Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
23.11.2018 | 19:20
Gjörbreyttar forsendur sæstrengs
Það sem skiptir arðsemi sæstrengs máli er hvort það náist samningur við bresk stjórnvöld um orkuverð sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku kemur fram að það er þrisvar til fimm sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15 til 35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra, eða allt að sex til átta sinnum hærra.
Ofangreindur texti er úr nýlegri grein á vef Viðskiptablaðsins. Sökum þess að þarna er vitnað í þann sem hér slær á lyklaborð, er vert að taka eftirfarandi fram:
Arðsemistækifæri Íslands ekki hið sama og var
Fyrir nokkrum árum buðu bresk stjórnvöld geysihátt verð fyrir raforku frá nýrri kolefnislítilli raforkuframleiðslu. Á þeim tíma voru góðar líkur á að þetta gæti nýst sem mikið hagnaðartækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki og þá einkum Landsvirkjun með allt sitt stýranlega vatnsafl.
Það tækifæri var ekki nýtt af hálfu íslenskra stjórnvalda þá. Og í dag er staðan mjög breytt frá því sem þá var. Kostnaður vindorku hefur farið hratt lækkandi. Við Bretland og strendur meginlands Evrópu eru nú reistir vindmyllugarðar þar sem kostnaðurinn er orðinn svo lítill að það mun breyta mjög samsetningu raforkuframleiðslu í slíkum löndum.
Þessi þróun hefur óhjákvæmilega margvísleg áhrif. M.a. eru áhrifin þau að sæstrengur milli Íslands og Bretlands er ekki lengur það stóra hagnaðartækifæri fyrir Ísland sem var. Vissulega er ennþá líklegt að unnt væri að fá töluvert hærra verð fyrir íslenska raforku selda til Bretlands heldur en t.a.m. það verð sem stóriðjan hér greiðir. En möguleikinn á sexföldu eða áttföldu verði er horfinn. Segja má að sá möguleiki hafi rokið útí veður og vind!
Á hvers forræði yrði strengurinn?
Forsendur sæstrengs eru sem sagt gjörbreyttar frá því sem var fyrir nokkrum árum. Sæstrengsverkefnið er að vísu ennþá tækifæri fyrir Ísland sem vert er að skoða. En í dag liggur mesta hagnaðarvonin sennilega ekki hjá Landsvirkjun eða öðrum orkufyrirtækjum, heldur hjá eiganda sæstrengsins. Þess vegna er orðið áríðandi að íslensk stjórnvöld geri það að höfuðatriði málsins að tryggja með hvaða hætti þau geti stýrt arðsemi sæstrengs. Og fastsetji slíka löggjöf áður en slíkt verkefni verður að veruleika.
Fordæmi Norðmanna áhugavert
Einn möguleiki er auðvitað að innviðir eins og sæstrengir séu í eigu íslensks ríkisfyrirtækis. Það væri sambærileg leið eins og á við um eignarhald norska Statnett í öllum sæstrengjum Norðmanna sem lagðir hafa verið til þessa. Svo stórt verkefni kann þó t.a.m. að vera Landsneti ofviða (þar að auki er Landsnet ekki ríkisfyrirtæki).
Þess í stað væri mögulega unnt að fara svipaða leið eins og Norðmenn hafa gert vegna gaslagna sinna í Norðursjó. Þar hafa einkafyrirtæki fengið að fjárfesta í gaslögnunum sem tengja norsku gasvinnslusvæðin við Bretland og meginland Evrópu. En norska ríkið ræður flutningsgjaldinu og stjórnar í reynd arðsemi innviðanna.
Þetta er leið Norðmanna til að tryggja að norska þjóðin fái sem mest eða a.m.k. sanngjarnan hlut af þeim arði sem auðlindanýtingin skapar og kemur um leið í veg fyrir að fyrirtæki sem ræður yfir innviðum misnoti þá aðstöðu. Það er þjóðhagslega mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki þetta álitamál til meiri og nákvæmari skoðunar en verið hefur.
Til athugunar: Höfundur vinnur að vindorkuverkefnum á Íslandi í samstarfi við norrænt orkufyrirtæki. Þau verkefni miðast eingöngu við innlendan raforkumarkað (það gæti eðlilega breyst ef sæstrengur yrði lagður). Höfundur álítur að sæstrengur kunni að vera skynsamlegt verkefni, en slíkt verkefni þarfnast meiri skoðunar og umfjöllunar áður en hægt er að fullyrða um ágæti þess eða ómöguleika.
8.10.2018 | 10:14
Sæstrengsfyrirtæki horfir til HS Orku
Frá því í vor hefur 12,7% hluti í HS Orku verið til sölu. Sá sem vill selja er íslenskur fjárfestingasjóður sem kallast ORK, en hann er í eigu nokkurra íslenskra lífeyrissjóða og fleiri s.k. fagfjárfesta. Og nú berast fréttir um að búið sé að selja þessa eign ORK. Kaupandinn er sagður vera svissneskt félag, DC Renewable Energy, sem er nátengt bresku félagi sem vill leggja rafmagnskapal milli Bretlands og Íslands.
Umrædd kaup svissneska DC Renewable Energy á 12,7% eignarhluta í HS Orku eru háð því að aðrir eigendur HS Orku nýti ekki forkaupsrétt sinn. HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandinn á Íslandi og stærsti einstaki viðskiptavinur fyrirtækisins er álver Norðuráls (Century Aluminum) í Hvalfirði. Þá má nefna að HS Orka á stóran hlut í Bláa lóninu í Svartsengi.
