance (BNEF) eru sennilega einungis þrjú ár í að rafmagnsbílar verði ódýrari en hefðbundnir fólksbílar með brunahreyfil. Um leið og það gerist gæti rafmagnsbíllinn nánast yfirtekið fólksbílamarkaðinn á undraskömmum tíma. Því um leið og rafbíllinn verður hagkvæmasti kosturinn mun fjöldinn velja rafbíl.
Skilgreiningar á rafbíl: Bara BEV eða líka tvinnbílar?
Áður en lengra er mikilvægt að muna að rafmagnsbílum er skipt í nokkra flokka. Helstu skilgreiningar sem gott er að kunna deili á eru BEV, PHEV og HEV. Í reynd eru þetta tveir meginflokkar; hreinir rafbílar annars vegar og tvinnbílar hins vegar. En sökum þess hversu lítla drægni tvinnbílar hafa á rafhleðslunni, kann að vera hæpið að skilgreina slíka bíla sem rafbíla. Þó svo það sé oft gert.
BEV er hinn eini sanni rafbíll
BEV stendur fyrir Battery Electric Vehicle. Slíkar bifreiðar eru með rafmótor og ekki með bensín- eða díselvél (sem sagt ekki með brunahreyfil). Þeir eru hlaðnir rafmagni með því að stinga þeim í samband með rafmagnstengli. Þegar slíkur bíll verður rafmagnslaus kemst hann ekki lengra.
BEV eru sem sagt óháðir hefðbundnu eldsneyti og frá þeim kemur því hvorki koltvísýringur né annar óæskilegur útblástur. Um leið skiptir miklu, út frá umhverfissjónarmiðum, hvernig rafmagnið sem bíllinn notar er framleitt. Rafbíll sem í reynd gengur á kolaorku er lítt umhverfisvænn, ólíkt rafbíll sem keyrir á raforku frá t.d. vindmyllum eða vatnsaflsvirkjun. Bílar sem flokkast sem BEV eru af ýmsum tegundum, en þeir þekktustu eru líklega Nissan Leaf og Tesla.
Tvinnbílar (PHEV og HEV)
Hinn flokkur rafbíla eru bílar sem bæði ganga fyrir rafmagni og eldsneyti; eru sem sagt bæði með rafmótor og með brunahreyfil. Á ensku nefnast þeir HEV, sem stendur fyrir Hybrid Electric Vehicle. Á íslensku eru þessir bílar nefndir tvinnbílar. Bifreiðar af þessu tagi eru ýmist með búnað til að stinga þeim í samband eða að geymirinn fyrir rafmótorinn fær einungis hleðslu þegar bíllinn er á ferð. Fyrrnefnda útfærslan kallast PHEV sem stendur fyrir Plug-in Hybrid Electric Vehicle, en á íslensku er þá talað um tengiltvinnbíla.
Tvinnbílar geta ekki ekið mjög langt á rafhleðslunni, enda eru þeir ekki með eins öflugan rafgeymi fyrir aksturinn eins og BEV. Engu að síður geta svona bílar dregið verulega úr eldsneytisnotkun, t.d. ef þeim er almennt ekið stuttar vegalengdir (eins og t.d. í og úr vinnu). Rafhleðslan dugar vel fyrir slíkan akstur. Ef ráðist er í lengri ferðir á tvinnbíl tekur bensínvélin (eða díselvélin) við þegar rafhleðslan er búin. Dæmi um tengiltvinnbíla eru t.d. Chevrolet Volt og Mitsubishi Outlander. Og þekktasti tvinnbíllinn er líklega Toyota Prius.
Loks má minna á að bílar koma einnig í þeirri útfærslu að vera með efnarafal, sem breytir eldsneyti í rafmagn. Þar eru vetnisrafalar hvað athyglisverðastir og dæmi um slíkan bíl er breski Riversimple. Vetnisbílar virðast þó eiga undir högg að sækja og teljast vel að merkja ekki til rafbíla.
Rafbílavæðing Norðmanna fyrirheit um það sem koma skal?
Það sem einkum hefur haldið aftur af fjölgun rafbíla er sú staðreynd að þeir eru eða hafa a.m.k. lengst af verið töluvert dýrari en hefðbundinn fólksbíll af svipaðri stærð. En í löndum þar sem rafbílar njóta stuðnings hins opinbera, svo sem með afnámi virðisaukaskatts og ýmsum öðrum fríðindum, virðist fólk mjög gjarnan velja rafmagnsbíl fremur en þann hefðbundna. Þar er Noregur gott dæmi.
Árið 2018 voru hreinir rafmagnsbílar (BEV) um þriðjungur allra nýrra seldra fólksbíla í Noregi! Og þegar horft er til allra nýrra fólksbíla með rafmótor, þ.e. bæði þeirra bíla sem einungis ganga fyrir rafmagni og tvinnbíla, var markaðshlutdeild þessara bíla um 50% það ár í Noregi. Þar í landi var sem sagt annar hver seldur fólksbíll rafbíll árið 2018 (þegar notuð er víðtækari skilgreiningin á rafbílum).
Norðmenn vilja Teslu, en hvað vilja Íslendingar?
