Beðið eftir hærri arðgreiðslu frá Landsvirkjun

Landsvirkjun er nú að ljúka við hina nýju Búrfells­virkj­un og Þeista­reykja­virkj­un er líka tilbúin. Skv. yfir­lýs­ingum fyrir­tæk­is­ins hyggst það ekki ráð­ast í nein­ar nýjar fram­kvæmd­ir fyrr en eftir um 3-4 ár. Þar með mun Lands­virkj­un ekki þurfa að verja pen­ing­um úr rekstri í stór­ar fram­kvæmd­ir á næstu árum, né taka auk­in lán.

Þá eru almenn rekstrarskilyrði fyrir­tækis­ins sú um stundir mjög hag­stæð. Lands­virk­jun hefur því vænt­an­lega góða mögu­leika til að auka arð­greiðsl­ur veru­lega. Og hef­ur boð­að það ítrek­að. En hvenær skyldi það verða? Í þess­ari grein er far­ið yfir yfir­lýs­ing­ar Lands­virkj­un­ar um aukn­ar arð­greiðsl­ur og sett­ar fram til­gát­ur um af hverju þær yfir­lýsing­ar hafa enn ekki geng­ið eftir. 

Biðin frá 2015

Það er farið að teygjast á bið­inni eftir aukn­um arð­greiðsl­um Lands­virkj­un­ar (LV) til eig­anda síns; ísl­enska rík­is­ins. Í maí 2015, þ.e. fyr­ir þrem­ur ár­um síð­an, var boð­að að arð­greiðsl­ur LV myndu geta hækk­að „efti­r tvö til þrjú ár“ og á nokkrum ár­um farið í 10-20 milljarða árlega.

Í reynd hélst arðgreiðslan lítt breytt 2016 og líka 2017 og líka 2018. Samt sagði LV í mars 2017 að arð­greiðsl­urnar myndu byrja að hækka á ár­inu 2018. Reynd­in varð aft­ur á móti sú að arð­greiðsl­an 2018 var svo til hin sama þá eins og hún hafði ver­ið árið áður

Arðgreiðslan í ISK fór hæst vegna rekstrarársins 2011

LV-ardgreidlsur-2008-2018_Hreyfiafl-2018Arðgreiðsla LV í íslenskum krón­um hef­ur nú svo til stað­ið í stað í sjö ár. Og allt frá 2012 hefur arðgreiðsla LV meira að segja verið nokkru lægri í krónum talið en hún var það árið (2012), sbr. tafl­an hér til hlið­ar. Fram til þessa fór arð­greiðsla LV í krón­um tal­ið sem sagt hæst í kjölfar rekstrar­árs­ins 2011.

Núna þremur árum eftir að miklar hækk­an­ir voru boð­að­ar á arð­greiðslu­getu LV eru arð­greiðsl­urnar sem sagt enn­þá svo til óbreytt­ar frá því sem var. Það breyt­ir því þó ekki að geta fyrir­tæk­is­ins til að greiða eiganda sínum arð hefur auk­ist. Og enn er hækk­un á arð­greiðslu LV boð­uð og nú að hún hækki á næsta ári

Hærra raforkuverð, aukin sala og hagstæð ytri skilyrði

Síðustu misserin og árin hefur flest fallið með LV. Það var t.a.m. stórt skref þeg­ar fyrir­tæk­ið náði árið 2016 að semja við Norð­ur­ál (Century Alumin­um) um verð­teng­ingu við norræna mark­aðs­verð­ið (El­spot á Nord Pool Spot). Sá samn­ing­ur tek­ur gildi síðla árs 2019 og ætti að auka arð­greiðslu­getu LV umtalsvert. Sama gæti gerst vegna járn­blendi­verk­smiðju Elkem, en þar verð­ur raf­orku­verðið frá og með 2019 ákveð­ið af sér­stök­um gerð­ar­dómi. Þess­ar verð­hækk­an­ir munu verða að veru­leika á næsta ári (2019).

Þá hefur verið sterk eftir­spurn frá gagna­ver­um eft­ir raf­orku. Það hjálp­ar LV að hrista af sér það áfall þegar kísil­verk­smiðja United Sili­con varð gjald­þrota og kaup á sem nemur 35 MW féllu niður. Svo eru góð­ar von­ir um að ál­verð hald­ist nokk­uð hátt næstu misser­in, sem myndi hafa já­kvæð áhrif á tekj­ur LV frá ál­ver­un­um á Grund­ar­tanga og Reyð­ar­firði (þró­un ál­verðs er að vísu allt­af afar óviss). Loks gæti ISK veikst gagn­vart USD, sem myndi hafa já­kvæð áhrif á rekstra­kostn­að­ar­lið­inn í reikn­ing­um LV. Allt ætti þetta að hjálpa fyrir­tæk­inu til að skila bættri af­komu og gefa tæki­færi á meiri arð­greiðslum.

Margboðuð hækkun arðgreiðslu varð ekki í ár

Miðað við jákvæða þróunina á fjárhag LV síð­ustu árin og orð for­stjóra fyrir­tæk­is­ins árið 2017 um að arð­greiðsl­an byrji að hækka á ár­inu 2018 átti sá sem þetta skrif­ar von á því að arð­greiðsl­an í ár myndi hækka eitt­hvað frá því sem ver­ið hafði. Og áleit að hún gæti orð­ið um 5 milljarð­ar í ár, þ.e. vegna rekstrar­árs­ins 2017. En reynd­in varð sú að greiðsl­an hélst enn og aftur ná­lægt 1,5 milljarði króna.

Engu að síður má senni­lega gera ráð fyrir að á næsta ári (þ.e. 2019 í kjölfar rekstrar­árs­ins 2018) verði arð­greiðsl­an hærri. Enda hamrar LV ennþá á því að árlegar arðgreiðslur stefni í 10-20 milljarða. Að vísu gerði LV ráð fyrir því árið 2017 að arð­greiðsl­an yrði hærri strax árið 2018, þ.a. þarna er ekki alveg á vís­an að róa. Á næsta ári verð­ur vel að merkja kom­ið 2019 og þá orð­in fjög­ur ár síð­an stór­aukn­ar arð­greiðsl­ur LV voru boð­að­ar

Viðkvæmt lánshæfismat og enn enginn auðlindasjóður

Hafa ber í huga það er ekki forstjóri eða fram­kvæmda­stjórn LV sem ákveð­ur arð­greiðsl­una. Sú ákvörð­un er á valdi stjórn­ar fyrir­tækis­ins. Og stjórn­in álít­ur ber­sýni­lega ekki enn tíma­bært að arð­greiðsl­an hækki. Vænt­an­lega er sú ákvörð­un byggð á ráð­um for­stjór­ans.

Það er sennilega eink­um tvennt sem veldur því að arð­greiðsl­an hef­ur enn ekki ver­ið hækk­uð. Ann­ars veg­ar að enn hefur ekki ver­ið stofn­að­ur sá auð­linda­sjóð­ur sem stjórn­völd hafa stefnt að í nokk­ur ár og nú­ver­andi ríkis­stjórn virðist líka um­hugað um. Hins vegar er að skyn­sam­legt kann að hafa þótt að bíða að­eins leng­ur með hækkun arð­greiðslunnar til að halda við upp­gang­inum í láns­hæfis­mati fyrir­tæksins.

Kannski skipt­ir þetta síð­ast­nefnda mestu um það að arð­greiðsl­an er enn ekki byrj­uð að hækka. Lækkun skulda kemur sem sagt fram­ar í for­gangs­röð­inni en hækk­un arð­greiðslna. Engu að síð­ur kem­ur á óvart, mið­að við sí­end­ur­tekn­ar yfir­lýs­ing­ar LV s.l. þrjú ár, að enn skuli ekki sjást almenni­legt skref í hækk­un á arð­greiðslunni.