Sá sem kaupir í HS Orku sér bersýnilega tækifæri í því að hækka raforkuverð HS Orku til álvers Norðuráls, en orkuverðið þar kemur einmitt til endurskoðunar eftir einungis nokkur ár. Við þetta bætist að gangi kaupin eftir verður 12,7% hluti í HS Orku í eigu fyrirtækis sem er nátengt breska Atlantic SuperConnection, sem stefnir að því að leggja sæstreng milli Bretlands og Íslands.
Lykilmaðurinn að baki báðum fyrirtækjunum, DC Renewable Energy og Atlantic SuperConnection (Disruptive Capital), er Edmund Truell. Hann segir fjárfestingastefnu sína byggjast á því að exploit dislocations in markets and unlock value from complex situations using a Get Rich and Stay Rich strategy.
Höfundur þessarar stuttu greinar er viss um að það yrði ábatasamt fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag að selja raforku til Bretlands, rétt eins og það er skynsamlegt fyrir okkur að flytja út fisk og sjávarafurðir. Um leið er mikilvægt að við sjálf stýrum því hvernig svona sæstrengsverkefni verður unnið og framkvæmt. Og að það verði fyrst og fremst til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina.
Það hvernig Disruptive Capital og Atlantic SuperConnection hefur kynnt sæstrengsverkefnið er um margt nokkuð sérkennilegt. Og það er nánast útilokað að sæstrengur Atlantic SuperConnection geti verið kominn í gagnið strax 2025, líkt og fyrirtækið hefur kynnt. En þó lengra verði í að slík viðskipti raungerist, er bersýnilegt að Truell trúir á verkefnið. Og með kaupum á umtalsverðum hlut í HS Orku virðist hann annað hvort vera að nálgast raforku fyrir sæstrenginn eða að reyna að koma sér í athyglisverða samningsstöðu gagnvart Norðuráli. Nema að hvort tveggja sé.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi kaup verða að veruleika eða hvort forkaupsréttarhafar ganga þarna inn í kaupin. En kannski væri skynsamlegt fyrir Norðurál að byrja strax að svipast um eftir annarri raforku í stað þeirrar sem álverið kaupir nú af HS Orku?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2018 | 17:45
Rís vindmyllugarður ofan við Búrfell?
Eftir nokkurra ára undirbúning Landsvirkjunar fyrir allt að 200 MW vindmyllugarð við hálendisbrúnina ofan við Búrfell taldi Skipulagsstofnun tilefni til að þau áform yrðu endurskoðuð. Sú endurskoðun af hálfu Landsvirkjunar stendur nú yfir og hefur fyrirtækið sagst stefna að minna verkefni. Og hyggst einnig breyta uppröðun og staðsetningu vindmyllanna. Í þessari grein verður athyglinni beint að þessum breyttu áformum Landsvirkjunar.
Staðsetningin andspænis Heklu virðist umdeild
Landsvirkjun hefur kallað verkefnið Búrfellslund. Kortið hér að neðan sýnir eina af þremur upphaflegum hugmyndum fyrirtækisins um hvar staðsetja mætti vindmyllugarðinn. Hinir kostirnir tveir gerðu ráð fyrir að flestar vindmyllurnar yrðu aðeins neðar á sléttunni þarna ofan Búrfells.
Skástrikaða svæðið við Þjórsá (á kortinu) er sem sagt einn af þeim valkostum sem Skipulagsstofnun taldi vera með þeim hætti að tilefni væri til að skoða hvort umfangsminni uppbygging eigi betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla. Á kortinu má líka sjá hvar núverandi tvær tilraunamyllur Landsvirkjunar eru staðsettar, en þær eru hvor um sig 0,9 MW.
Svæðið þarna ofan Búrfells hentar að mörgu leyti vel fyrir vindmyllur. Bæði eru vindaðstæður á svæðinu góðar (hár nýtingartími líklegur) og innviðir til staðar (háspennulínur, vegir o.fl.). Um leið yrði komist hjá þeirri röskun sem yrði ef vindmyllur yrðu þess í stað reistar á svæðum þar sem lengra er í nauðsynlega innviði. Dæmi um svæði sem hafa áhugaverðar vindaðstæður en eru fjarri öflugum háspennulínum eða ekki í sérlega góðu vegasambandi eru t.d. Melrakkaslétta og Gufuskálar á Snæfellsnesi.
Á móti kemur að þarna ofan við Búrfell er geysifögur fjallasýn og um svæðið liggur fjölfarin leið inn á hálendið. Það virðast fyrst og fremst hafa verið slík sjónræn áhrif - og þá ekki síst útsýnið til Heklu - sem ollu því að Skipulagsstofnun leist illa á staðsetninguna og umfangið á Búrfellslundi. En nú mun Landsvirkjun vera langt komin með að endurhanna verkefnið og þar með er kannski mögulegt að þarna rísi bráðum fyrsti vindmyllugarðurinn á Íslandi.
Vindmyllur eingöngu norðan vegar
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsvirkjun hefur birt hefur staðsetningu vindmyllanna verið hnikað til þannig að þær verði allar norðan (eða vestan) Sprengisandsvegar. Í fyrri hönnun eða tillögum voru myllurnar aftur á móti flestar eða margar sunnan (eða austan) vegarins og þar með í sjónlínu vegfarenda sem horfa til Heklu.
Það svæði sem nú er hugsað fyrir vindmyllurnar er líka töluvert minna en í fyrri tillögum fyrirtækisins. Enda er endurhannaða verkefnið sagt verða mikið minna en áður var fyrirhugað og sagt að það verði kannski 50-100 MW. En eins og áður sagði var upphaflega miðað við verkefni allt að 200 MW.
Verður Búrfellslundur tuttugu 4,2 MW vindmyllur?
Nýja staðsetningin á Búrfellslundi er afmörkuð með blástrikaða svæðinu á kortinu hér til hliðar (kortið er úr kynningu Landsvirkjunar). Vert er að taka fram að það er harla ólíklegt að Landsvirkjun verði við þeirri ábendingu Skipulagsstofnunar að vindmyllurnar verði lægri en áætlað var. Þvert á móti er tækniþróunin með þeim hætti að sennilega myndi Landsvirkjun nú vilja setja þarna upp vindmyllur sem yrðu öflugri og næðu jafnvel ennþá hærra upp en áður var fyrirhugað.
Miðað við þróun í vindorkutækninni er líklegt að Landsvirkjun muni vilja reisa vindmyllur þar sem hver og ein verður a.m.k. 4,2 MW að afli. Og miðað við heildarstærð vindmyllugarðs á bilinu 50-100 MW gætu þetta orðið ca. 12-25 stórar vindmyllur. En ekki 58-67 eins og áður var stefnt að. Og eins og áður sagði yrðu þetta sennilega ennþá hærri mannvirki en fyrri tillögur hljóðuðu upp á.
Margir staðir á Íslandi henta vel til að virkja vindinn
Forvitnilegt verður að sjá lokaútfærsluna af vindmyllugarði Landsvirkjunar þarna ofan Búrfells og hvað Skipulagsstofnun mun segja um hana. En þrátt fyrir breytta hönnun Búrfellslundar verður staðsetningin þarna andspænis Heklu sjálfsagt áfram umdeild. Sama á reyndar við um nánast hvert einasta virkjunarverkefni sem sett er á dagskrá; það er sjaldnast einhugur um slík verkefni. Núorðið er a.m.k. oftast mikill ágreiningur um bæði ný jarðvarma- og vatnsaflsverkefni. Og sama verður eflaust með vindmyllugarða.
Hér á Íslandi má víða finna svæði sem eru með góðar vindaðstæður. Og þó nokkur slík svæði eru bæði aðgengileg og hæfilega fjarri þéttbýli. Fyrir vikið ætti ekki að vera mjög flókið að staðsetja vindmyllugarða hér með þeim hætti að þeir valdi fólki ekki óægindum, hafi lítil umhverfisáhrif og bjóði samt upp á hagkvæma tengingu við öflugar háspennulínur í nágrenninu. En hvort vindmyllugarður í smækkaðri mynd ofan við Búrfell fær brautargengi, á eftir að koma í ljós.
26.8.2018 | 20:50
Norska olíuævintýrið í hámarki
Um aldamótin síðustu leit út fyrir að norska olíuævintýrið hefði náð hámarki. Og að þaðan í frá myndi framleiðslan minnka. En með aukinni vinnslu á jarðgasi og óvæntum fundi nýrra mjög stórra olíulinda á norska landgrunninu hefur þetta mikla efnahagsævintýri Norðmanna verið framlengt. Nú er þess vænst að olíu- og gasvinnslan muni aukast rólega fram til 2023. En eftir það muni hnignunin byrja. Og hún gæti orðið nokkuð hröð.
Umfang olíu- og gasvinnslunnar á norska landgrunninu er með ólíkindum. Einungis eitt ríki framleiðir meira af olíu og jarðgasi úr landgrunninu, en það er Saudi Arabía. Þar á eftir koma Noregur og Katar. Þegar litið er til höfðatölu ber Katar þarna höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir (einkum vegna risavaxinna gaslinda undir botni Persaflóans). Þar á eftir koma einmitt Norðmenn, ásamt nokkrum öðrum fámennum olíuframleiðendum eins og Brunei, Kuwait og Trinidad og Tobago. Engu að síður eru það Norðmenn sem eiga stærsta olíusjóðinn. Og reyndar eiga Norðmenn stærsta ríkisfjárfestingasjóð heimsins.
Það voru skemmtileg tímamót þegar verðmæti norska Olíusjóðsins fór yfir 1.000 milljarða USD á liðnu ári. Í dag er verðmætið nálægt 1.028 milljarðar USD. Þetta jafngildir því (m.v. fólksfjölda) að við Íslendingar ættum sparibauk með u.þ.b. 60 milljörðum USD (sem jafngildir um 6.500 milljörðum ISK) og það vel að merkja allt í erlendum gjaldeyri. Nú er bara að bíða og sjá hversu stór íslenski auðlindasjóðurinn verður. Og þá væntanlega með sínu sjávarauðlindagjaldi og Landsvirkjunarhagnaði.
Viðskipti og fjármál | Breytt 31.8.2018 kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2018 | 10:56
Straumhvörf í raforkugeiranum
Mikill vöxtur hefur verið í nýtingu á vind- og sólarorku síðustu árin. Nú er liðinn u.þ.b. áratugur síðan sá sem þetta skrifar byrjaði að sjá tækifæri í þessum tegundum raforkuframleiðslu. Þá virtist sem bjartast væri framundan í nýtingu sólarorku, enda voru mjög góðar horfur á hratt lækkandi kostnaði þar. Reyndin varð þó sú að það var ekki síður vindorkan sem varð sífellt hagkvæmari. Enda hefur töluvert meira verið fjárfest í vindorku en sólarorku, sbr. grafið hér að neðan.
Eins og sjá má á þessu súluriti náði samanlagt uppsett afl í sólar- og vindorku nýverið yfir 1000 GW (milljón MW). Til samanburðar má hafa í huga að uppsett afl allra virkjana á Íslandi í dag er tæplega 3 GW (um 2.800 MW). Allt uppsett afl á Íslandi samsvarar því að vera svipað og 0,3% af uppsettu afli í vind- og sólaorku.
Í dag er raforkuframleiðsla nýrra og nýlegra vindmyllugarða víða orðin ódýrari en allra annarra tegunda nýrra raforkuvera. Umrædd lækkun á kostnaði í vindorku, ásamt svipaðri þróun í sólarorkugeiranum, gæti valdið straumhvörfum í raforkuframleiðslu heimsins. Fyrirtæki sem sérhæfa sig í að fylgjast með þróuninni í orkugeiranum spá því sum að á næstu þremur áratugum muni hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu heimsins fara úr núverandi tæplega 25% í næstum því 65%! Sbr. grafið hér að neðan.
