Lögmál Ørsteds

Gömlu norrænu olíufyrirtækin eru skyndilega horfin. Að vísu ekki rekstur þeirra, heldur nöfnin. Fyrir­tækið Stat­oil er ekki lengur til. Því nafni þessa norska olíu­risa var ný­ve­rið breytt og heitir þetta tíunda stærsta olíu- og jarð­gas­fyrir­tæki heimsins á hluta­bréfa­mark­aðiEquinor.

Hitt rótgróna norræna olíufyrir­tækið, sem nú hefur skipt um nafn, er danska Dong Energi. Hér verður staldrað við vend­ing­ar Dong, sem nú hyggst al­far­ið kveðja skít­ugu kol­vetn­is­ork­una og ein­beita sér að grænni fram­tíð á alþjóð­leg­um mark­aði. Undir nýju peru­dönsku nafni; Ørsted!

Kolsvarta DONG

Danir fóru aðra leið en Norð­menn þegar olíu­ævin­týrið byrjaði í Norður­sjó fyrir næst­um hálfri öld. Í stað þess að ríkis­fyrir­tæki yrði leið­andi í dönsku vinnsl­unni, líkt og Statoil varð í Noregi, var það einka­fyrir­tækið A.P. Møller – Mærsk sem þar varð leið­andi. Engu að síður vildi danska rík­ið líka stússa í vinnslu á svarta gull­inu og fór sá rekstur fram und­ir merkj­um Dansk olie og naturgas; síðar kennt við skamm­stöf­un­ina Dong (sem mun reynd­ar eiga að skrifa með há­stöfum; DONG).

Norska Statoil varð miklu stærra olíufyrirtæki en danska Dong og var svo skráð á hluta­bréfa­markað, meðan Dong var áfram hefð­bundnara ríkis­fyrir­tæki. Ýmis­legt fleira hefur ver­ið ólíkt með þess­um norrænu fyrir­tækj­um og þá m.a. það að Dong var og er um­svifa­mikið í raf­orku­fram­leiðslu. Þar er fyrir­tækið í yfir­burða­stöðu á danska raf­orku­mark­aðnum. Lengst af var mest­öll raf­orka Dong fram­leidd í fjölda kola­orku­vera og því má segja að öll kjarna­starf­semi fyrir­tækis­ins hafi byggst á kol­svörtum kol­vetnis­bruna.

Danir virkja vindinn

Í kjölfar olíukreppunnar á 8. áratugnum fóru Danir að leita leiða til að verða sjálf­bær­ari um orku. Það er þá sem danska fyrir­tækið Vestas byrjar að hanna og þróa lilar vind­myllur. Og þar liggja ræt­ur þess að í dag er Vestas einn stærsti vind­myllu­fram­leið­andi heimsins.

LM-Wind-Power-1Annað dæmi um hugvit og verk­tækni Dana í vind­ork­unni er fyrir­tækið LM Wind Power (áður LM Glas­fiber). Þar þró­aðist fram­leiðsl­an frá bát­um og skút­um yfir í vind­myllu­spaða og í dag er LM Wind Power í farar­broddi í fram­leiðslu stærstu vind­myllu­spað­anna. Fyrir­tækið var selt til vind­orku­arms risa­fyrir­tækis­ins General Electric árið 2017.

Frá olíu og kolum yfir í vindorku

Eftir því sem vindorkutæknin þró­að­ist tók orku­fyrir­tækið Dong að setja upp vind­myllur í Dan­mörku og smám sam­an vann vind­orkan á sem um­tals­verður hluti raf­orku­fram­leiðslu Dong. Um 1990 reisti fyrir­tækið fyrsta vind­myllu­garð heims úti í sjó, við strönd dönsku eyjar­inn­ar Lolland. Þar var afl hverrar vind­myllu 0,45 MW, sem er t.d. helm­ingi minna en vind­myllur Lands­virkj­unar sem standa á Hafinu ofan við Búrfell. Það er ekki fyrr á síð­ustu tveim­ur ára­tug­um sem byrjað er að fram­leiða það sem kalla má stór­ar nú­tíma­leg­ar vind­myllur, þar sem afl hverrar myllu er nokk­ur mega­vött (MW).

Dong varð sem sagt frum­kvöðull í að nýta vind­ork­una úti í sjó og í dag ein­beitir Ørsted sér að slík­um stór­um vind­myllu­görðum. Það er nú stærsta fyrir­tæki heims í þeim bransa og ætl­ar héð­an í frá al­far­ið að ein­beita sér að endur­nýjan­legri orku. Meðal nú­ver­andi verk­efna fyrir­tæk­is­ins er s.k. Hornsea Wind verkefni á grynn­ing­un­um utan við Jór­vík­ur­skíri á Eng­landi. Full­byggð­ur á þessi risa­vaxni vind­myllu­garður að verða allt að 6.000 MW. Dong, þ.e. Ørsted, er þó vel að merkja enn með mörg kola­orku­ver í rekstri og ekki ráð­gert þeim öllu­m verði lokað. Þess í stað stend­ur til að um­breyta þeim í lif­massa­orkuver.

Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe kaupir dönsku ríkis­olíuna

Olíuverðlækkunin sem varð í kjölfar efnahags­þreng­ing­anna 2008 kom mjög illa við ríkis­fyrir­tækið Dong Energi. Upp úr því ákvað danska ríkis­stjórn­in að selja hluta félags­ins og skrá það á hluta­bréfa­markað. Þetta gerðist með sölu á um fimmt­ungs­hlut í Dong til banda­ríska fjár­fest­inga­bank­ans Gold­man Sachs árið 2013 og skrán­ingu fél­ags­ins á mark­að í framhaldi þeirr­ar sölu. Þessi við­skipti við Gold­man Sachs voru um­deild og ekki síður hvern­ig sumir stjórn­endur Dong högn­uðust hressi­lega á söl­unni. En það er önnur saga.

Í kjölfar þessara viðskipta með ríkis­fyrir­tækið Dong var svo stigið það grund­vallar­skref að selja alla olíu- og gas­vinnslu fyrir­tækisins. Og sá sem keypti her­leg­heitin var enginn annar en Jim Rat­cliffe, þ.e. fyrir­tæki hans Ineos. Sá hinn sami og hefur verið stór­tækur í jarða­kaupum austur á landi, en Ratcliffe mun nú vera rík­asti ein­stakl­ingur á Bret­landi.

Alþjóðlega vindorkufyrirtækið Ørsted

Nýjasta vendingin hjá DONG var að fylgja áherslu­breyt­ingu sinni eftir með því að breyta nafni fyrir­tæk­is­ins og taka upp hið þjála (sic) nafn Ørsted. Kannski má þó segja að Ørsted sé skemmti­legra og efnis­meira nafn en hið ósjarm­er­andi nýja nafn Stat­oil; Equinor.

Hans-Christian-Oersted-drawingNýja nafnið vísar til danska vísinda­manns­ins Hans Christian Ørsted. Margir Íslend­ingar kann­ast sjálf­sagt við það nafn úr ferð­um sín­um til Kóngs­ins Köben, þar sem við höf­um bæði H.C. Ørstedsvej og Ørsteds­parken! Utan Dan­merkur er Ørsted þó senni­legar þekkt­ast­ur fyrir lög­mál sitt um hvern­ig segul­svið mynd­ast um­hverfis raf­magns­leiðara.

Og nú er Ørsted sem sagt heiðraður með því að stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur tekur upp nafn hans. Afkom­end­ur gamla H.C. Ørsted eru reynd­ar lítt hrifn­ir af því að fyrir­tæki úti í bæ taki nafn þeirra þann­ig trausta­taki. En hvað sem því líð­ur, þá mega Dan­ir eiga það að þeir standa mjög fram­ar­lega í marg­vís­legri tækni og þekk­ingu og það verður spenn­andi að fylgj­ast með hvern­ig Ørsted mun þróast og dafna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband