9.5.2019 | 14:09
Rafbílabyltingin orðin að raunveruleika?
Er rafbílabyltingin loks brostin á? Hinn hagkvæmi rafmagnsbíll hefur ansið lengi verið rétt handan við hornið. Það þekkjum við vel; við sem horfðum af áfergju á Nýjustu tækni og vísindi hér í Den. Það er a.m.k. svo að í minningunni finnst greinarhöfundi sem hann hafi horft á hverja rafbílafréttina á fætur annarri í þeim ágætu þáttum fyrir margt löngu. Og að rafbílabyltingin hafi lengi verið alveg við það að bresta á.
Rafbílatækninni hefur fleygt mjög fram á síðustu árum. Engu að síður eru rafbílar enn dýrari en hefðbundnir bílar með brunahreyfil. En þetta er að breytast hratt og mögulega mjög stutt í að kostnaðurinn verði svipaður og jafnvel að rafmagnsbílarnir verði ódýrari en þeir hefðbundnu. Það á þó enn eftir að koma í ljós hvort líftími stóru rafhlaðnanna uppfylli kröfur neytenda um langan aksturstíma. Einnig er enn óvíst hversu drægi hreinna rafmagnsbíla, þ.e. bíla sem hafa einungis rafmótor, kemur til með aukast hratt.
Síðustu árin hefur rafmagnsbílum fjölgað verulega og það eru sífellt fleiri sem nú spá því að þess háttar bílar taki senn yfir fólksbílamarkaðinn. Það er samt óvíst hversu hratt rafbílavæðingin mun ganga. Sá sem þetta skrifar mun t.a.m. líklega ekki kaupa sér rafbíl fyrr en drægnin á þokkalega hagkvæmum rafbíl verður orðin a.m.k. 400 km. En hver hefur sinn smekk. Í þessari grein er fjallað um rafmagnsbíla og sérstaklega litið til hinnar hröðu útbreiðslu rafbíla í Noregi. Kannski munum við brátt sjá svipaða þróun hér á Íslandi.
Rafmagnsbílar brátt ódýrari en hefðbundnir bílar
Vegna sífellt betri og ódýrari rafgeyma, auk þess sem sífellt fleiri bílaframleiðendur eru að koma með nýja rafmagnsbíla, fer framleiðslukostnaður rafmagnsbíla hratt lækkandi. Vísbendingar eru um að við nálgumst nú mjög þau mikilvægu vatnaskil þegar rafbíllinn verður ódýrari en hefbundnir sambærilegir bílar með sprengihreyfil. Samkvæmt Bloomberg New Energy Finance (BNEF) eru sennilega einungis þrjú ár í að rafmagnsbílar verði ódýrari en hefðbundnir fólksbílar með brunahreyfil. Um leið og það gerist gæti rafmagnsbíllinn nánast yfirtekið fólksbílamarkaðinn á undraskömmum tíma. Því um leið og rafbíllinn verður hagkvæmasti kosturinn mun fjöldinn velja rafbíl.
Skilgreiningar á rafbíl: Bara BEV eða líka tvinnbílar?
Áður en lengra er mikilvægt að muna að rafmagnsbílum er skipt í nokkra flokka. Helstu skilgreiningar sem gott er að kunna deili á eru BEV, PHEV og HEV. Í reynd eru þetta tveir meginflokkar; hreinir rafbílar annars vegar og tvinnbílar hins vegar. En sökum þess hversu lítla drægni tvinnbílar hafa á rafhleðslunni, kann að vera hæpið að skilgreina slíka bíla sem rafbíla. Þó svo það sé oft gert.
BEV er hinn eini sanni rafbíll
BEV stendur fyrir Battery Electric Vehicle. Slíkar bifreiðar eru með rafmótor og ekki með bensín- eða díselvél (sem sagt ekki með brunahreyfil). Þeir eru hlaðnir rafmagni með því að stinga þeim í samband með rafmagnstengli. Þegar slíkur bíll verður rafmagnslaus kemst hann ekki lengra.
BEV eru sem sagt óháðir hefðbundnu eldsneyti og frá þeim kemur því hvorki koltvísýringur né annar óæskilegur útblástur. Um leið skiptir miklu, út frá umhverfissjónarmiðum, hvernig rafmagnið sem bíllinn notar er framleitt. Rafbíll sem í reynd gengur á kolaorku er lítt umhverfisvænn, ólíkt rafbíll sem keyrir á raforku frá t.d. vindmyllum eða vatnsaflsvirkjun. Bílar sem flokkast sem BEV eru af ýmsum tegundum, en þeir þekktustu eru líklega Nissan Leaf og Tesla.
Tvinnbílar (PHEV og HEV)
Hinn flokkur rafbíla eru bílar sem bæði ganga fyrir rafmagni og eldsneyti; eru sem sagt bæði með rafmótor og með brunahreyfil. Á ensku nefnast þeir HEV, sem stendur fyrir Hybrid Electric Vehicle. Á íslensku eru þessir bílar nefndir tvinnbílar. Bifreiðar af þessu tagi eru ýmist með búnað til að stinga þeim í samband eða að geymirinn fyrir rafmótorinn fær einungis hleðslu þegar bíllinn er á ferð. Fyrrnefnda útfærslan kallast PHEV sem stendur fyrir Plug-in Hybrid Electric Vehicle, en á íslensku er þá talað um tengiltvinnbíla.
Tvinnbílar geta ekki ekið mjög langt á rafhleðslunni, enda eru þeir ekki með eins öflugan rafgeymi fyrir aksturinn eins og BEV. Engu að síður geta svona bílar dregið verulega úr eldsneytisnotkun, t.d. ef þeim er almennt ekið stuttar vegalengdir (eins og t.d. í og úr vinnu). Rafhleðslan dugar vel fyrir slíkan akstur. Ef ráðist er í lengri ferðir á tvinnbíl tekur bensínvélin (eða díselvélin) við þegar rafhleðslan er búin. Dæmi um tengiltvinnbíla eru t.d. Chevrolet Volt og Mitsubishi Outlander. Og þekktasti tvinnbíllinn er líklega Toyota Prius.
Loks má minna á að bílar koma einnig í þeirri útfærslu að vera með efnarafal, sem breytir eldsneyti í rafmagn. Þar eru vetnisrafalar hvað athyglisverðastir og dæmi um slíkan bíl er breski Riversimple. Vetnisbílar virðast þó eiga undir högg að sækja og teljast vel að merkja ekki til rafbíla.
Rafbílavæðing Norðmanna fyrirheit um það sem koma skal?
Það sem einkum hefur haldið aftur af fjölgun rafbíla er sú staðreynd að þeir eru eða hafa a.m.k. lengst af verið töluvert dýrari en hefðbundinn fólksbíll af svipaðri stærð. En í löndum þar sem rafbílar njóta stuðnings hins opinbera, svo sem með afnámi virðisaukaskatts og ýmsum öðrum fríðindum, virðist fólk mjög gjarnan velja rafmagnsbíl fremur en þann hefðbundna. Þar er Noregur gott dæmi.
Árið 2018 voru hreinir rafmagnsbílar (BEV) um þriðjungur allra nýrra seldra fólksbíla í Noregi! Og þegar horft er til allra nýrra fólksbíla með rafmótor, þ.e. bæði þeirra bíla sem einungis ganga fyrir rafmagni og tvinnbíla, var markaðshlutdeild þessara bíla um 50% það ár í Noregi. Þar í landi var sem sagt annar hver seldur fólksbíll rafbíll árið 2018 (þegar notuð er víðtækari skilgreiningin á rafbílum).
Norðmenn vilja Teslu, en hvað vilja Íslendingar?
Salan á rafmagnsbílum í Noregi sló svo enn eitt metið nú í mars s.l. (2019). Þegar næstum 60% af öllum seldum nýjum fólksbílum voru hreinir rafbílar (BEV)! Þar af var helmingurinn af gerðinni Tesla Model3! Sem merkir að næstum því þriðjungur af öllum nýjum seldum fólksbílum í Noregi í mars var Tesla. Norðmenn eru bersýnilega óðir í Teslu. Og nú hefur Tesla auglýst eftir starfsfólki á Íslandi. Kannski mun Teslaverslun hérlendis koma meira skriði á íslenska rafbílavæðingu. Fyllast götur borgarinnar og kaupstaða Íslands brátt af Teslum líkt og verið hefur að gerast í Noregi?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.