Salan á rafmagnsbílum í Noregi sló svo enn eitt metið nú í mars s.l. (2019). Þegar næstum 60% af öllum seldum nýjum fólksbílum voru hreinir rafbílar (BEV)! Þar af var helmingurinn af gerðinni Tesla Model3! Sem merkir að næstum því þriðjungur af öllum nýjum seldum fólksbílum í Noregi í mars var Tesla. Norðmenn eru bersýnilega óðir í Teslu. Og nú hefur Tesla auglýst eftir starfsfólki á Íslandi. Kannski mun Teslaverslun hérlendis koma meira skriði á íslenska rafbílavæðingu. Fyllast götur borgarinnar og kaupstaða Íslands brátt af Teslum líkt og verið hefur að gerast í Noregi?
17.4.2019 | 08:55
Hækkandi raforkuverð til stóriðju
Á nýlega afstöðnum ársfundi Landsvirkjunar var tilkynnt að fyrirtækið hefði skilaði mettekjum vegna rekstrarársins 2018. Líkt og greinarhöfundur hafði áður spáð fyrir. Á fundinum kom einnig fram af hálfu Landsvirkjunar að vindorka á Íslandi sé samkeppnishæf. Eins og greinarhöfundur hafði áður lýst. Fram að þessu hafði Landsvirkjun látið nægja að segja að vindorkan sé að verða samkeppnishæf. Þarna var því um að ræða tímamótayfirlýsingu af hálfu Landsvirkjunar, um hagkvæmni vindorku.
Mikilvæg ástæða þess að tekjur Landsvirkjunar slógu met árið 2018 og voru hærri það ár en 2017, er að meðalverð á áli var hærra 2018 en árið á undan. Þegar horft er til 2019 er mögulegt að álverð á þessu yfirstandandi ári verði eitthvað lægra en var 2018. Það myndi samt ekki endilega valda því að tekjur Landsvirkjunar sígi mikið niður á við. Því síðar á þessu ári, þ.e. 2019, mun raforkuverð Landsvirkjunar til álvers Norðuráls hækka verulega.
Í þessari grein er fjallað um þessa þróun. Og um leið bent á að aukin nýting vindorku erlendis gæti senn farið að hafa áhrif á samkeppnishæfni íslenska raforkumarkaðarins. Þetta segir okkur að sennilega er virkjun íslenskrar vindorku beinlínis nauðsynleg til að viðhalda sterkri samkeppnisstöðu Íslands m.t.t. raforku.
Nýi raforkusamningurinn tekur gildi á þessu ári (2019)
Álver Norðuráls á Grundartanga, í eigu Century Aluminum, fær um þriðjung raforku sinnar frá Landsvirkjun (LV). Gera má ráð fyrir að á liðnu ári (2018) hafi Norðurál greitt LV nálægt 25 USD/MWst fyrir rafmagnið. Flutningskostnaður er þá með talinn, en þann kostnað greiðir LV til Landsnets. Nettóverðið sem LV fékk fyrir raforkuna til Norðuráls í orkuviðskiptum fyrirtækjanna árið 2018 var því nálægt 20 USD/MWst.
Síðar á þessu ári (2019) tekur gildi nýr raforkusamningur Norðuráls og LV. Þar er verðlagningin á rafmagninu gjörbreytt frá eldri samningi fyrirtækjanna, sem er um tuttugu ára gamall. Eftir að nýi samningurinn gengur í gildi nú í haust, má gera ráð fyrir mikilli hækkun á raforkuverði LV til Norðuráls. Hversu mikil verðhækkunin í þessum viðskiptum fyrirtækjanna verður ræðst af þróun raforkuverðs á norræna raforkumarkaðnum; Nord Pool Spot. Þar hefur orkuverðið verið nokkuð hátt undanfarna mánuði, einkum vegna þurrka í Noregi, en hvernig það mun þróast er óvíst.
Raforkukostnaður Norðuráls kann að tvöfaldast
Samkvæmt upplýsingum frá LV hljóðar nýi samningurinn við Norðurál upp á verð sem er beintengt verðinu á norræna raforkumarkaðnum, en þó með einhverjum afslætti frá því verði. Meðalverðið á norræna raforkumarkaðnum 2018 var um 44 EUR/MWst, sem jafngildir rúmlega 50 USD/MWst m.v. meðalgengi gjaldmiðlanna það ár. Og frá áramótunum síðustu hefur orkuverðið þarna á norræna raforkumarkaðnum verið enn hærra en var 2018. Og væri mögulega ennþá hærra ef Skandinavía hefði ekki tengingar sínar við fleiri lönd.
Eins og áður sagði gerir nýi raforkusamningurinn milli LV og Norðuráls ráð fyrir einhverjum afslætti frá norræna orkuverðinu. Ef nýi samningurinn hefði verið kominn í gildi 2018 og afslátturinn nemur í nágrenni við 10-15%, má gera ráð fyrir að raforkuverð LV til Norðuráls á því ári hefði verið u.þ.b. 40-45 USD/MWst. M.ö.o. þá hefði raforkuverð LV til Norðuráls á síðasta ári mögulega verið u.þ.b. tvöfalt það sem var í reynd, ef nýi samningurinn hefði verið kominn í gildi þá.
Arðgreiðslugeta Landsvirkjunar eykst verulega
Þessi nýi samningur milli LV og Norðuráls tekur ekki gildi fyrr en síðla þetta ár (2019). Samningurinn mun auka tekjur LV og það kannski mjög mikið. Það eru gleðitíðindi fyrir orkufyrirtækið og eiganda þess. Mögulega gerir LV sér vonir um að verðhækkunin muni leiða til þess að árlegar tekjur fyrirtækisins vegna raforkusölunnar til Norðuráls aukist um u.þ.b. 30-40 milljónir USD frá því sem verið hefur allra síðustu árin. Þar með gæti arðgreiðslugeta LV hækkað á einu bretti um sem nemur um 4-5 milljörðum króna (miðað við núverandi gengisskráningu krónu gagnvart USD).
Það má sem sagt ætla að að þarna sjái LV tækifæri til að hækka arðgreiðslu sína mjög verulega bara vegna Norðuráls. Til samanburðar má hafa í huga að undanfarin ár hefur arðgreiðsla LV verið 1,5 milljarðar króna og nú síðast var hún 4,25 milljarðar króna. Árið 2020 er fyrsta fulla rekstrarárið sem nýi samningurinn verður í gildi. Það verður LV í hag ef orkuverðið á norræna markaðnum verður hátt allt það ár. Og æskilegt fyrir fyrirtækið að svo verði allan samningstímann sem nýi samningurinn við Norðurál gildir (2019-2023).
Hagnaðaraukning Landsvirkjunar vegna Grundartanga ekki enn í hendi
Við vitum auðvitað ekki fyrir víst hvort nýi orkusamningurinn við Norðurál skili strax svo góðri hagnaðaraukningu til LV sem hér hefur verið lýst. Það ræðst jú af því hvernig raforkuverðið á norræna markaðnum mun þróast á næstu árum. En LV getur a.m.k. verið vongóð um að þarna myndist umtalsverður nýr hagnaður og það strax á síðustu mánuðum 2019. Spurningin er bara hversu mikill þessi hagnaður verður.
Við þetta bætist svo möguleg hagnaðaraukning LV vegna sennilegrar hækkunar á raforkuverði til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, því einnig þar tekur nýtt raforkuverð gildi á árinu 2019. Sú verðákvörðun er vel að merkja í höndum sérstaks gerðardóms, sem mun væntanlega senn kveða upp úr um nýtt raforkuverð. Sú niðurstaða mun sennilega hækka raforkuverð Elkem verulega, en hversu mikil hækkunin verður er sem sagt enn ekki komið í ljós.
Landsvirkjun álítur eðlilegt stóriðjuverð um 30-35 USD/MWst
Hér verður ekki reynt að svara því hvaða áhrif mikil hækkun raforkuverðs LV mun hafa á rekstur álvers Norðuráls og járnblendiverksmiðju Elkem. LV álítur bersýnilega að fyrirtækin þarna á Grundartanga ráði vel við nýtt og hærra raforkuverð og verði áfram samkeppnishæf við aðrar slíkar verksmiðjur úti í heimi. Í þessu sambandi virðist sem LV álíti að stóriðjan á Grundartanga eigi að greiða á bilinu 30 til 45 dollara í raforkuverð án flutnings. Ef gert er ráð fyrir að stóriðjan á Grundartanga muni greiða sem nemur lágmarkinu þarna, yrði raforkuverðið með flutningi nálægt 35 USD/MWst. Sem er mjög í nánd við það verð sem álverið í Straumsvík greiðir nú skv. raforkusamningi frá 2010.
Verðhækkunin til stóriðjunnar var fyrirsjáanleg
Verðhækkun af þessu tagi er í samræmi við það sem greinarhöfundur taldi fyrirsjáanlegt þegar viðræður LV og Norðuráls um nýjan raforkusamning voru yfirstandandi fyrir nokkrum árum. Í því sambandi leit greinarhöfundur m.a. til raforkuverðs í nýjum samningum til álvera í Kanada ásamt verðþróun í Noregi og víðar um heim. Sú spá eða sviðsmynd sem sett var fram í þeim skrifum gekk eftir, þrátt fyrir mikla andstöðu af hálfu Norðuráls.
Það verð sem forstjóri LV segir fyrirtækið nú miða við kemur sem sagt ekki á óvart. Þó ber að hafa í huga eina mikilvæga breytingu sem orðin er á raforkumörkuðum frá því sem var fyrir nokkrum árum; breytingu sem gæti mögulega valdið því að samkeppnisforskot Íslands gagnvart stórum raforkunotendum fari heldur minnkandi á komandi árum. Sem er vegna ódýrrar vindorku erlendis.
Samkeppnisforskot Íslands gagnvart Noregi gæti farið minnkandi
Þarna er samanburður við Noreg áhugaverður. Í Noregi starfa bæði álver og kísilver og þau fyrirtæki hafa sum á undanförnum árum í auknum mæli þurft að reiða sig á raforkukaup frá norræna orkumarkaðnum (m.a. vegna norsku reglnanna um hjemfall þar sem stóriðjan hefur þurft að afhenda norska ríkinu eldri vatnsaflsvirkjanir). Í ljósi raforkukaupa stóriðjufyrirtækjanna á Nord Pool má mögulega álykta sem svo að ef nýja raforkuverðið til fyrirtækjanna á Grundartanga helst eitthvað lægra en gerist á norræna raforkumarkaðnum, hljóti orkuverðið til þeirra að vera prýðilega samkeppnishæft. Og staða stóriðjunnar á Grundartanga þar með trygg. Slík ályktun er þó mögulega of víðtæk, vegna mikilla verðlækkana á vindorku.
Vindorkan er hið nýja samkeppnishæfa orkuverð stórra notenda
Norska stóriðjan hefur undanfarið verið að færa sig yfir í að kaupa vindorku með langtímasamningum við vindmyllugarða í Noregi og Svíþjóð. Með því móti tryggir norska stóriðjan sér fast og hógvært raforkuverð til langs tíma. Vindorkan er sem sagt að sumu leyti að taka yfir það hlutverk sem vatnsaflsvirkjanirnar í Noregi höfðu áður fyrr. Um leið verða fyrirtækin sem kaupa vindorkuna síður háð markaðsverðinu á norræna orkumarkaðnum (Elspot á Nord Pool).
Ástæða þessarar þróunar er sú að svona vindorkukaup eru nú ódýrasti kosturinn, þ.e. ódýrari kostur en að kaupa raforku sem tengd er verði á norræna raforkumarkaðnum og ódýrari kostur en langtímasamningar við aðra tegund raforkuframleiðslu. Og þessi hagkvæma vindorka er í senn góð leið til að efla atvinnulíf og hagvöxt.
Það er sem sagt norskri og sænskri vindorku verulega að þakka að t.a.m. álver í Noregi munu sennilega lengi enn halda samkeppnishæfni sinni í alþjóðlegum samanburði. Þetta er til marks um hvernig landslagið í samkeppnishæfni raforkumarkaða er að breytast. Og þess má vænta að þessar breytingar í orkugeiranum muni á einhverjum tímapunkti líka hafa áhrif á samkeppnishæfni stórra raforkunotenda og orkufyrirtækja á Íslandi.
Vindorka mun efla íslenskt atvinnulíf
Aukinn rekstrarkostnaður stóriðju vegna hærra raforkuverðs í nýjum samningum LV mun til að byrja með líklega einkum birtast í hagræðingaraðgerðum hjá einhverjum stóriðjufyrirtækjum hér. Eins og t.d. með fækkun starfsfólks. Mögulega eru nýlegar uppsagnir hjá Norðuráli til marks um að þessi þróun sé strax byrjuð (jafnvel þó svo nýi orkusamningurinn gangi ekki í gildi fyrr en seint á þessu ári). Hér skiptir líka máli að verð á áli hefur farið lækkandi undanfarið ár, sem gæti kallað á hagræðingaraðgerðir hjá Norðuráli og öðrum álfyrirtækjum hér. Samskonar þróun gæti sést hjá Elkem þegar eða ef raforkuverðið þar hækkar mikið.
Því miður fyrir starfsfólkið á Grundartanga er mögulegt að næstu ár geti orðið tilefni til meiri samdráttaraðgerða í launakostnaði fyrirtækjanna þar (Century er skráð á hlutabréfamarkað vestra og þar er mikil áhersla á arðsemiskröfu). Um leið er LV að skila mettekjum, sem er mjög gott fyrir eiganda hennar; íslenska ríkið og þar með þjóðina. Þarna eru því ýmsar tilfinningar uppi. Um leið er vert að hafa í huga að þegar kemur til virkjunar vinds á Íslandi er líklegt að allir geti fagnað. Því sú þróun mun styrkja samkeppnishæfni Íslands og auka líkur á áframhaldandi sterkri eftirspurn hér frá fyrirtækjum sem nota mikið rafmagn.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt vindorkufyrirtæki.
10.4.2019 | 21:12
Sæstrengir og raforkuverð
Í umræðu um s.k. þriðja orkupakka er eitt sem lítt hefur verið rætt, en mætti hafa í huga. Samkvæmt greiningu norsku orkustofnunarinnar (NVA) hafa sæstrengir og aðrar raforkutengingar Norðmanna við nágrannaríkin stuðlað að lægra raforkuverði til almennings en ella hefði orðið. Með sama hætti gæti sæstrengur milli Íslands og Evrópu haldið aftur af hækkun raforkuverðs til almennra notenda hér á landi.
Í dag er staðan á raforkumarkaðnum á Íslandi ekki ósvipuð þeirri sem var í Noregi áður en tengingum þar til nágrannalandanna var fjölgað. Þ.e. mjög lítið af umframorku til staðar og því mátti lítið út af bera til að raforkuverð ryki upp. Hér á landi birtist þessi staða í því að varla er nóg af raforku til staðar til að mæta aukinni eftirspurn t.d. frá gagnaverum. Og þó svo einungis sé litið til væntrar fjölgunar landsmanna álítur Orkuspárnefnd nauðsynlegt að byggja fleiri virkjanir á komandi árum. Til að ekki myndist hér raforkuskortur innan nokkurra ára.
Sæstrengir Norðmanna hafa í reynd alls ekki hækkað raforkuverð þar í landi. Heldur þvert á móti stuðlað að hógværara raforkuverði. Ef sæstrengur kæmi milli Íslands og Evrópu myndi sá strengur halda aftur af raforkuskorti hér á landi og þar með halda aftur af hækkunum á raforkuverði. Fyrst og fremst myndi slikur strengur þó leiða til þess að raforkuverð stóriðju myndi færast hraðar nær því verði sem almenni raforkumarkaðurinn greiðir. Rétt eins og gerst hefur í Noregi. Slíkt myndi auka arðsemi í íslenskri raforkuframleiðslu. Sem fyrst og fremst er í höndum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, sem bæði eru í opinberri eigu.
Það er sem sagt líklegt að sæstrengur, ef rétt yrði að slíku verkefni staðið, myndi bæta arðsemi Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. Og þar með gæfist færi til að auka arðgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga. Sem þýðir tækifæri til skattalækkana og/eða aukinnar almannaþjónustu. Af hverju sumir stjornmálamenn eru á móti slíkri þróun er ráðgáta.