Hækkar arðgreiðsla Landsvirkjunar loksins á næsta ári?

Vegna boðaðs framkvæmdastopps LV næstu árin, líklegra verð­hækk­ana á raf­orku til Norð­ur­áls (og vænt­an­lega einn­ig hækk­un til Elkem) og að horf­ur eru á bæri­legu ál­verði næstu miss­erin, ætti að verða ein­falt að hækka arð­greiðsl­u LV veru­lega á kom­andi ári og árum. Við verð­um þó enn að bíða í næst­um heilt ár uns við sjáum hversu mik­ið fyrsta skref hækk­un­ar­inn­ar verður. Kannski má von­ast eftir u.þ.b. 5 milljörð­um króna í arð þá. Og jafn­vel meiru.

Þarna gæti þó nið­ur­staða gerð­ar­dóms um raf­orku­verð­ið til El­kem haft áhrif, enda er ber­sýni­legt að LV ger­ir sér von­ir um mikla hækk­un á verð­inu þar frá og með 2019. Bara sú hækk­un ein og sér gæti skil­að LV ná­lægt 2-2,5 milljörð­um króna í aukn­ar tekjur á árs­grund­velli. En verði hækk­un­in mun minni gæti hraðri aukn­ingu arð­greiðslna LV kannski enn seinkað. Um þessa stöðu LV mun vænt­an­lega eitt­hvað áhuga­vert koma fram á árs­fundi fyrir­tæk­is­ins, sem fram fer nú síðar í dag.


Virkjanir vegna sæstrengs

Í umræðu um mögu­legan raforku­streng milli Íslands og Bret­lands, oft nefnd­ur Ice­Link, hef­ur tölu­vert ver­ið fjall­að um flutn­ings­getu og raf­orku­þörf slíks sæ­strengs. Minna hefur verið fjall­að um það hvað­an raf­orkan fyrir streng­inn myndi koma; hvaða virkj­ana­fram­kvæmd­ir þyrfti að ráð­ast í til að næg orka væri fyrir kapal­inn. Um það er fjall­að í þess­ari grein.

Eldri sviðsmynd er að einhverju marki orðin úrelt

Ítarlegustu upplýsingarnar sem birst hafa til þessa um hvað þyrfti að virkja fyrir sæ­streng­inn má sjá í yfir­liti Orku­stofn­unar frá 2016 (sem fyrst og fremst byggir á upp­lýs­ing­um frá Lands­virkjun). Sú sviðs­mynd sem þar birt­ist er þó líklega að hluta til orðin úr­elt. Því þar er gert ráð fyrir að raf­orkan frá Þeista­reykja­virkjun verði nýtt fyrir streng­inn, en sú raf­orka er nú þegar að mestu seld til kísil­vers PCC á Bakka við Húsa­vík.

Sú sviðsmynd sem kynnt er í þess­ari grein um það hvað­an raf­orka fyrir sæ­streng gæti kom­ið, er sú sem grein­ar­höf­und­ar álítur hvað raun­hæfasta. Þó ber að hafa í huga að ýms­ar for­send­ur geta hæg­lega breyst og raunveruleg orkuöflun fyrir sæ­streng gæti því orðið með öðrum hætti.

Tekið skal fram að í sviðs­mynd­inni sem hér birt­ist er bæði mið­að við raf­orku­þörf sæstrengs og til­lit tek­ið til þeirrar auknu inn­lendu eftir­spurn­ar sem Orku­spár­nefnd gerir ráð fyrir. Og í því sambandi er við­mið­un­ar­árið 2025, enda segir fyrir­tæk­ið Atl­antic Super­Connect­ion það ár geta orðið fyrsta rekstra­rár sæ­strengs­ins. Það er að vísu ansið bratt að unnt yrði að ljúka öll­um nauð­syn­leg­um fram­kvæmd­um vegna sæ­strengs fyrir það tíma­mark. En þó svo strengn­um myndi seinka, yrði raf­orku­þörf þessa 1.000 MW strengs sú sama.

1.000 MW sæstrengur

Í umfjöllun um sæstreng­inn hefur reyndar verið nokk­uð mis­mun­andi hvaða stærð af kapli er miðað við. Sjá hefur mátt töl­ur frá 800 MW upp í 1.200 MW. Eðli máls­ins sam­kvæmt má gera ráð fyrir að eftir því sem streng­ur­inn yrði stærri (flutn­ings­get­an meiri) muni meiri raf­orka fara um streng­inn. Og um leið meira flutt út af raforku fram­leiddri á Íslandi og því meiri raf­orku­þörf. Í þess­ari grein er mið­að við að kapall­inn yrði 1.000 MW. Þetta er sama stærð eins og meðal­talið sem gef­ið er upp á vef LV og líka sama stærð eins og mið­að var við í skýrslu Kviku banka.

Raforkuþörf sæstrengs er um 5.800 GWst

Fræðilega séð gæti sæ­streng­ur upp á 1.000 MW flutt ná­lægt 9 þús­und GWst af raf­magni árlega, þ.e. ef hann væri ávallt full nýtt­ur (og ekk­ert orku­tap). Nýt­ing á svona strengj­um er þó jafn­an mun minni og er gjarn­an gert ráð fyrir um 65% nýt­ingu. Enda álít­ur LV lík­legt að kapall­inn myndi nýt­ast til að flytja út um 5.700 GWst árlega. Að auki myndu, að mati Landsvirkjunar, um 100 GWst tap­ast við flutn­ing­inn á raf­ork­unni til strengs­ins. Inn­lend raf­orku­fram­leiðslu­þörf vegna kapals­ins yrði því, að mati LV, um 5.800 GWst. Í skýrslu Kviku banka var gert ráð fyrir enn­þá meiri út­flutn­ingi eða allt að 7.000 GWst. Tala LV virðist raun­hæf­ari og er mið­að við hana í þess­ari grein.

Nauðsynleg aflaukning að lágmarki um 1.100 MW

Rétt eins og á við um flutn­ings­tækið sæ­streng, er nýt­ing fram­leiðslu­tæk­is­ins virkj­ana mis­jöfn. Það er m.ö.o. mis­jafnt hversu vel afl virkj­ana nýt­ist í hverri virkj­un fyrir sig. Nefna má að sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Orku­stofn­un er með­al­nýt­ing afls íslenskra vatns­afls­virkj­ana ná­lægt 66%. Í þeirri sviðs­mynd sem hér er kynnt myndi þurfa nýtt afl upp á um 1.100 MW til að upp­fylla raf­orku­þörf upp á 5.800 GWst.

Sú tala (1.100 MW) rímar nokkuð vel við sviðs­mynd LV (sem Orku­stofn­un hef­ur líka kynnt). Þar er reynd­ar gert ráð fyrir enn­þá meiri afl­þörf, en sá mun­ur skýr­ist aðal­lega af því að í sviðs­mynd LV er gert ráð fyr­ir aðeins meiri vind­orku en í sviðs­mynd grein­ar­höf­und­ar. Og að í sviðs­mynd grein­ar­höf­und­ar er gert ráð fyrir meira vatns­afli en LV gerir (þar skipt­ir Holta­virkj­un mestu máli). Það má því líta á tölu grein­ar­höf­und­ar sem al­gert lág­mark. Og að lítið megi út af bregða til að afl­þörf sæ­strengs yrði í reynd aðeins meiri en um­rædd 1.100 MW.