Áætlað er að þess mikla aukning í framleiðslu raforku með endurnýjanlegum hætti verði fyrst og fremst vegna nýrra vind- og sólarorkuvera. Og þó svo ávallt beri að taka svona tölum með fyrirvara, virðist líklegt að stór hluti af nýju raforkuframboði héðan í frá muni koma frá nýjum vindmyllugörðum. Þessi þróun mun ekki aðeins breyta raforkugeiranum I löndum sem ennþá eru mjög háð kolum og kjarnorku, heldur einnig hafa áhrif hér á Íslandi. Í framtíðinni mun t.d. stóriðjan í vaxandi mæli njóta ódýrrar vindorku og vatnsaflið í auknum mæli verða í hlutverki jöfnunar. Þessi þróun er nú þegar t.d. komin á góðan skrið í Skandinavíu og skynsamlegt að íslenski raforkugeirinn fari að búa sig undir þessa þróun.
Viðskipti og fjármál | Breytt 20.8.2018 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2018 | 11:17
Statoil orðið Jafnaðarnorður
Heimurinn er að breytast og líka Statoil. Sagði stjórnarformaður Statoil í mars s.l. þegar hann tilkynnti að senn fengi þetta stærsta fyrirtæki Norðurlandanna nýtt nafn. Sumir héldu jafnvel að um snemmborið aprílgabb væri að ræða. Hér er fjallað um þessa óvæntu nafnabreytingu og nýjar áherslur fyrirtækisins um að stórauka fjárfestingar í endurnýjanlegri orku.
Já - það kom mörgum á óvart þegar norski olíurisinn Statoil tilkynnti að fyrirtækið myndi brátt breyta um nafn og taka upp nafnið Equinor. Nýja nafnið tók formlega gildi með samþykkt aðalfundar Statoil um miðjan maí s.l. og þar með hætti nafn fyrirtækisins að endurspegla olíu og ríkiseign. Að sögn ljúflinganna hjá Statoil vísar nýja nafnið annars vegar til jöfnuðar (equi) og hins vegar til Noregs (nor) og er af þeirra hálfu sagt að þetta nýja nafn endurspegli vel bæði arfleifð og framtíðaráherslur fyrirtækisins. Þarna var þó augljóslega ekki farin jafn þjóðleg leið við nafnabreytinguna eins og þegar nafni danska orkufyrirtækisins Dong Energi var nýlega breytt í Ørsted.
Mögulega mætti þýða nýja nafnið Equinor sem Jafnaðarnorður? Um aðdraganda nafnabreytingarinnar er það að segja að undanfarin ár hefur Statoil m.a. verið að hasla sér völl í beislun vindorku á hafi úti. Fyrirtækið á nú þegar þrjá stóra vindmyllugarða við strendur Bretlands og er með fleiri í undirbúningi.
Einn af þessum vindmyllugörðum er Hywind, um 30 km utan við bæinn Peterhead í Skotlandi. Hywind hefur þá miklu sérstöðu að þar eru risavaxnar vindmyllurnar ekki festar í hafsbotninn, heldur eru þær fljótandi og liggja fyrir akkerum! Þetta er mikið frumkvöðlaverkefni og það er ekki síst þessi útfærsla á orkuframleiðslu sem Statoil - og nú Equinor - hyggst veðja á í framtíðinni. Auk þess auðvitað að halda áfram að vinna olíu og gas handa okkur að brenna.
Ennþá er það nær eingöngu vindorkan úti í sjó sem Equinor sinnir auk gömlu kjarnastarfseminnar. Nýlega byrjaði fyirtækið þó að höndla með raforku, þ.e. kaupa og selja rafmagn á norrænum raforkumarkaði. Áhugavert verður að sjá hvernig sú starfsemi Equinor mun þróast. Á komandi árum og áratugum er svo fyrirhugað að Equinor stórauki fjárfestingar í margvíslegri endurnýjanlegri orku.
Rétt er að taka fram að olíu- og gasvinnslan er áfram algert hryggjarstykki í starfsemi Equinor og allt annað nánast smáatriði í rekstrinum. Og það eru heldur engar grundvallarbreytingar að verða í eignarhaldi fyrirtækisins, þar sem norska ríkið er með sterkan meirihluta (2/3). Það er því kannski ekki að undra að sumum þyki nafnabreytingin óþarfi og jafnvel furðuleg. Einhver sagði nýja nafnið sæma betur ævintýrahesti í Game of Thrones fremur en þessu mikilvæga og gamalgróna fyrirtæki í norsku efnahagslífi.
Þess má í lokin geta að kostnaður vegna nafnabreytingarinnar er sagður hafa numið sem samsvarar um þremur milljörðum íslenskra króna. Kannski má segja að þetta séu algerir smáaurar í veltu Equinor, því til samanburðar voru heildartekjur fyrirtækisins fyrsta ársfjórðunginn með nýja nafnið, um 18 milljarðar USD eða sem nemur um 1.900 milljörðum íslenskra króna. Þriggja mánaða tekjur Equinor eru sem sagt meira en tvöfaldar árstekjur íslenska ríkisins!
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.8.2018 kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2018 | 14:04
Vindorkan orðin hagkvæmust
Fyrirtæki sem nota mikið rafmagn leggja eðlilega mikið upp úr því að leita eftir ódýrustu raforkunni. Um leið skiptir það þau miklu ef unnt er að tryggja að rafmagnsverðið rjúki ekki skyndilega upp. Þess vegna hafa slík fyrirtæki löngum sóst eftir langtímasamningum með föstu orkuverði eða að verðið sé tengt þeirra eigin afurðaverði. Þannig draga þau mjög úr áhættu sinni. En nú eru að verða athyglisverðar breytingar í þess háttar viðskiptum, þar sem vindorkan er að leysa vatnsaflið af hólmi sem hagkvæmasti kosturinn fyrir stóra raforkunotendur.
Frá vatnsafli til vindorku
Sögulega hafa samningar af þessu tagi, þ.e. um hagstætt raforkuverð til langs tíma, einkum verið við fyrirtæki sem reka stórar vatnsaflsvirkjanir. Slíkar virkjanir hafa boðið upp á það að selja raforku á hvað lægstu verði og það til langs tíma. Í dag er staðan aftur á móti víða orðin sú að vatnsaflsfyrirtæki sjá sér fremur hag í því að selja framleiðslu sína inn á almennan markað. Þess í stað eru það vindorkufyrirtæki sem nú bjóða oft hagkvæmustu samningana fyrir stórnotendur. Þetta er algerlega nýr raunveruleiki og mun vafalítið hafa veruleg áhrif á raforkuviðskipti víða um heim á komandi árum.
Norræn fyrirtæki í fararbroddi
Það eru sem sagt nýir vindmyllugarðar sem nú bjóða hagkvæmustu langtímasamningana í raforkuviðskiptum. Þetta á einkum við í Evrópu en þekkist þó víðar um heiminn. Þarna hafa norræn orkufyrirtæki verið brautryðjendur og einnig hafa svona samningar orðið algengari í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum.
Lengsti vindorkusamningurinn til þessa er til 29 ára
Bestu norrænu dæmin um svona langtímasamninga vindorkufyrirtækja og stórnotenda um raforkuviðskipti er raforkusala til álfyrirtækja í Noregi. Þar hafa bæði Alcoa og Norsk Hydro verið að gera samninga um kaup á miklu orkumagni frá vindmyllugörðum í Noregi og Svíþjóð. Nýjasti samningurinn af þessu tagi er jafnframt sá sem var að slá met í gildistíma. Þar samdi Norsk Hydro um kaup á nálægt 800 GWst árlega frá 235 MW vindmyllugarði í Svíþjóð.
Það er til marks um umfang þessa samnings að hann samsvarar um 75% af allri raforkunotkun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Og þessi nýjasti stóri vindorkusamningur í Skandinavíu er vel að merkja í takti við ýmsa aðra svipaða samninga sem gerðir hafa verið undanfarin misseri, nema hvað samningstíminn þarna er óvenju langur eða 29 ár. Talið er að þetta sé lengsti samningur um kaup á vindorku sem gerður hefur verið í heiminum til þessa.
Þróunin á Íslandi kann að verða svipuð
Þessi langi samningstími er mjög táknrænn fyrir það að tæknin í vindorkunni er ekki aðeins að verða sífellt betri og ódýrari, heldur eru vindmyllurnar líka að verða einfaldari í viðhaldi. Nú eru vindmyllugarðar sem sagt álitnir bæði hagkvæmir og lítt áhættusamir í rekstri.
Til að unnt sé að nýta ódýra vindorku í miklum mæli þurfa að vera fyrir hendi raforkuver sem geta jafnað út framleiðslusveiflur vindmyllugarða. Í sumum löndum eru það einkum gasorkuver sem eru í því hlutverki, en í Noregi og Svíþjóð eru það stóru vatnsaflsfyrirtækin sem sjá sér hag í því að sinna þessum hluta raforkumarkaðarins.
Með svipuðum hætti og hjá norrænu frændum okkar er líklegt að stóra íslenska vatnsaflsfyrirtækið, Landsvirkjun, sjái hag í svona viðskiptum. Það gæti bæði gerst með því að fyrirtækið reisi sína eigin vindmyllugarða og komi að samningum við önnur fyrirtæki um vindorkuviðskipti og/eða verði í hlutverki varafls. Þarna eru ýmsir áhugaverðir möguleikar.
Vegna einangrunar íslenska raforkumarkaðarins er sennilegt að hér verði þróunin ekki alveg með sama hætti og í Skandínavíu. En það er næsta víst að lækkandi kostnaður vindorkunnar muni óhjákvæmilega hafa áhrif á orkumarkaðinn hér, rétt eins og annars staðar.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2018 | 09:10
Lögmál Ørsteds
Gömlu norrænu olíufyrirtækin eru skyndilega horfin. Að vísu ekki rekstur þeirra, heldur nöfnin. Fyrirtækið Statoil er ekki lengur til. Því nafni þessa norska olíurisa var nýverið breytt og heitir þetta tíunda stærsta olíu- og jarðgasfyrirtæki heimsins á hlutabréfamarkaði nú Equinor.
Hitt rótgróna norræna olíufyrirtækið, sem nú hefur skipt um nafn, er danska Dong Energi. Hér verður staldrað við vendingar Dong, sem nú hyggst alfarið kveðja skítugu kolvetnisorkuna og einbeita sér að grænni framtíð á alþjóðlegum markaði. Undir nýju perudönsku nafni; Ørsted!
Kolsvarta DONG
Danir fóru aðra leið en Norðmenn þegar olíuævintýrið byrjaði í Norðursjó fyrir næstum hálfri öld. Í stað þess að ríkisfyrirtæki yrði leiðandi í dönsku vinnslunni, líkt og Statoil varð í Noregi, var það einkafyrirtækið A.P. Møller Mærsk sem þar varð leiðandi. Engu að síður vildi danska ríkið líka stússa í vinnslu á svarta gullinu og fór sá rekstur fram undir merkjum Dansk olie og naturgas; síðar kennt við skammstöfunina Dong (sem mun reyndar eiga að skrifa með hástöfum; DONG).