Það er sem sagt lítil ástæða til að óttast að sæstrengur muni leiða til mikilla hækkana á raforkuverði til almennra notenda hér. Vissulega er afar mikilvægt, ef til sæstrengs kemur, að íslensk stjórnvöld haldi vel á spilunum og tryggi að hagsmunir Íslands verði tryggðir í hvívetna. Það er mikilvæga atriðið. Og þannig gæti sæstrengur skilað Íslandi verulegum ávinningi. Niðurstaðan er sem sagt sú að þriðji orkupakkinn er engin ógn í þessu sambandi. Og sæstrengur er sjálfstæð ákvörðun sem þjóðin ræður með því hverja hún velur á Alþingi.
23.3.2019 | 19:00
Endurhannaður vindmyllugarður ofan Búrfells
Á nýliðnum ársfundi sínum kynnti Landsvirkjun endurhannaðan vindmyllugarð ofan Búrfells. Þar kom fram að staðsetningu vindmylla er hnikað til. Endurhönnunin er í samræmi við þær hugmyndir sem Landsvirkjun (LV) kynnti á fundi Sambands íslenska sveitarfélaga s.l. sumar (2018), sem greinarhöfundur hefur áður minnst á. Í þessari grein er fjallað um þessa tilfærslu á s.k. Búrfellslundi með hliðsjón af því sem fram kom á nýliðnum ársfundi LV.
Til samanburðar á staðsetningartillögum LV geta lesendur skoðað annars vegar þetta kort sem sýnir eina af þremur fyrri tillögum LV um staðsetningu á allt að 200 MW vindmyllugarði þarna ofan Búrfells og hins vegar þetta kort sem sýnir tillögu að nýrri staðsetningu. Munurinn á þessum tveimur útfærslum felst einkum í því að svæðið sem ætlað er undir vindmyllur hefur verið minnkað. Ásamt því að allar vindmyllurnar verði vestan (eða norðan) vegarins þarna upp frá Þjórsárdal og inn á Sprengisandsleið.
Í kynningu LV nú á ársfundinum kom m.a. fram að þó svo minna svæði fari undir vindmyllur samkvæmt nýju staðsetningunni sé hagkvæmni vindmyllugarðsins óbreytt frá fyrri tillögum. Ekki var útskýrt nánar af hverju þetta minna svæði nær að skila jafn mikilli hagkvæmni eins og hið fyrra stærra svæði (sem ætti að geta rúmað mun meira afl). Á fundinum kom heldur ekki fram hversu margar eða stórar vindmyllurnar eiga að verða. Þannig að það er ekki ljóst hvort endurhönnuðum Búrfellslundi er ætlað að verða 200 MW, eins og upphaflega var ráðgert, eða eitthvað minni.
Eins og áður sagði þá felur þessi tilfærsla það í sér að allar vindmyllurnar verði vestan (eða norðan) vegarins þarna upp frá Þjórsárdal. Tilgangurinn með því virðist einkum vera sá að þá muni vindmyllurnar síður trufla vegfarendur. A.m.k. ekki þegar þeir horfa austur (eða suður) til Heklu.
Í fyrri tillögum LV voru vindmyllur staðsettar milli vegarins og Heklu, líkt og sjá má á myndinni hér til hliðar sem sýnir eina af fyrri útfærslunum. Í nýju tillögunni eru vindmyllurnar allar staðsettar vestan (norðan) vegarins. Sem sagt trufla ekki útsýnið frá veginum til Heklu. En auðvitað hafa svona stór mannvirki alltaf mikil sjónræn áhrif. Og eftir sem áður kann staðsetning vindmylla á þessu fjölfarna ferðamannasvæði við mörk Miðhálendisins áfram að vera umdeild. Í þessu sambandi má vísa til álits Skipulagsstofnunar á upphaflegum áætlunum LV um 200 MW Búrfellslund:
Úr áliti Skipulagsstofnunar
Eftirfarandi texti (skáletraður) er úr áliti Skipulagsstofnunar á upphaflegum tillögum Landsvirkjunar um þrjár útfærslur á 200 MW vindmyllugarði þarna ofan Búrfells
Fyrirhugað framkvæmdasvæði er hluti víðáttu sem afmarkast af Sauðafelli og Heklu í suðri, Búrfelli og Skeljafelli í vestri, Sandafelli og Stangarfjalli í norðri og Valafelli í austri. Það liggur á mörkum láglendis og hálendis og svæða með manngerða og náttúrulega ásýnd.
Að stærstum hluta liggur það innan marka miðhálendis Íslands, en um skipulagsmál miðhálendisins er mörkuð sérstök stefna í landsskipulagsstefnu. Samkvæmt landsskipulagsstefnu skal standa vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og skal uppbygging innviða taka mið af sérstöðu þess [ ]
Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að áformuð framkvæmd við 200 MW vindorkuver við Búrfell sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivistar. [ ] Fyrir liggur að framkvæmdin er í biðflokki tillögu að rammaáætlun og fellur illa að áherslum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 á vernd víðerna og landslagsheilda [ ]
Í ljósi framangreinds um skipulagslega stöðu verkefnisins sem og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar telur Skipulagsstofnun tilefni til að endurskoða áform um uppbyggingu 200 MW vindorkuvers við Búrfell. Niððurstöður um mikil umhverfisáhrif gefa, að mati stofnunarinnar, tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði henta betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kann að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging á betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla.
Hvað mun Skipulagsstofnun segja við endurhönnuninni?
Í áliti sínu lagði Skipulagsstofnun sem sagt til að þarna yrði hugað að færri og lægri vindmyllum en LV upphaflega áformaði eða að þeim yrði fundinn annar staður. Vegna þessara sjónarmiða Skipulagsstofnunar má geta þess að það er einfalt að fækka myllunum. Og færa þær aðeins til, líkt og LV hefur nú gert. Aftur á móti er fjarstæðukennt að lækka þær. Það er því vandséð að LV geti að öllu leyti orðið við umræddum atugasemdum Skipulagsstofnunar. Hver niðurstaða stofnunarinnar verður um endurhannaðan vindmyllugað LV ofan Búrfells á eftir að koma í ljós.
Framangreindar vangaveltur Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu og það hvort önnur landsvæði henti betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi sýnir kannski að setja þurfi skýrari ákvæði um það í lög hvar ekki megi staðsetja vindmyllugarða. Og þá yrði sennilega nærtækast að undanskilja friðuð svæði og eftir atvikum Miðhálendið eða tiltekna hluta þess. Þarna er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Um leið er vert að hafa í huga að íslenskir vindmyllugarðar verða líklega ódýrasta tegund nýrra raforkumannvirkja. Uppbygging íslenskrar vindorku gæti því veitt hagkvæma möguleika á að friða fleiri vatnsföll og jarðvarmasvæði. Ef það er leið sem stjórnmálamönnum og landsmönnum líst á að fara.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2019 | 10:38
Óstöðvandi hagkvæmni vindorku
Þeir vindmyllugarðar sem nú eru byggðir eru margir hverjir með vindmyllur þar sem hver og ein er um þrjú eða 3,5 MW. Það er stórt skref frá því sem var fyrir einungis nokkrum árum þegar hámarksafl hverrar vindmyllu var oft um eða undir 2 MW.
Stærri vindmyllur auka hagkvæmnina. Og stækkandi hverflar og vindmyllur hafa nú þegar gert það að verkum að vindorka á sumum svæðum í heiminum er orðin hagkvæmasta tegund raforkuframleiðslu. Líklegt er að í mörgum þeim vindmyllugörðum sem verið er að undirbúa í dag (á landi) verði hver vindmylla með afl upp á um 4 MW. Og sennilega er ekki langt í að slíkar vindmyllur verði um og yfir 5 MW.
Utan við ströndina erum við svo farin að sjá ennþá stærri vindmyllur. Þannig hefur Vestas hafið framleiðslu á 9,5 MW vindmyllum, sem senn munu rísa utan við strönd Belgíu. Og nú snemma á þessu ári (2019) tilkynnti General Electric um nýja 12 MW vindmyllu!
Eðli málsins samkvæmt er einfaldara og ódýrara að reisa og starfrækja vindmyllugarða á landi en úti í sjó. Nú fyrir helgina var tilkynnt um farsæla uppsetningu og raforkuframleiðslu tilraunamyllu General Electric upp á 5,3 MW. Sem í dag er aflmesta vindmylla á landi. Vindmyllan var reist í Hollandi og gert er ráð fyrir að senn verði tilkynnt um fyrstu kaupendurna og fjöldaframleiðsla fari á fullt.
Hver spaði þessarar nýju geysiöflugu vindmyllu GE er rétt tæplega 80 m langur. Helsta hindrunin vegna svo langra spaða er flutningur þeirra á áfangastað. Þess vegna eru þessir gríðarstóru spaðar með nýrri hönnun; hver spaði er framleiddur í tvennu lagi og eru svo settir saman á staðnum. Það er danska fyrirtækið LM Power sem á heiðurinn að þeirri smíði, en GE keypti einmitt LM Power nýlega. Tækniþróunin í vindorkunni er sem sagt enn á fullu og hagkvæmnin þar á enn eftir að aukast.
Þessar stóru nýju vindmyllur bæði á landi (4-6 MW) og í sjó (10-12 MW og jafnvel enn stærri) munu verða enn eitt skrefið í því að gera vindorkuna að hagkvæmustu raforkuframleiðslu í heimi. Og mögulega eru einungis fáein ár í að nýjar íslenskar jarðvarmavirkjanir og jafnvel einnig nokkrar af fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum hér munu ekki reynast samkeppnishæfar við vindorku. Eftir sem áður munu vindmyllugarðar þó þurfa aðgang að varafli. Og þar erum við Íslendingar í góðri stöðu með okkar stóra vatnsaflskerfi með miðlun.
14.2.2019 | 18:35
Tækniundur hverfur af sviðinu
Airbus hefur ákveðið að hætta framleiðslu á stærstu farþegaþotu heims; risaþotunni A380. Þetta þykir mér miður. Bæði sem flugáhugamanni og vegna þess að einhver besta ferðareynsla mín fram til þessa er einmitt langflug með Airbus A380.
Flugreynsla mín með þessari vél er reyndar ekki mikil. Einungis tvær ferðir - en vel að merkja nokkuð langar ferðir. Annars vegar frá London til Melbourne og hins vegar frá Sydney til London. Í báðum tilvikum var millilent í Dubai, enda er flugleiðin milli London og austurstrandar Ástralíu nokkru lengri en sú hámarksvegalengd sem þessi magnaða vél getur farið á einni tankfyllingu.
Ástæða þess að ég féll gjörsamlega fyrir Airbus A380 er fyrst og fremst samanburðurinn við aðra fornfrægari risaþotu; þá bandarísku Boeing 747. Skömmu áður en ég ferðaðist með evrópska undratækinu A380 hafði ég einmitt líka flogið milli London og Sydney með reynsluboltanum 747 (þá með millilendingu í Singapore). Og samanburðurinn var 747 mjög í óhag.
Þarna kom margt til. Airbusvélin hjá Qantas var auðvitað miklu nýrri en gamla Boeing risaþotan hjá British Airways og því voru sætin og allar innréttingar miklu þægilegri í Airbusvélinni. Það sem þó hreif mann hvað mest voru flugeiginleikarnir og hljóðvistin.
Inni í A380 rétt svo heyrðist smávegis suð frá ofsalegum hreyflunum, en í 747 vélinni mátti lýsa hreyflahljóðinu sem nánast óþægilega háværu á svo löngu flugi (um 22 klukkustundir á lofti). Og ofboðslegur krafturinn í flugtakinu og dásamlega mjúkar hreyfingarnar í lendingu evrópsku vélarinnar fengu mann hreinlega til hrista höfuðið yfir skrapatólinu sem 747 virtist vera í samanburðinum.
Breiðþotur eru heillandi tækniundur. Og geta flutt hreint ótrúlegan fjölda fólks. Þegar A380 er innréttuð þannig að almenna farrýmið er í stærri kantinum, tekur vélin um 850 farþega. Þegar slatti er af ýmsum betri sætum í vélinni er hámarksfjöldi farþega oft nálægt 500. Boeing 747 er með töluvert færri sæti; oft fyrir á bilinu 400 til 650 farþega. Báðar þessar vélar eru á tveimur hæðum og með fjóra hreyfla. Og þetta eru tvær stærstu farþegaþotur heims. Stærsta útfærslan af 747 er örlítið lengri en A380, en engu að síður er 747 minni vél.
Já - því miður hefur nú verið ákveðið að hætta framleiðslunni á A380 og verður sú síðasta afhent kaupandanum árið 2021. Sem þýðir að framleiðslusaga A380 verður einungis um fimmtán ár! Þar með er augljóst að þrátt fyrir að vera fádæma þægilegt farartæki verður saga A380 langt frá því að verða jafn löng og mikilvæg eins og saga 747, sem nú hefur verið framleidd í fimm áratugi og er enn í nokkuð góðum gír.
Það stefnir að vísu líka í að 747 hverfi smám saman af sviðinu. Því nýjar tveggja hreyfla minni farþegaþotur virðast álitnar hagkvæmari; í dag eru sparneytni og góð sætanýting alger lykilatriði í farþegaflugi. Þar verður líklega 787 Dreamliner hvað fremst í flokki næstu áratugina á lengri leiðum, en slíkar vélar fljúga nú t.d. beint milli London og Perth á vesturstönd Ástralíu. Kannski mun næsta kynslóð mannkyns aldrei fá tækifæri til að fljúga í sannkallaðri risaþotu!
Í lokin má geta þess að eftir hið hroðalega flugslys þegar Airbus A330 frá Air France hrapaði í Atlantshaf í júníbyrjun 2009, varð ég ákveðinn í því að fljúga aldrei með flugvél þar sem flugmennirnir hafa ekki almennilegt stýri (yoke), heldur bara pinna (joy-stick eða öllu heldur s.k. side-stick). Það er óhugnarleg lesning hvernig flugmenn frönsku vélarinnar hömuðust báðir á sitt hvorum pinnanum í ofrisinu áður en vélin skall í Atlantshafið.
Á endanum stóð ég ekki við það að fljúga aldrei í slíkri tölvuleikjavél með stýripinna. Airbus 380 er einmitt stærsta vél heims með slíkan pinna. Og eftir þá flugreynslu hurfu fordómarnir og í dag veit ég svo sannarlega hvaða flugvél er mesta tækniundrið í mínum huga. Drottningin Airbus 380 hefur senn verið boðuð látin; lengi lifi drottningin! Sem reyndar bara rétt svo náði því að verða táningur og því kannski varla nema prinsessa.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2019 | 12:16
Líklega mettekjur hjá Landsvirkjun vegna 2018
Að loknu rekstrarárinu 2017 tilkynnti Landsvirkjun um mettekjur það ár. Sökum þess að álverð var hærra árið 2018 heldur en 2017 er líklegt að tekjur Landsvirkjunar vegna rekstrarársins 2018 hafi svo verið ennþá hærri en var metárið 2017. Væntanlega mun tilkynning Landsvirkjunar um tekjur og afkomu ársins 2018 (og um selt orkumagn) brátt birtast.
Mikilvægasta ástæða þess núna að líklegt er að tekjur Landsvirkjunar vegna 2018 slái metið frá 2017 er einföld: Hærra álverð. Samningar Landsvirkjunar við Norðurál (Century Aluminum) og Alcoa (Fjarðaál) eru með þeim hætti að þar sveiflast raforkuverðið eftir því hvert verð er á áli. Raforkuverðið til álvers ISAL (Rio Tinto) er aftur á móti oftast mjög stöðugt því orkuverðið þar er nú tengt þróun bandarískrar neysluvístölu (CPI), vegna nýs samnings þar um frá 2010.
Þess ber þó að geta að við vitum ekki enn hversu mikið raforkumagn Landsvirkjun seldi á liðnu ári (2018). Ef álverin hafa haldið aftur af framleiðslu sinni, sem er reyndar ekki mjög líklegt, bitnar það á tekjum Landsvirkjunar. Aðrir óvissuþættir um selt orkumagn og verð, eru t.d. gjaldþrot kísilversins í Helguvík og afurðaverð járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Aukin raforkusala til gagnavera styrkir tekjugrunn Landsvirkjunar, en mikil leynd ríkir um raforkuverðið í þeim samningum. Samantekið verður að teljast líklegt að tekjur Landsvirkjunar vegna 2018 slái met.
Á stöplaritinu hér til hliðar má sjá þróun á raforkuverði Landsvirkjunar til álveranna allt frá árinu 2008. Það ár var álverð geysihátt og því varð raforkuverðið sem Landsvirkjun fékk einnig hátt. Eftir verulega verðlækkun á áli er álverð nú aftur nokkuð viðunandi. Eðlilega er þó alltaf mikil óvissa um verðþróun á áli. Það er því vandi að spá um tekjur Landsvirkjunar árið 2019. En það er annar handleggur.
17.1.2019 | 15:46
Óheppilegir óvissuþættir um sæstreng
Tvö nátengd fyrirtæki, annað skráð í Bretlandi en hitt í Sviss, vinna nú að því eignast hér virkjanir og að sæstrengur til raforkuflutninga verði lagður milli Íslands og Bretlands. Þetta sæstrengsverkefni er áhugavert, enda er mögulegt að með raforkusölu til Bretlands (eða meginlands Evrópu) geti arðsemi af nýtingu orkulindanna á Íslandi aukist umtalsvert.
Á móti kemur að verkefnið gæti þróast þannig að það verði erlendur eigandi sæstrengsins sem einkum myndi njóta þess hagnaðar sem þarna kann að myndast. Það er líka athyglisvert að svissneska fyrirtækið sem er nátengt breska fyrirtækinu sem sækir það fastast að fá slíkan sæstreng lagðan, hefur nú eignast umtalsverðan hlut í HS Orku. Og sökum þess að hinn kanadíski meirihlutaeigandi HS Orku hefur nú kynnt áhuga sinn á að selja þá eign sína, er mögulegt að svissneska fyrirtækið eignist ríflegan meirihluta í HS Orku.
Þar með yrði mögulegt að sú raforka sem HS Orka selur nú til álvers Norðuráls í Hvalfirði, yrði seld til Bretlands um sæstrenginn. Reyndar gæti öll raforkuframleiðsla HS Orku farið í strenginn og þá mögulega einnig það rafmagn sem framleitt yrði í fyrirhugaðri Hvalárvirkjun á Ströndum, en HS Orka á meirihluta hlutabréfanna í því verkefni.
Í liðinni viku fóru fram tveir athyglisverðir fundir í Reykjavík, þar sem sæstrengur til Bretlands var mikilvægur þáttur í fundarefninu. Annars vegar var það fundur á vegum Landsvirkjunar þar sem kynnt var ný skýrsla um yfirvofandi mikla aukningu í arðsemi fyrirtækisins og hvernig ráðstafa megi þeim arði. Hins vegar var fundur á vegum Félags atvinnurekenda þar sem fjallað var um þriðja orkupakka Evrópusambandsins (ESB) og áhrif hans á Íslandi, þ.m.t. gagnvart sæstreng.
Það vakti athygli þess sem hér skrifar að á þessum fundum var lítt minnst á nokkur mikilvægustu atriðin sem snerta slíkan sæstreng. Þá er einkum átt við þá lagalegu óvissu sem virðist vera uppi um það hvort íslenskum stjórnvöldum væri heimilt að neita sæstrengsfyrirtæki um að tengjast flutningskerfi Landsnets eða það hvort íslensk stjórnvöld yrðu skuldbundin af ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um nýtingu sæstrengs. Svo og er það atriði hvort eðlilegt sé að sæstrengur og virkjanir á Íslandi verði í eigu sama fyrirtækis eða nátengdra fyrirtækja.
Að mati greinarhöfundar er mikilvægt að fram fari breið umræða um þessi atriði og að vönduð greining eigi sér stað um þessi álitaefni. Um leið er mikilvægt að skýr afstaða stjórnvalda og ríkisstjórnar liggi fyrir um þessi álitaefni, áður en til þess kemur að Alþingi samþykki að innleiða þriðja orkupakkann án fyrirvara.
Þarna eru á ferðinni afar mikilvægir þjóðhagslegir hagsmunir. Það er grundvallaratriði að hnýta þá lausu enda sem nauðsynlegt kann að vera til að tryggja að við sitjum ekki allt í einu uppi með sæstrengsverkefni sem skili litlu til íslensks almennings og íslenskra orkufyrirtækja í opinberri eigu. Greinarhöfundur er sem fyrr talsmaður þess að leita leiða til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum, enda hefur arðsemin þar verið lág. Um leið er greinarhöfundur á varðbergi gagnvart fákeppni og einokunaraðstöðu. Gætum þess að sýna fyrirhyggju.
Til athugunar: Greinarhöfundur vinnur að vindorkuverkefnum á Íslandi í samstarfi við norrænt orkufyrirtæki. Þau verkefni miðast við innlendan raforkumarkað eingöngu (það gæti eðlilega breyst ef sæstrengur yrði lagður). Höfundur álítur mikilvægt að ekki verði ráðist í svona sæstrengsverkefni nema hagsmunir Íslands séu tryggðir sem best. Slíkt verkefni krefst miklu ítarlegri skoðunar, umfjöllunar og opinberrar umræðu áður en hægt er að fullyrða um ágæti þess eða ómöguleika.
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.1.2019 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)