Aflþörfin gæti verið nær 1.300 MW

Mögulega yrði aflþörfin fyrir 1.000 MW streng sem sagt nokkru meiri en áðurnefnd 1.100 MW og jafn­vel tölu­vert meiri (ca. 10-20% meiri). Hér má hafa í huga að í skýrslu Kviku banka var gert ráð fyrir afl­þörf upp á um 1.450 MW. En þar var vel að merkja líka gert ráð fyrir tölu­vert meiri nýt­ingu á strengn­um en LV ger­ir. Með vik­mörk í huga og u.þ.b. 65% nýt­ingu á 1.000 MW sæ­streng, má sem sagt ætla að hann myndi kalla á nýjar virkj­ana­fram­kvæmd­ir sem sam­tals yrðu a.m.k. 1.100 MW og mögu­lega allt að 20% meira eða nálægt 1.300 MW.

Bæði nýjar virkjanir og stækkun eldri virkjana

Umrætt afl, hvort sem það yrðu 1.100 MW eða nær 1.300 MW, myndi ann­ars veg­ar verða í formi nýrra virkj­ana og hins vegar yrði hluta aflsins bætt við í eldri virkj­anir. Nýju virkj­an­irnar yrðu lík­lega blanda af vatns­afls­virkj­un­um, jarð­varma­virkj­un­um og vind­myll­um. Að mati LV yrðu um 270 MW í nýjum hefð­bundnum vatns­afls- og jarð­varma­virkj­unum og um 449 MW yrðu vind­myllur ásamt óhefð­bundnum vatnsafls- og jarð­varma­virkj­unum (litlar rennslis­virkj­an­ir og lág­hita­virkj­an­ir). Loks yrði um 401 MW bætt við nú­ver­andi vatns­afls­virkj­an­ir. Sam­kvæmt LV yrði afl­aukn­ing­in í eldri virkj­unum mest í Kára­hnjúka­virkj­un (Fljóts­dals­stöð), en afgang­ur afl­aukn­ing­ar­innar myndi dreif­ast á nokkrar virkj­anir á Þjórsár- og Tungna­ár­svæðinu.

Hvaðan eiga þessar 5.800 GWst að koma?

Þær upplýsingar sem birst hafa opin­ber­lega um hvern­ig unnt sé að upp­fylla raf­orku­þörf sæ­strengs hafa verið mjög gróf­ar. Í skýrslunni sem Kvika banki vann fyrir stjórn­völd kom fram að hátt hlut­fall af raf­ork­unni myndi koma frá nýj­um jarð­varma­virkj­un­um og vind­myllu­görð­um, en mjög tak­mark­að­ur hluti frá nýjum vatns­afls­virkj­un­um. Í sviðs­mynd LV hef­ur aftur á móti ekki verið greint þarna á milli nýrra jarð­varma­virkj­ana og vatns­aflsvirkj­ana. Við vitum því ekki hvaða virkj­anir það nákvæm­lega eru sem LV horf­ir til vegna sæ­strengs. En hin grófa sviðs­mynd LV er að eftir­far­andi fram­kvæmd­ir geti skil­að um­ræddum 5.800 GWst fyrir sæstreng (tölur skv. sviðsmynd greinarhöfundar eru í sviga):

  • 2.100 GWst (2.145) komi frá nýjum hefðbundnum virkj­unum.
  • 1.800 GWst (1.759) komi frá nýjum óhefðbundnum virkj­unum.
  • 1.900 GWst (1.900) komi með nýjum hverfl­um í nú­ver­andi virkj­unum og bættri nýt­ingu miðl­un­ar­lóna.

Island-raforkuthorf-fram-til-2025-med-saestreng_Hreyfiafl-2018Á grafinu hér til hliðar má sjá sviðs­mynd grein­ar­höf­und­ar um hvern­ig upp­fylla mætti þessa auknu raf­orku­þörf. Þegar miðað er við að sæ­srengur yrði kom­inn í rekstur 2025 er rétt að minn­ast þess að skv. Orku­spár­nefnd er áætl­að að fram til þess tíma muni raf­orku­eft­ir­spurn hér inn­an­lands auk­ast um u.þ.b. 1.700 GWst frá því sem var 2017. Sam­tals þyrfti því að auka raf­orku­fram­boð á Íslandi um u.þ.b. 7.500 GWst til að upp­fylla sam­an­lagða inn­lenda raf­orku­þörf 2025 og raf­orku­þörf sæstrengs. Í sviðsmynd grein­ar­höf­und­ar er gerð grein fyrir þessari auknu inn­lendu orkuþörf í lið A í töflunni (sbr. einnig fyrri skrif um þetta). Eftirfarandi er nánari útlistun á því hvernig orkuþörfinni yrði mætt:

Aukin innlend eftirspurn: Um 1.700 GWst (A)

Á töflunni eru fyrst (merkt A) tilgreindar virkjanir sem geta uppfyllt vöxt­inn í raf­orku­þörf hér inn­an­lands fram á 2025. Þær virkj­an­ir eru, auk nýju Búr­fells­virkj­un­ar og Þeista­reykja­virkj­un­ar sem nú er veri­ð að ljúka við, sam­bland af litl­um vatns­afls­virkj­un­um (ca. þrjár tals­ins með afl sem næmi um 25 MW), vind­myll­um (ca. 100 MW) og ein jarð­varma­virkj­un (ca. 50 MW) sem gæti t.a.m. ver­ið virkj­un HS Orku í Eld­vörp­um.

Þess­ar virkj­an­ir myndu vel að merkja geta skil­að nokkru meiri fram­leiðslu en þeim 1.733 GWst sem Orku­spár­nefnd mið­ar við, eða alls um 2.000 GWst. Sá mun­ur er eðli­leg­ur í því ljósi að bæði litlu vatns­afls­virkj­an­irnar og vind­myllu­garð­ar eru lík­legir til að skila nokk­uð sveiflu­kenndri fram­leiðslu. Það skal áréttað að auðvitað má hugsa sér ýmsa aðra möguleika um það hvernig mæta skal aukinni raforkuþörf hér innanlands.

Nýjar hefðbundnar virkjanir fyrir sæstreng: Um 2.100 GWst (B)

Þær nýju „hefðbundnu“ virkj­anir sem myndu skila um 2.100 GWst fyrir sæ­streng­inn (merkt B í töflunni hér að ofan) gætu orðið fimm virkj­anir; Hvamms­virkjun (ca. 93 MW) og Holta­virkjun (ca. 57 MW) í Þjórsá, Blöndu­veitu­virkjun (ca. 30 MW) og nýjar jarð­varma­virkj­anir í Kröflu (ca. 45 MW) og Bjarnar­flagi (ca. 45 MW). Sam­an­lagt má ætla að þess­ar fimm virkj­anir myndu fram­leiða um 2.145 GWst ár­lega, þ.e. ná­lægt þeim 2.100 GWst sem LV álít­ur að koma þurfi frá nýjum hefð­bundnum virkj­un­um. Og þetta yrðu þá mögulega fimm nýjar hefð­bundnar virkj­anir sem bein­lín­is yrðu reist­ar vegna sæ­strengsins.

Nýjar óhefðbundnar virkjanir fyrir sæstreng: Um 1.800 GWst (D)

Þá er komið að s.k. óhefð­bundnum virkj­un­um (sbr. liður D í töflunni að ofan). Í áætlunum sínum gerir LV ráð fyrir að megn­ið af „óhefð­bundnum“ virkj­un­um fyrir sæ­streng verði í formi vind­myllu­garða. Að auki gerir fyrir­tækið ráð fyrir að unnt verði að reisa litlar vatns­afls­virkj­anir og lág­hita­virkj­anir til að mæta raf­orku­þörf sæ­strengsins.

Sviðsmynd greinarhöfundar hér fylgir þessum áætl­un­um LV í megin­atrið­um, en gerir þó ráð fyrir að þessar „óhefð­bundnu“ virkj­an­ir myndu út­vega ör­lít­ið minni raforku (þ.e. 1.759 GWst, en skv. áætl­un­um LV eiga þær að út­vega um 1.800 GWst). Mun­ur­inn þarna er svo lítill að hann er ef­laust inn­an óvissu­marka LV og sviðs­mynd­irnar því sam­bæri­legar.

Nýir hverflar og bætt nýting vegna sæstrengs: 1.900 GWst (C)

Afgangurinn sem vantar til að uppfylla raf­orku­þörf sæ­strengs­ins fæst með bættri nýt­ingu nú­ver­andi vatns­afls­kerf­is (merkt C í töflunni að ofan). Þetta ger­ist annars vegar með því að stýra miðl­un með öðrum hætti en gert er í hinu nú­ver­andi af­lok­aða ísl­enska raf­orku­kerfi. Vegna þess að kerf­ið er nú ein­angrað og LV þarf að tryggja mjög áreiðan­lega raf­orku­afhend­ingu til stór­iðj­unnar, eru stóru ísl­ensku vatns­afls­virkj­an­irnar í reynd hann­aðar þann­ig að miðl­un­ar­lón­in eru nokkru stærri en væri ef LV hefði haft að­gang að t.d. evrópsku vara­fli um sæ­streng. M.ö.o. þá gæf­i sæ­streng­ur­inn færi á að ná meiri raf­orku út úr hinu stóra kerfi miðl­un­ar­lóna hér.

Um leið gæfist tækifæri til að minnka mjög það vatn sem nú flæðir stund­um á yfir­falli þegar miðl­un­ar­lón hér fyll­ast. Til að nýta þetta allt sem best myndi LV bæta hverfl­um (túrbínum) í bæði Fljóts­dals­stöð og í nokkrar nú­ver­andi virkj­an­ir á Þjórsár- og Tungna­ár­svæð­inu. Sam­tals áætl­ar LV að sú afl­aukn­ing gæti orðið um 400 MW (sem yrðu vel að merkja miklar fram­kvæmd­ir). Og LV áætl­ar að heild­ar­aukn­ing fram­leiðsl­unn­ar vegna bættrar nýt­ing­ar nú­ver­andi vatns­afls­virkj­ana fyr­ir­tæk­is­ins (þ.m.t. nýir hverfl­ar) gæti að meðal­tali num­ið um 1.900 GWst á ári.

Listi yfir mögulegar nýjar virkjanir

Hér í lokin eru teknar saman þær nýju virkjanir sem gera má ráð fyrir að þyrfti að ráð­ast í fram til 2025 ef áform um sæ­streng­inn ganga eftir (sjá töfl­una hér að neðan). Þar eru um­rædd­ar virkj­an­ir flokk­að­ar í þrennt; vatns­orku, jarð­varmaorku og vind­orku.

Island-raforkuthorf-virkjanir-fram-til-2025-med-saestreng_Hreyfiafl-2018Í sviðs­myndinni er gert ráð fyrir að sam­an­lagt nýtt afl vegna sæ­strengs­ins yrði um 1.120 MW. Að auki þarf, eins og áður hefur komið fram, að virkja tölu­vert vegna vax­andi inn­lendrar orku­eftir­spurn­ar. Hér er gert ráð fyrir að sú eftir­spurn muni koma frá blönd­uð­um teg­und­um virkj­ana, sem nemi alls 365 MW (þar eru bæði Búr­fells­virkjun hin nýja og Þeista­reykja­virkj­un með­taldar). Nýtt afl til að mæta bæði auk­inni inn­lendri eftir­spurn og eftir­spurn sæ­strengs, skv. þessari sviðs­mynd, er samtals 1.485 MW.

Í þessu ljósi er athygl­is­vert að breska fyr­ir­tæk­ið Atlantic Super­Connect­ion virð­ist gera ráð fyrir að sæ­streng­ur kunni að kalla á fáar og jafn­vel enga nýja virkj­un á Íslandi. Það sjónarmið breska fyrirtækisins stenst ekki m.v. 1.000 MW kapal sem nýta á að mestu til útflutnings frá Íslandi. Og varla stend­ur til að sæ­streng­ur­inn eigi í mikl­um mæli að verða nýtt­ur til að flytja raf­orku til Íslands.

Ýmsar sviðsmyndir mögulegar

Að sjálf­sögðu má setja upp alls konar sviðs­mynd­ir um það hvaða virkj­an­ir og hvaða stækk­anir nú­ver­andi virkj­ana myndu útvega nauð­syn­lega orku fyr­ir sæ­streng. Hér mætti líka nefna að miðað við um­ræð­una und­an­far­in misseri taka sjálf­sagt ein­hverj­ir les­end­ur eft­ir því að fyrirhuguð Hval­ár­virkj­un er ekki á þess­um lista. Eins og áður segir má hugsa sér ýmsa sam­setn­ingu virkj­ana, en sviðs­mynd­in hér end­ur­spegl­ar efa grein­ar­höf­und­ar um að Hval­ár­virkj­un rísi í bráð vegna mikils kostnaðar við bæði virkjun og flutningskerfi.

Í reynd er ekki hægt að sjá fyr­ir hver hin raun­veru­lega þró­un ná­kvæm­lega verð­ur. En hér hefur sem sagt ein sviðs­mynd verið kynnt. Og kannski ein sú raun­hæf­asta (að því gefnu að af sæ­strengn­um verði). Eins og áður sagði er þar gert ráð fyr­ir að sæ­streng­ur­inn myndi kalla á nýtt afl sem sam­tals nemi um 1.120 MW, en að mögu­lega myndi nýtt afl vegna kapalsins verða aðeins meira eða nær 1.300 MW. Að auki þarf svo að gera ráð fyrir nýju afi til að mæta auk­inni inn­lendri raf­orku­notkun. 


Nýjar virkjanir fram til 2025

Í þess­ari grein er lýst mögu­leik­um í auk­inni raf­orku­öfl­un á næstu sjö ár­um. Og sett­ar fram þrjár mögu­leg­ar sviðs­mynd­ir. Hafa ber í huga að sjö ár eru ekki lang­ur tími í sam­hengi við þró­un raf­orku­mark­aða og vik­mörk­in í svona áætl­ana­gerð eru því veru­leg. Mögulega verður það Lands­virkjun sem mun skaffa alla þá nýju raf­orku sem þarf á við­mið­un­ar­tíma­bil­inu. Sam­setn­ingin gæti þó orð­ið öðru­vísi og t.a.m. sú að all­ar nýj­ar virkj­an­ir næsta ára­tug­inn, umfram hina nýju Búr­fells­virkj­un og  Þeista­reykj­avirkjun, yrðu hjá öðrum orku­fyrir­tækj­um en Lands­virkj­un. T.a.m. mætti sennilega uppfylla þá raforkuþörf með einni nýrri jarð­varma­virkj­un ON eða HS Orku og tveim­ur nett­um vind­myllu­görð­um. Auk ein­hverrar eða ein­hverra smárra vatns­afls­virkjana.

Raforkuþörfin talin aukast um rúmlega 1,7 TWst

Árið 2017 var raforku­þörfin á Íslandi rúm­lega 19 TWst. Árið 2025 er tal­ið að þörf­in verði um 9% meiri eða tæp­lega 21 TWst. Orku­spár­nefnd álít­ur vöx­tinn á þessu um­rædda tíma­bili nema um 1,7 TWst (spá­in hljóð­ar ná­kvæm­lega upp á 1.733 GWst). En hvað­an mun þessi 9% aukn­ing raf­orku­fram­boðs á Ísl­andi á næstu sjö ár­um koma?