Norska Statoil varð miklu stærra olíufyrirtæki en danska Dong og var svo skráð á hlutabréfamarkað, meðan Dong var áfram hefðbundnara ríkisfyrirtæki. Ýmislegt fleira hefur verið ólíkt með þessum norrænu fyrirtækjum og þá m.a. það að Dong var og er umsvifamikið í raforkuframleiðslu. Þar er fyrirtækið í yfirburðastöðu á danska raforkumarkaðnum. Lengst af var mestöll raforka Dong framleidd í fjölda kolaorkuvera og því má segja að öll kjarnastarfsemi fyrirtækisins hafi byggst á kolsvörtum kolvetnisbruna.
Danir virkja vindinn
Í kjölfar olíukreppunnar á 8. áratugnum fóru Danir að leita leiða til að verða sjálfbærari um orku. Það er þá sem danska fyrirtækið Vestas byrjar að hanna og þróa lilar vindmyllur. Og þar liggja rætur þess að í dag er Vestas einn stærsti vindmylluframleiðandi heimsins.
Annað dæmi um hugvit og verktækni Dana í vindorkunni er fyrirtækið LM Wind Power (áður LM Glasfiber). Þar þróaðist framleiðslan frá bátum og skútum yfir í vindmylluspaða og í dag er LM Wind Power í fararbroddi í framleiðslu stærstu vindmylluspaðanna. Fyrirtækið var selt til vindorkuarms risafyrirtækisins General Electric árið 2017.
Frá olíu og kolum yfir í vindorku
Eftir því sem vindorkutæknin þróaðist tók orkufyrirtækið Dong að setja upp vindmyllur í Danmörku og smám saman vann vindorkan á sem umtalsverður hluti raforkuframleiðslu Dong. Um 1990 reisti fyrirtækið fyrsta vindmyllugarð heims úti í sjó, við strönd dönsku eyjarinnar Lolland. Þar var afl hverrar vindmyllu 0,45 MW, sem er t.d. helmingi minna en vindmyllur Landsvirkjunar sem standa á Hafinu ofan við Búrfell. Það er ekki fyrr á síðustu tveimur áratugum sem byrjað er að framleiða það sem kalla má stórar nútímalegar vindmyllur, þar sem afl hverrar myllu er nokkur megavött (MW).
Dong varð sem sagt frumkvöðull í að nýta vindorkuna úti í sjó og í dag einbeitir Ørsted sér að slíkum stórum vindmyllugörðum. Það er nú stærsta fyrirtæki heims í þeim bransa og ætlar héðan í frá alfarið að einbeita sér að endurnýjanlegri orku. Meðal núverandi verkefna fyrirtækisins er s.k. Hornsea Wind verkefni á grynningunum utan við Jórvíkurskíri á Englandi. Fullbyggður á þessi risavaxni vindmyllugarður að verða allt að 6.000 MW. Dong, þ.e. Ørsted, er þó vel að merkja enn með mörg kolaorkuver í rekstri og ekki ráðgert þeim öllum verði lokað. Þess í stað stendur til að umbreyta þeim í lifmassaorkuver.
Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe kaupir dönsku ríkisolíuna
Olíuverðlækkunin sem varð í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008 kom mjög illa við ríkisfyrirtækið Dong Energi. Upp úr því ákvað danska ríkisstjórnin að selja hluta félagsins og skrá það á hlutabréfamarkað. Þetta gerðist með sölu á um fimmtungshlut í Dong til bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs árið 2013 og skráningu félagsins á markað í framhaldi þeirrar sölu. Þessi viðskipti við Goldman Sachs voru umdeild og ekki síður hvernig sumir stjórnendur Dong högnuðust hressilega á sölunni. En það er önnur saga.
Í kjölfar þessara viðskipta með ríkisfyrirtækið Dong var svo stigið það grundvallarskref að selja alla olíu- og gasvinnslu fyrirtækisins. Og sá sem keypti herlegheitin var enginn annar en Jim Ratcliffe, þ.e. fyrirtæki hans Ineos. Sá hinn sami og hefur verið stórtækur í jarðakaupum austur á landi, en Ratcliffe mun nú vera ríkasti einstaklingur á Bretlandi.
Alþjóðlega vindorkufyrirtækið Ørsted
Nýjasta vendingin hjá DONG var að fylgja áherslubreytingu sinni eftir með því að breyta nafni fyrirtækisins og taka upp hið þjála (sic) nafn Ørsted. Kannski má þó segja að Ørsted sé skemmtilegra og efnismeira nafn en hið ósjarmerandi nýja nafn Statoil; Equinor.
Nýja nafnið vísar til danska vísindamannsins Hans Christian Ørsted. Margir Íslendingar kannast sjálfsagt við það nafn úr ferðum sínum til Kóngsins Köben, þar sem við höfum bæði H.C. Ørstedsvej og Ørstedsparken! Utan Danmerkur er Ørsted þó sennilegar þekktastur fyrir lögmál sitt um hvernig segulsvið myndast umhverfis rafmagnsleiðara.
Og nú er Ørsted sem sagt heiðraður með því að stærsta orkufyrirtæki Danmerkur tekur upp nafn hans. Afkomendur gamla H.C. Ørsted eru reyndar lítt hrifnir af því að fyrirtæki úti í bæ taki nafn þeirra þannig traustataki. En hvað sem því líður, þá mega Danir eiga það að þeir standa mjög framarlega í margvíslegri tækni og þekkingu og það verður spennandi að fylgjast með hvernig Ørsted mun þróast og dafna.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2018 | 20:41
Rís rándýr virkjun í norðri?
Áhugavert er að skoða samanburð á kostnaði íslenskra virkjana. Þá sést að kostnaðurinn þar er mjög mismunandi. T.a.m. er fyrirhuguð Hvalárvirkjun á Ströndum í þessu samhengi ansið dýr virkjun. Samt er mikill áhugi á að reisa virkjunina. Sá vilji virðist endurspegla ákveðna óhagkvæmni í rekstri íslenska virkjanakerfisins.
Kostnaðarsamanburður virkjana
Þegar fjallað er um kostnað nýrra virkjana á Íslandi er nærtækast að miða við tölur sem settar voru fram í skýrslu sem unnin var fyrir Samorku fyrir um tveimur árum og er birt á vef samtakanna. Í skýrslunni er kostnaðinum dreift á framleidda raforku á líftíma virkjunarinnar og þá fæst kostnaður á hverja framleidda orkueiningu (oft miðað við eina MWst eða eina kWst). Á ensku er í þessu sambandi talað um levelized cost of energy; LCOE. Þetta er að vísu ekki gallalaus aðferð. En er engu að síður alþekkt og almennt viðurkennd sem nokkuð skynsamleg leið til að bera saman fjárhagslega hagkvæmni ólíkra virkjunarkosta.
Hvalárvirkjun er nokkuð dýr virkjunarkostur
Samkvæmt áðurnefndri skýrslu, sem unnin var fyrir Samorku, er LCOE vegna Hvalárvirkjunar 49,70 USD/MWst. Til samanburðar má nefna að skv. sömu skýrslu er LCOE vegna hinnar nýju Þeistareykjavirkjunar 28,90 USD/MWst og LCOE vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár er 38,80 USD/MWst. Og LCOE vegna mögulegrar jarðvarmavirkjunar í Eldvörpum er sagður vera 44,80 USD/MWst. Hvalárvirkjun er því nokkuð dýr virkjunarkostur. Þar að auki yrði afar kostnaðarsamt að tengja virkjunina við flutningskerfi Landsnets. Þegar/ ef það er tekið með í reikninginn myndi samanburðurinn gera Hvalárvirkjun ennþá dýrari.
Hvalárvirkjun miklu dýrari en almennt raforkuverð
Í tilvitnaðri skýrslu er viðmiðunargengi USD sem nemur 125 íslenskum krónum (ISK). Í dag er gengið nær 110 ISK. Slíkar gengissveiflur hafa ekki stórfelld áhrif á samanburð virkjunarkostanna. Þess má geta að Hvalárvirkjun hefur ekki verið kynnt sem raforkukostur fyrir stóriðju. Þess vegna virðist mega ganga út frá því að raforkusalan frá virkjuninni verði fyrst og fremst til almennra notenda og t.a.m. mögulega einnig til smærri stórnotenda eins og gagnavera. Í reynd er þó orkan frá Hvalárvirkjun ekki eyrnamerkt einstökum tegundum raforkunotenda.
Almennt heildsöluverð á rafmagni á liðnu ári (2017) var að meðaltali nálægt 4,5 ISK/kWst sem jafngildir 4.500 ISK/MWst. Meðalgengi USD og ISK árið 2017 var 106,78 og því var almennt raforkuverð hér árið 2017 um 42 USD/MWst að meðaltali. Þetta verð er nokkuð fjarri LCOE upp á 49,70 sem reiknað hefur verið út vegna Hvalárvirkjunar (auk þess sem tengikostnaður við flutningsmannvirkin eru ekki innifalinn í þeirri tölu). Samkvæmt þessu er Hvalárvirkjun töluvert dýrari en almennt raforkuverð hér réttlætir.
HS Orka veit hvar hagkvæmni Hvalárvirkjunar liggur
Af framangreindu ætti að vera augljóst að Hvalárvirkjun er dýr virkjunarkostur. Og miðað við almennt raforkuverð gengur virkjunin ekki upp fjárhagslega. En veruleikinn er ekki alveg svona einfaldur. Fyrirtækið sem á meirihlutann í þessu virkjunarverkefni, HS Orka, sér bersýnilega einhverja hagkvæmni í virkjuninni. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða útreikningar eða áætlanir liggja þar að baki og verðum því að reyna að geta okkur til þess.
Liggur hagkvæmni Hvalárvirkjunar í dýru toppafli frá Landsvirkjun?
Höfundur veit ekki fyrir víst af hverju HS Orka sér hagkvæmni við Hvalárvirkjun. Aftur á móti má vekja athygli á því að þau sem standa að samstarfshópnum Jarðstrengir hafa fært rök fyrir því að HS Orku sé mikilvægt að ráða yfir nýrri nokkuð stórri vatnsaflsvirkjun til að geta uppfyllt alla raforkusölusamninga sína. Eða ella kaupa dýrt toppafl af Landsvirkjun.
Samkvæmt skrifum Jarðstrengja kaupir HS Orka verulegt magn af rafmagni til að mæta álagstoppum og í þeim viðskiptum er fyrirtækið mjög háð framboði og verðlagningu Landsvirkjunar. Og að Hvalárvirkjun hafi fyrst og fremst þann tilgang að minnka eða losa HS Orku undan þessum dýru toppaflskaupum.
Jarðstrengir kunna þarna að hafa nokkuð til síns máls. Þannig segir berum orðum í gögnum Orkustofnunar um Hvalárvirkjun (viðauki 05 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/02) að virkjunin muni nýtast best eigendum sínum sem toppafls virkjun. Þetta orðalag kann að vera vísbending um að tilgangur virkjunarinnar sé einmitt fyrst og fremst að mæta toppaflsþörf HS Orku. Í tilviki ekki stærri vatnsaflsvirkjunar með miðlun er augljóslega hagkvæmt að nýta virkjunina með þessum hætti. Um leið má hafa í huga að skv. skrifum Jarðstrengja er HS Orka að greiða Landsvirkjun sem nemur 150-200 USD/MWst fyrir raforku á álagstímum.
Huga þarf að aukinni hagkvæmni í raforkukerfinu
Miðað við uppgefna kostnaðartölu Hvalárvirkjunar, sbr. hér fyrr í greininni, virðist sem Jarðstrengir kunni að hafa lesið rétt í það hvert viðskiptamódel Hvalárvirkjunar sé. Þ.e. að HS Orka vilji minnka verulega þörf sína á að kaupa dýrt toppafl frá Landsvirkjun (jafnvel þó svo verðið á því sé leyndarmál og því óvíst).
Það er ekki heppilegt ef reyndin er sú að orkufyrirtæki þurfi að reisa svo dýra 55 MW virkjun norður á Ströndum til að mæta toppafli. Sennilega er til betri leið til að tryggja raforkugeiranum nægt rafmagn til að uppfylla orkusölusamninga sína. Hvernig væri t.a.m. að reyna að ná meiri hagkvæmni út úr hinu stóra íslenska vatnsaflskerfi? Kerfinu sem þegar er til staðar.
Í reynd liggur töluverð innbyggð offjárfesting í hinu stóra kerfi miðlunarlóna og vatnsaflsvirkjana sem Landsvirkjun ræður yfir. Sú offjárfesting kemur til af því að Landsvirkjun þarf að hafa borð fyrir báru til að geta uppfyllt orkusölusamninga sína á misgóðum vatnstímabilum. Þar skipta samningarnir við stóriðjufyrirtækin fjögur mestu máli.
Samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar er meðalnýting íslensku vatnsaflsvirkjananna um 66%. Það væri þjóðhagslega æskilegt að finna leiðir til að þetta stóra kerfi geti skilað meri raforku með lágmarks tilkostnaði. Þannig myndu allir fá ávinning; bæði Landsvirkjun, önnur raforkufyrirtæki og neytendur. Og það er reyndar augljóst hvernig þetta markmið gæti náðst með hagkvæmum hætti. Sem er með samspili þessa gríðarstóra vatnsaflskerfis og ódýrrar vindorku. Það ánægjulegasta við tíðindin af lækkandi kostnaði vindorku er tvímælalaust að þetta skapar hagkvæma leið til að auka hér raforkuframboð án eins mikils tilkostnaðar eins og ella væri.
----------------------------
Höfundur vinnur að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki. Hér til hliðar má sjá nýjasta kostnaðarmat Lazard á mismunandi virkjunarkostum og þar er vindorkan nú með lægstan kostnað; allt niður í 30 USD/MWst. Þessar tölur Lazard eru frá 2017, en þess má geta að nú eru vísbendingar um að raforkuframleiðsla með sólarsellum á hagkvæmum svæðum sé að verða ódýrasta tegundin af nýjum raforkuverkefnum. Svo myndi ekki vera á Íslandi (of lítil meðalgeislun), en hér á landi eru aftur á móti vindaðstæður með því besta sem gerist í heiminum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2018 | 10:10
Bætt nýting orkukerfisins með betra flutningskerfi
Verulegt átak þarf til að bæta flutning og dreifingu á raforku um landið og Landsnet þarf að byggja upp traust gagnvart því að velja réttu leiðina fyrir nýjar háspennulínur. Þetta er álit forstjóra Landsvirkjunar (LV) og kom nýverið fram í viðtali á morgunútvarpi RÚV, en LV er einmitt langstærsti eigandi Landsnets. Við sama tækifæri sagði forstjóri LV að leita þurfi leiða til að setja háspennulínur í meira mæli í jörð og veita Landsneti aukið kostnaðarsvigrúm. Enda eru jarðstrengir oftast dýrari kostur en loftlínur.
Þessi áhersla LV á bætt flutningskerfi rafmagns á Íslandi kemur ekki á óvart. Með bættu flutningskerfi myndi nýting raforkukerfisins verða betri og kerfið skila meiri hagkvæmni. Þessari auknu hagkvæmni má skipta í tvo meginflokka:
- Annars vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að gera kleift að koma meiru af raforku frá núverandi virkjunum til notenda. Besta dæmið um þetta snýr sennilega að hinni nýju Þeistareykjavirkjun. Þar hyggst kísilver PCC á Bakka við Húsavík nota um 60 MW af heildarafli virkjunarinnar sem er alls 90 MW. Þarna verður talsvert afl sem ekki mun nýtast miðað við núverandi flutningsgetu. Núverandi háspennulínur frá Þeistareykjavirkjun myndu t.a.m. ekki ráða við að flytja umtalsvert aukið magn raforku til álversins á Reyðarfirði, loðnuverksmiðja á Austurlandi né til Eyjafjarðarsvæðisins.
- Hins vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að unnt yrði að nýta hagkvæmustu orkukostina við byggingu nýrra virkjana. Þar má t.d. nefna möguleikann á að byggja s.k. Blönduveitu. Með henni væri unnt að auka raforkuframleiðsluna í Blöndu verulega með hagkvæmum hætti. En eins og staðan er núna væri ekki unnt að koma raforkunni þaðan til þeirra svæða þar sem eftirspurnin er. Enn er óvíst hvenær Landsnet nær að mæta flutningsþörf þessarar hagkvæmu virkjunarframkvæmdar.
Einnig þarf að huga að styrkingu flutningskerfisins til að geta nýtt þann orkukost sem nú er að verða ódýrastur. Sem er vindorkan. Þar fer kostnaðurinn jafnt og þétt lækkandi og er nú svo komið að raforkuframleiðsla af því tagi (í samspili við núverandi vatnsaflskerfi) gæti mætt aukinni raforkuþörf á Íslandi með afar hagkvæmum hætti. Fyrir vikið má vænta þess að Landsnet sé farið að skoða hvar líklegast sé að stórir vindmyllugarðar komi til með rísa hér.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.