Við vitum ekki fyrir víst hvað­an öll þessi orka á að koma. Til að setja hana í eitt­hvert sam­hengi, þá jafn­gilda 1.733 GWst allri þeirri raf­orku sem unnt væri að fram­leiða með u.þ.b. tveim­ur og hálfri Hvamms­virkjun. Sem er virkj­un­ar­kost­ur sem Lands­virkj­un hefur lengi haft í und­ir­búningi í neðri hluta Þjórs­ar. 

Hluti orkunnar mun koma frá Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun

Mjög stór hluti þessarar raf­orku, sem aukin eftir­spurn næstu ára kall­ar á, mun koma frá tveim­ur nýjum virkj­un­um Lands­virkj­un­ar. Þær eru hin nýja Búr­fells­virkj­un (100 MW) og Þeista­reykja­virkjun (90 MW áfangi). Þær eiga báðar að vera komnar í rekstur á þessu ári (2018). Hvaðan af­gang­ur­inn af ork­unni mun koma er ekki unnt að full­yrða. Einn mögu­leiki er að það verði að mestu frá Hvamms­virkjun í neðri hluta Þjórsár.

Verður Hvammsvirkjun næst?

Í sér­blaði Við­skipta­blaðs­ins haust­ið 2016 var haft eftir for­stjóra Lands­virkj­unar að sá kost­ur sem næst­ur sé „á teikni­borð­inu sé Hvamms­virkjun í Þjórsá“. Lands­virkjun hefur sem sagt kynnt Hvamms­virkjun sem sinn næsta kost. Ekki er að sjá að Orka nátt­úr­unnar (ON) reisi nýja virkj­un í bráð. HS Orka hyggst senn byrja fram­kvæmd­ir við 9,9 MW Brú­ar­virkj­un í Tungu­fljóti í Biskups­tung­um og er líka að rann­saka allt að 50 MW virkj­un­ar­kost í Eld­vörp­um á Reykja­nesi. Þó er óvíst hversu hratt þess­ar fram­kvæmd­ir HS Orku munu ganga. Það lít­ur því út fyrir að næsta um­tals­verða virkj­un hér gæti orð­ið hin nokkuð stóra Hvamms­virkjun í neðri hluta Þjórs­ár.

Raforkuþörfin fram til 2025, umfram þær virkj­anir sem nú er senn verið að ljúka við, gæti verið ná­lægt 800 GWst. Hvamms­virkj­un á að fram­leiða 720 GWst og virð­ist því smell­passa þarna inn í sviðs­mynd­ina. En svo stór virkj­un hent­ar samt ekki sér­stak­lega vel til að mæta þeirri ró­legu aukn­ingu sem vöxt­ur­inn í al­mennri raf­orku­notkun á Íslandi skap­ar. Heppi­legra gæti verið að virkja hér í smærri skrefum.

Minni virkjun kann að vera fýsilegri

Ef Landsvirkjun vill fara var­lega í að auka raf­orku­fram­boðið og ein­beita sér að minni virkjun­ar­kost­um, þá á fyrir­tækið ýmsa kosti í jarð­varma. Lands­virkjun gæti horft til þess að virkja í Bjarn­ar­flagi, byrjað á nýrri virkj­un við Kröflu eða stækk­að Þeista­reykja­virkjun ennþá meira. Hver og einn slíkra kosta gæti skilað um 375 GWst í aukið raf­orku­fram­boð á árs­grund­velli. Ekki er ljóst hver af þessum virkj­anakostum er lengst komin í áætlunum Landsvirkjunar, en þeir eru vel að merkja allir staðsettir á jarðvarmasvæðunum á Norðausturlandi.

Skrokkalda er sennilega óskakostur Landsvirkjunar

Sennilega myndi Lands­virkjun helst vilja hafa Skrokk­öldu­virkjun sem sinn næsta kost. Sú virkj­un á út­falli Há­göngu­lóns á há­lend­inu miðju væri fjár­hags­lega hag­kvæm og myndi tengj­ast inn á risa­vax­ið flutn­ings­kerf­ið á Þjórsár- og Tungna­ár­svæð­inu. Og fram­leiðsla virkj­un­ar­inn­ar, sem áætl­uð er um 345 GWst, yrði svipuð eða lít­ið minni en hjá nýrri jarð­varma­virkj­un. Sem sagt hóf­leg og fremur hag­kvæm við­bót inn á raf­orku­markaðinn.

En Skrokkölduvirkjun er ekki í nýtingar­flokki Rammá­aætl­un­ar. A.m.k. ekki enn­þá. Og það sem meira er; kannski kemst Skrokk­öldu­virkjun aldrei í nýt­ing­ar­flokkinn. Nú er nefni­lega mik­ið horft til Mið­hálend­is­þjóð­garðs og nýj­ar virkj­an­ir á mið­há­lend­inu fara varla vel með þjóð­garði þar. Þarna á a.m.k. veru­leg um­ræða eftir að eiga sér stað á hin­um pólí­tíska vett­vangi. Það er því kannski ólík­legt að unnt verði að ljúka við Skrokk­öldu­virkj­un t.a.m. fyrir 2025. Og kannski verður þessi hálend­is­virkj­­un aldrei reist.

Annar óskakostur er sennilega Blöndu­veitu­virkjun

Annar hóflega stór virkjunar­mögu­leiki Lands­virkj­un­ar er Blöndu­veitu­virkj­un. Þessi kostur er í reynd þrjár virkj­an­ir, sem myndu að öllum lík­ind­um fram­leiða tæp­lega 200 GWst. Þessi virkj­un­ar­kost­ur er nú þeg­ar í nýt­ing­ar­flokki Ramma­áætl­un­ar.

Virkjanir-fram-til-2025_svidsmyndir-LV_Hreyfiafl-2018Gallinn er bara sá að með­an Lands­net hefur ekki styrkt flutn­ings­kerf­ið frá Blöndu­svæð­inu er ósenni­legt að raf­orka frá Blöndu­veitu­virkj­un kom­ist til not­enda. Þess vegna þarf Lands­virkjun lík­lega, sem næsta verk­efni, ann­að hvort að ráð­ast í nýja jarð­varma­virkj­un eða að taka stóra skref­ið og reisa Hvamms­virkjun. Á töflunni hér til hliðar má sjá hvernig þessar sviðsmyndir gætu litið út. Þar sem annars vegar er gert ráð fyrir Hvammsvirkjun en hins vegar gert ráð fyrir þremur öðrum virkjunum. Í reynd verður hin raunverulega sviðsmynd sennilega ólík þessum báðum.

Lendingin gæti orðið um 50 MW ný jarð­varma­virkjun

Að svo stöddu virðast, eins og áður sagði, sem hvorki Blöndu­veitu­virkj­un né Skrokk­öldu­virkj­un séu inn­an seil­ing­ar. Og vegna þess hversu Hvamms­virkj­un er stór, er eðlilegt að Lands­virkj­un vilji bíða eitt­hvað með þá virkj­un. Og t.a.m. fyrst sjá hvern­ig ganga mun að end­ur­semja við Norð­ur­ál um raf­orku­við­skipt­in þar (þar sem stór samn­ing­ur losn­ar 2023). Þess vegna virð­ist senni­legt að næsta virkj­un Lands­virkj­un­ar verði minni virkj­un en Hvamms­virkj­un. Og þá væri kannski nær­tæk­ast að það yrði u.þ.b. 50 MW jarð­varma­virkjun.

Flöskuhálsar í flutningskerfi Landsnets valda vanda

Það kann að vísu að tefja fyrir slíkum áform­um um nýja jarð­hita­virkjun, að tölu­vert meiri rann­sókn­ir þurfa senni­lega að fara fram áð­ur en fram­kvæmd­ir gætu haf­ist á jarð­varma­svæð­um Lands­virkj­un­ar. Að auki eru allar svona áætl­an­ir mjög háð­ar upp­bygg­ingu Lands­nets á nýjum há­spennu­línum. Í dag eru tak­mark­að­ir mögu­leik­ar á að flytja raf­orku frá nýj­um virkj­un­um milli sumra lands­hluta vegna flösku­hálsa í flutn­ings­kerfinu.

Það virð­ist reyndar vera í for­gangi hjá Landsneti að styrkja flutn­ings­getu milli NA-lands og Eyja­fjarð­ar­svæð­is­ins. Og þess vegna er töluvert meiri nýt­ing jarð­varma á NA-landi e.t.v. mögu­leg inn­an ekki alltof langs tíma. Sú hug­mynd að næsta virkj­un Lands­virkj­un­ar verði um 50 MW ný jarð­varma­virkj­un ætti því að geta geng­ið eft­ir innan ekki of langs tíma. Svo sem ný virkj­un í Kröflu.

Hvar verður mest þörf fyrir orkuna?

Mögu­lega yrði það samt fremur HS Orka sem myndi fyrst reisa slíka virkj­un. Þ.e. að næsta jarð­varma­virkjun verði á Reykjanesi og þá kannski helst í Eldvörpum. Orka náttúrunnar (Orkuveita Reykja­víkur) virðist aftur á móti engin áform hafa um nýja virkjun á næstu árum.

Í allri þessari umræðu er lykil­spurning eftir­farandi: Hvar verð­ur mest þörf fyrir þá raf­orku sem tal­ið er að auk­in eftir­spurn hér kalli á á þessu um­rædda tíma­bili fram til 2025? Og hvað­an verð­ur unnt að flytja þá orku? Þessi álita­mál eru efni í sér­staka um­fjöll­un og verð­ur ekki nán­ar gerð skil hér.

Ýmsar sviðsmyndir mögulegar

Hér fyrir neðan gefur að líta sviðs­mynd um nýtt raf­orku­fram­boð fram til 2025 sem grein­ar­höf­und­ur álít­ur skyn­sam­lega og hvað raunhæfasta. Augljóslega verður umtalsverðum hluta af aukinni raforkuþörf næstu misserin og árin mætt með nýju Búrfellsvirkjuninni og jarðhitavirkjuninni á Þeistareykjum. Hvoru tveggja er virkjanir í eigu Landsvirkjunar.

Virkjanir-fram-til-2025_svidsmyndir_Hreyfiafl-2018Samkvæmt spá Orkuspárnefndar þarf að virkja töluvert meira (að því gefnu að hér loki ekki stóriðja). Þeirri orkuþörf mætti mæta með einni jarð­varma­virkjun, sem mögu­lega yrði á Reykja­nes­skaga (og þá er virkjun í Eld­vörpum kannski líklegust). Að auki mætti með hagkvæmum hætti uppfylla raforkuþörfina með u.þ.b. 25 vind­myllum. Og svo er líka líklegt að hér rísi einhver eða jafnvel tvær til þrjár litlar vatnsaflsvirkjanir (undir 10 MW) á komandi árum. Þessari sviðsmynd er lýst á töflunni hér til hliðar.

Sæstrengur myndi kalla á ennþá fleiri virkjanir

Eins og komið hefur fram, þá er hér stuðst við við­mið­un­ar­árið 2025 og spá Orkus­pár­nefndar um raforkuþörfina þá. En svo er líka áhugavert að nú kynnir breskt fyrirtæki að einmitt árið 2025 verði 1.200 MW sæstrengur kominn í gagnið milli Bretlands og Íslands. Og þá þyrfti væntanlega ennþá meira af nýjum virkjunum hér, til að uppfylla bæði vaxandi raforkunotkun innanlands og raforkuþörf sæ­strengs­ins. Um það hvaða virkj­an­ir myndi þurfa fyrir slíkan sæ­streng milli Íslands og Bret­lands verður fjallað síðar.


Raforkuþörf talin aukast um 9% fram til 2025

Raforkuþörf á Íslandi eykst lík­lega um u.þ.b. 1,7 TWst á tíma­bil­inu 2017 og 2025. Sem er um 9% aukn­ing frá þeirri raf­orku­þörf sem var 2017. Þess­ar töl­ur eru sam­kvæmt nýjustu spá Orku­spár­nefnd­ar. Áætl­að er að aukn­ing­in skipt­ist eins og sýnt er í töfl­unni hér fyrir neðan.

Island-raforka-raforkuthorf_2017-2025-Hreyfiafl-2018Þetta er vel að merkja spá um lík­lega þró­un næstu sjö árin. Sú þró­un gæti orð­ið önn­ur. Þarna gæti t.d. sett strik í reikn­ing­inn að nú hef­ur kísil­ver United Sili­con hætt starf­semi, eftir mjög stutt­an rekst­ur. Þar með er sú eftir­spurn far­in. Mögu­lega er þó Lands­virkj­un þeg­ar bú­in að selja megn­ið af kísilorkunni til gagna­vera, en eftir­spurn­in það­an hefur orð­ið heldur meiri eða hrað­ari en bú­ist var við fyr­ir nokkr­um misserum.

Ekki er unnt að full­yrða hvaða áhrif þessar vend­ing­ar með kís­il­ver­ið og gagna­ver­in munu hafa á raf­orku­þörf­ina. En mið­að við töl­ur Orku­spár­nefnd­ar, þ.e. að eft­ir um sjö ár þurfi raf­orku­fram­leiðsla á Ísl­andi að verða um 9% meiri en hún var 2017, er stóra spurn­ing­in kannski hvað­an sú orka á að koma?

Til sam­an­burð­ar má nefna að tal­an 1,7 TWst jafn­gild­ir um tveim­ur og hálfri Hvamms­virkj­un. Um það hvaða virkj­anir eru lík­leg­astar til að mæta þess­ari auknu raf­orku­eftir­spurn verð­ur fjall­að í næstu grein.

 


Sæstrengsárið 2025?

Sæstrengsverkefnið virðist á miklu skriði. Og það þrátt fyrir yfirvofandi Brexit og óvissuna sem það ástand skapar um orkustefnu Bretlands. Nú kynnir breska fyrirtækið Atlantic SuperConnection, dótturfyrirtæki Disruptive Capital Finance, að stefnt sé að því að 1.200 MW raforkustrengur milli Bretlands og Íslands verði kominn í notkun jafnvel strax árið 2025. Og að fyrirtækið ætli sér að reisa sérstaka kapalverksmiðju vegna verkefnisins á Bretlandi, sem á að vera tilbúin strax 2020. Gangi þessar áætlanir Atlantic SuperConnection eftir, mun eftirspurnin eftir íslenskri raforku væntanlega aukast um mörg þúsund GWst. Og það sem sagt kannski strax árið 2025. Um þessar áætlanir Atlantic SuperConnection er fjallað í þessari grein.

Þarf enga nýja virkjun vegna sæstrengs?

Núverandi raforkuframleiðsla á Íslandi er um 19.000 GWst á ári. Það er fróðlegt að skoða hvernig útvega á þá orku sem sæstrengur kallar á. Eins og rakið er í greininni er raforkuþörf sæstrengs milli Íslands og Bretlands áætluð u.þ.b. 5.000-6.000 GWst. Það er því athyglisvert að Atlantic SuperConnection hefur kynnt að sæstrengurinn kalli á fáar og jafnvel engar nýjar virkjanir á Íslandi. Þetta má lesa á vef fyrirtækisins: Ideally, few or no new power plants will need to be built in Iceland […] for the SuperConnection.

Landsvirkjun segir miklar virkjanaframkvæmdir þurfa vegna sæstrengs

Sú sýn Atlantic SuperCennection að lítil sem engin þörf verði á nýjum virkjunum á Íslandi vegna sæstrengs er í andstöðu við þá sýn sem Landsvirkjun hefur kynnt um strenginn. Stjórnendur Landsvirkjunar hafa í ýmsum kynningum og viðtölum sagt slíkan streng kalla á aukið framboð sem nemi um 5.000 GWst. Og að stærstur hlutinn af þeirri raforku þurfi að koma frá nýjum virkjunum. Og nú hefur Landsvirkjun hækkað tölu sína um raforkuþörfina.

Í dag segir á vef Landsvirkjunar að strengurinn myndi flytja út um 5.700 GWst og kalla á raforku sem næmi um 5.800 GWst. Þar með hefur Landsvirkjun hækkað tölu sína um raforkuþörf vegna sæstrengs um 800 GWst. Sem er t.a.m. rúmlega það sem Hvammsvirkjun myndi framleiða. Tekið skal fram að munurinn þarna upp á 100 GWst, þ.e. á milli 5.700 og 5.800 GWst, kemur til af því að Landsvirkjun álítur að um 100 GWst tapist við flutninginn til strengsins. Flutningstapið er sem sagt áætlað um 2%. Samkvæmt áætlunum Atlantic SuperConnection er svo orkutap í strengnum álitið verða nálægt 5%.

Auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi um 30%

Lengi vel var sviðsmynd Landsvirkjunar sú að um 2.000 GWst af allri raforkuþörf strengsins fengist með betri nýtingu núverandi kerfis og nýjum hverflum (aflaukningu) í núverandi vatnsaflsvirkjanir. Og að nýjar virkjanir myndu svo framleiða samtals um 3.000 GWst fyrir strenginn. Samtals gerir þetta 5.000 GWst í aukna orkuframleiðslu vegna strengsins.

Nú hefur Landsvirkjun hækkað þessar tölur og gerir nú ráð fyrir að nýjar virkjanir skili þarna samtals um 3.900 GWst og að aflaukning og bætt nýting núverandi kerfis skili um 1.900 GWst. Samtals eru þetta, eins og áður sagði, 5.800 GWst. Sem þýðir að tala Landsvirkjunar um raforkuþörf strengsins hefur hækkað um 800 GWst (úr 5.000 í 5.800 GWst) og tala fyrirtækisins um nýjar virkjanir hér hefur hækkað um sem nemur 900 GWst (úr 3.000 í 3.900 Gwst). Miðað við þetta þyrfti að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um u.þ.b. 30%. Bara vegna strengsins.

Heildar raforkuþörf sæstrengs jafngildir átta Hvammsvirkjunum

Staðan er sem sagt þessi: Landsvirkjun hefur sagt að orkuþörf 1.000 MW sæstrengs sé um 5.000 GWst og segir núna að orkuþörfin yrði um 5.800 GWst (sem jafngildir framleiðslu um átta Hvammsvirkjana). Og fyrirtækið segir að nýjar virkjanir fyrir strenginn þurfi að skila um 3.900 GWst (sem jafngildir að reisa þyrfti milli fimm og sex Hvammsvirkjanir).

Á sama tíma segir Atlantic SuperConnection að lítið sem ekkert þurfi að virkja fyrir strenginn. Landsvirkjun miðar vel að merkja við nokkru minni kapal (1.000 MW) heldur en Atlantic SuperConnection gerir (1.200 MW). Sem gerir umrædda sviðsmynd Atlantic SuperConnection ennþá frábrugðnari þeirri sem Landsvirkjun hefur kynnt.

Við hljótum að sýna Landsvirkjun það traust að það sé í reynd svo að ef/ þegar sæstrengurinn yrði lagður, muni í reynd þurfa að auka raforkuframboð hér um 5.800 GWst. Til að unnt sé að uppfylla alla þessa orkuþörf fyrir kapalinn segir Landsvirkjun að hann kalli á miklar virkjanaframkvæmdir.

Hluti þessarar raforku á að koma með bættri nýtingu núverandi vatnsaflsvirkjana og nýrra hverfla í þær. Sú raforka er talin verða um 1.900 GWst. En miklu stærri hluti orkunnar á að koma frá nýjum virkjunum. Nýju virkjanirnar sem reisa þyrfti vegna sæstrengsins eiga að skila um 3.900 GWst. Það jafngildir því, eins og áður sagði, að hér þyrfti að reisa sem jafngildir milli fimm og sex Hvammsvirkjunum. Samsetning þessara virkjana er þó hugsuð með allt öðrum hætti.

3.900 GWst frá nýjum virkjunum

Samanlagt kæmu umræddar 3.900 GWst frá eftirfarandi tegundum af nýjum virkjunum (enn er stuðst við sviðsmynd Landsvirkjunar). Í fyrsta lagi yrðu reistar u.þ.b. 2-3 nýjar hefðbundnar vatnsafls- og/eða jarðvarmavirkjanir, sem Landsvirkjun áætlar að nemi um 200 MW (Landsvirkjun kallar þetta „miðlungsstórar eða minni“ virkjanir). Í öðru lagi yrðu byggðar ýmsar nýjar smærri vatnsaflsvirkjanir (í þessu sambandi talar Landsvirkjun um „bændavirkjanir“, en þetta eru ýmsir fremur litlir virkjanakostir í vatnsafli og enginn veit í reynd hvort þær verða í eigu bænda eða annnarra). Í þriðja lagi gerir Landsvirkjun ráð fyrir um 400 MW af vindafli. Sem jafngildir ca. 3-6 vindmyllugörðum. Og loks tilgreinir Landsvirkjun möguleikann á lághitavirkjunum. Með öllum þessum virkjunum samanlögðum á að vera unnt að útvega um 3.900 GWst.

1.900 GWst með betri nýtingu virkjana og nýjum hverflum

Þær 1.900 GWst sem upp á vantar fyrir kapalinn til Bretlands, að mati Landsvirkjunar, eiga að nást með því að nýta það sem Landsvirkjun nefnir „umframorka“. Þessari umframorku má skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða rafmagn sem fæst með betri nýtingu núverandi vatnsaflskerfis. Sem felst í því að sæstrengur gefur kost á meiri sveigjanleika í að ná meiri framleiðslu út úr núverandi virkjunum. Algeng nýting vatnsaflsvirkjana hér á landi yfir árið er tæplega 66% (skv. upplýsingum Orkustofnunar). Með því að hleypa betur af miðlunarlónunum, um hverflana, mætti auka þessa nýtingu (og svo mætti nýta ódýra breska næturorku ef þörf er á að safna aftur í lónin). Fleira mætti hér nefna, svo sem nýtingu á á orku sem samið er um í stóriðjusamningum en fyrirtækin nota ekki alltaf.

Hinn hluti umframorkunnar felst einkum í því vatni sem nú rennur stundum á yfirfalli yfir stíflur vatnsaflsvirkjananna. Í þessu sambandi má minna á fossinn Hverfanda upp við Kárahnjúkastíflu. Þar fer stundum mikil orka til spillis. Eðlilega er nokkuð misjafnt frá ári til árs hversu mikið þetta yfirfallsvatn er; þetta er m.ö.o. ótrygg (sveiflukennd) orka en lakara að hún fari til spillis með því að streyma á yfirfalli. Það má reyndar segja að náin tengsl séu milli hinna tveggja ólíku hluta umframorkunnar, því allt er þetta orka í formi vatnsafls sem nú fer til spillis en mætti láta fara í gegnum hverfla (túrbínur).

Af hálfu Landsvirkjunar er í þessu sambandi lagt til að afl Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar) verði aukið um 150 MW og afl í núverandi virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu verði aukið um samtals ca. 200 MW. Þannig má búa til mikið af raforku fyrir sæstreng. Þessi aflaukning á að verða samtals um 400 MW, sem þá yrði sem sagt bætt í núverandi virkjanir Landsvirkjunar. Þó svo þetta séu ekki nýjar virkjanir og þetta kalli ekki á nýjar stíflur eða ný miðlunarlón, þá yrðu þetta miklar framkvæmdir. En um leið hagkvæmar, vegna hins háa verðs sem vænta má af raforkusölu til Bretlands.

Sæstrengur myndi samtals kalla á næstum 6.000 GWst

Tölur Landsvirkjunar miðast við 1.000 MW kapal (sumstaðar talar Landsvirkjun um að kapallinn gæti verið 800-1.200 MW en þá er meðaltalið vel að merkja 1.000 MW). Áætlanir Atlantic SuperConnection um 1.200 MW kapal þýða að sá kapall sé um 20% afkastameiri og því mætti gera ráð fyrir að raforkuþörfin fyrir hann ætti að vera mun meiri en þær 5.800 GWst sem Landsvirkjun miðar við. Svo sem a.m.k. á bilinu 6.000-6.500 GWst. En hvort svo sem nákvæm tala raforkunnar sem á að fara frá Íslandi til Bretlands yrði 5.000 GWst eða 6.000 GWst eða 6.500 GWst, þá er augljóst að mjög mikla raforku þarf fyrir strenginn. Sú raforka jafngildir hátt í þriðjungi þess rafmagns sem nú er framleitt á Íslandi. Enda gerir Landsvirkjun ráð fyrir miklum virkjanaframkvæmdum vegna strengsins.

Stórfelldar framkvæmdir við virkjanir og flutningskerfi

Það er áhugavert ef okkur Íslendingum býðst tækifæri til að stórbæta nýtingu virkjana hér og þar með auka arðsemi þeirrar fjárfestingar. Þetta er möguleiki sem sæstrengur til Bretlands kann að bjóða upp á. Um leið er augljóst að slíkur strengur kallar á geysilegar virkjanaframkvæmdir hér (þar að auki þyrfti að styrkja flutningskerfi Landsnets mjög). Yfirlýsingar Atlantic SuperConnection um að jafnvel þurfi enga nýja virkjun á Íslandi vegna sæstrengs eru því ekki traustvekjandi.  

Til skemmri tíma hafa forsendur sæstrengs veikst

Það er skoðun greinarhöfundar að fjárhagslega gæti orðið mjög skynsamlegt fyrir Íslendinga að selja raforku sem útflutningsvöru. En hversu raunhæf er sú hugmynd í dag? Orkustefna Bretlands, sem byggst hefur á sameiginlegri orkustefnu Evrópusambandsríkjanna, er í nokkru uppnámi núna vegna fyrirhugaðs Brexit. Og svo hefur kostnaður við uppbyggingu vindorku í Bretlandi lækkað verulega. Hvort tveggja er líklegt til að hækka þröskulda vegna sæstrengsverkefnisins. Það eru ansið brattar áætlanir hjá fyrirtæki sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega, að láta sér detta í hug að unnt verði að útvega allan eða stóran hluta orkunnar í 1.200 MW sæstrengs milli Bretlands og Íslands strax árið 2025.

Til varnar Atlantic SuperConnection er þó rétt að vekja athygli á því að hugsanlega þarf ekki öll þessi raforka (5.000-6.000 GWst) að vera til taks um leið og strengurinn kæmist í gagnið. Kannski horfir Atlantic SuperConnection til þess að nóg sé að byrja með þær sveiflukenndu u.þ.b. 1.900 GWst sem unnt er að sækja í núverandi kerfi með hóflegri framkvæmdum. Um leið er fyrirtækið kannski að vinna með þá hugmynd að strengurinn verði eitthvað minni en opinberar upplýsingar gefa til kynna. En það er augljóst að a.m.k. til skemmri tíma litið eru forsendur sæstrengs veikari í dag en voru fyrir fáeinum árum. Hvað svo sem kann að gerast í framtíðinni.

Misræmi milli Landsvirkjunar og Atlantic SuperConnection

Það sem kannski er sérkennilegast er það misræmi eða munurinn á sviðsmyndum Landsvirkjunar annars vegar og Atlantic SuperConnection hins vegar. Í hnotskurn má segja að áætlun Landsvirkjunar sé skýrari. Og það er vandséð að sú sáralitla þörf á nýjum virkjunum, sem Atlantic SuperConnection hefur kynnt, gangi upp. Nema að annað hvort standi til að raforkan sem nú fer til Norðuráls fari í sæstrenginn, eða að búið sé að gjörbreyta viðskiptamódeli strengsins, t.d. á þann hátt að hann eigi að vera miklu meira fyrir innflutning en til stóð í fyrri áætlunum.

Hvað sem þessu líður, þá hlýtur að vera æskilegt að Landsvirkjun og Atlantic SuperConnection tali á líkari nótum. Það er skynsamlegt að leita leiða til að hámarka arðinn af íslensku orkulindunum, en umræðan ætti að vera skýrari. Meira samræmi mætti vera í þeim upplýsingum sem helstu hagsmunaaðilarnir kynna til að útskýra raforkuþörf og raforkuflutning vegna sæstrengs.

Og það er efni í svolítinn kjánahroll þegar maður les á vef Atlantic SuperConnection, að á Íslandi sé unnt fyrir fyrirtækið að nálgast svo til takmarkalausa uppsprettu hreinnar vatns- og jarðvarmaorku fyrir Bretland: Through a unique renewable energy partnership with Iceland, we can bring a near-limitless source of clean hydroelectric and geothermal power to the UK.

Þörf á meiri/betri upplýsingamiðlun

Greinarhöfundur mun á næstunni birta nákvæmari upplýsingar og skýra sviðsmynd um það hvernig unnt væri að uppfylla umrædda raforkuþörf sæstrengs. Og mun þar með taka að sér það hlutverk að veita almenningi upplýsingar sem aðrir ættu löngu að vera búnir að veita með skýrari hætti. Þar verður ekki aðeins litið til sæstrengsins, heldur líka tekið tillit til vaxtarins í innlendri raforkuþörf. Enda hlýtur sú aukna eftirspurn alltaf að vera eitt lykilatriðanna þegar horft er til þess hvernig íslenski orkumarkaðurinn mun þróast.

Ýmsir valkostir í boði og mikilvægt að horfa til umhverfismála

Svo er líka eðlilegt að skoða aðra valkosti en sæstreng. Og vega þetta allt og meta. Kannski væri skynsamlegast fyrir okkur Íslendinga að byrja á því að ná betri og meiri nýtingu úr núverandi vatnsaflskerfi fyrir okkur sjálf. Það mætti gera með því að virkja vind í hófi og nýta samspil vindmylla og stórra miðlunarlóna vatnsaflskerfisins. Þannig mætti með hagkvæmum hætti bæði mæta aukinni raforkuþörf hér innanlands og um leið gera stóran hluta núverandi vatnsaflsvirkjana eitthvað hagkvæmari.

Samhliða þessu myndi verða minni þörf t.d. á Hvammsvirkjun eða öðrum slíkum nýjum virkjunum sem valda stórfelldu, varanlegu og óafturkræfu raski á landslagi. Um leið myndu áætlanir um sæstreng kannski verða síður áhugaverðar eða a.m.k. ekki eins sterkur valkostur að svo stöddu. Þarna er unnt að fara ýmsar leiðir. Okkar er valið. En það eru valkostir af þessu tagi sem við þurfum að íhuga. Og það hljóta t.a.m. stjórnmálamenn og þá kannski einkum forráðamenn orku- og umhverfismála að gera, svo sem umhverfisráðherra og iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

------------

Mynd: Atlantic SuperConnection kynnir nú árið 2025 sem fyrsta rekstrarár sæstrengs milli Íslands og Bretlands:

 

Hreyfiafl-Atlantic-Superconnection_March-2018


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband