18.6.2018 | 20:41
Rís rándýr virkjun í norðri?
Áhugavert er að skoða samanburð á kostnaði íslenskra virkjana. Þá sést að kostnaðurinn þar er mjög mismunandi. T.a.m. er fyrirhuguð Hvalárvirkjun á Ströndum í þessu samhengi ansið dýr virkjun. Samt er mikill áhugi á að reisa virkjunina. Sá vilji virðist endurspegla ákveðna óhagkvæmni í rekstri íslenska virkjanakerfisins.
Kostnaðarsamanburður virkjana
Þegar fjallað er um kostnað nýrra virkjana á Íslandi er nærtækast að miða við tölur sem settar voru fram í skýrslu sem unnin var fyrir Samorku fyrir um tveimur árum og er birt á vef samtakanna. Í skýrslunni er kostnaðinum dreift á framleidda raforku á líftíma virkjunarinnar og þá fæst kostnaður á hverja framleidda orkueiningu (oft miðað við eina MWst eða eina kWst). Á ensku er í þessu sambandi talað um levelized cost of energy; LCOE. Þetta er að vísu ekki gallalaus aðferð. En er engu að síður alþekkt og almennt viðurkennd sem nokkuð skynsamleg leið til að bera saman fjárhagslega hagkvæmni ólíkra virkjunarkosta.
Hvalárvirkjun er nokkuð dýr virkjunarkostur
Samkvæmt áðurnefndri skýrslu, sem unnin var fyrir Samorku, er LCOE vegna Hvalárvirkjunar 49,70 USD/MWst. Til samanburðar má nefna að skv. sömu skýrslu er LCOE vegna hinnar nýju Þeistareykjavirkjunar 28,90 USD/MWst og LCOE vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár er 38,80 USD/MWst. Og LCOE vegna mögulegrar jarðvarmavirkjunar í Eldvörpum er sagður vera 44,80 USD/MWst. Hvalárvirkjun er því nokkuð dýr virkjunarkostur. Þar að auki yrði afar kostnaðarsamt að tengja virkjunina við flutningskerfi Landsnets. Þegar/ ef það er tekið með í reikninginn myndi samanburðurinn gera Hvalárvirkjun ennþá dýrari.
Hvalárvirkjun miklu dýrari en almennt raforkuverð
Í tilvitnaðri skýrslu er viðmiðunargengi USD sem nemur 125 íslenskum krónum (ISK). Í dag er gengið nær 110 ISK. Slíkar gengissveiflur hafa ekki stórfelld áhrif á samanburð virkjunarkostanna. Þess má geta að Hvalárvirkjun hefur ekki verið kynnt sem raforkukostur fyrir stóriðju. Þess vegna virðist mega ganga út frá því að raforkusalan frá virkjuninni verði fyrst og fremst til almennra notenda og t.a.m. mögulega einnig til smærri stórnotenda eins og gagnavera. Í reynd er þó orkan frá Hvalárvirkjun ekki eyrnamerkt einstökum tegundum raforkunotenda.
Almennt heildsöluverð á rafmagni á liðnu ári (2017) var að meðaltali nálægt 4,5 ISK/kWst sem jafngildir 4.500 ISK/MWst. Meðalgengi USD og ISK árið 2017 var 106,78 og því var almennt raforkuverð hér árið 2017 um 42 USD/MWst að meðaltali. Þetta verð er nokkuð fjarri LCOE upp á 49,70 sem reiknað hefur verið út vegna Hvalárvirkjunar (auk þess sem tengikostnaður við flutningsmannvirkin eru ekki innifalinn í þeirri tölu). Samkvæmt þessu er Hvalárvirkjun töluvert dýrari en almennt raforkuverð hér réttlætir.
HS Orka veit hvar hagkvæmni Hvalárvirkjunar liggur
Af framangreindu ætti að vera augljóst að Hvalárvirkjun er dýr virkjunarkostur. Og miðað við almennt raforkuverð gengur virkjunin ekki upp fjárhagslega. En veruleikinn er ekki alveg svona einfaldur. Fyrirtækið sem á meirihlutann í þessu virkjunarverkefni, HS Orka, sér bersýnilega einhverja hagkvæmni í virkjuninni. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða útreikningar eða áætlanir liggja þar að baki og verðum því að reyna að geta okkur til þess.
Liggur hagkvæmni Hvalárvirkjunar í dýru toppafli frá Landsvirkjun?
Höfundur veit ekki fyrir víst af hverju HS Orka sér hagkvæmni við Hvalárvirkjun. Aftur á móti má vekja athygli á því að þau sem standa að samstarfshópnum Jarðstrengir hafa fært rök fyrir því að HS Orku sé mikilvægt að ráða yfir nýrri nokkuð stórri vatnsaflsvirkjun til að geta uppfyllt alla raforkusölusamninga sína. Eða ella kaupa dýrt toppafl af Landsvirkjun.
Samkvæmt skrifum Jarðstrengja kaupir HS Orka verulegt magn af rafmagni til að mæta álagstoppum og í þeim viðskiptum er fyrirtækið mjög háð framboði og verðlagningu Landsvirkjunar. Og að Hvalárvirkjun hafi fyrst og fremst þann tilgang að minnka eða losa HS Orku undan þessum dýru toppaflskaupum.
Jarðstrengir kunna þarna að hafa nokkuð til síns máls. Þannig segir berum orðum í gögnum Orkustofnunar um Hvalárvirkjun (viðauki 05 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/02) að virkjunin muni nýtast best eigendum sínum sem toppafls virkjun. Þetta orðalag kann að vera vísbending um að tilgangur virkjunarinnar sé einmitt fyrst og fremst að mæta toppaflsþörf HS Orku. Í tilviki ekki stærri vatnsaflsvirkjunar með miðlun er augljóslega hagkvæmt að nýta virkjunina með þessum hætti. Um leið má hafa í huga að skv. skrifum Jarðstrengja er HS Orka að greiða Landsvirkjun sem nemur 150-200 USD/MWst fyrir raforku á álagstímum.
Huga þarf að aukinni hagkvæmni í raforkukerfinu
Miðað við uppgefna kostnaðartölu Hvalárvirkjunar, sbr. hér fyrr í greininni, virðist sem Jarðstrengir kunni að hafa lesið rétt í það hvert viðskiptamódel Hvalárvirkjunar sé. Þ.e. að HS Orka vilji minnka verulega þörf sína á að kaupa dýrt toppafl frá Landsvirkjun (jafnvel þó svo verðið á því sé leyndarmál og því óvíst).
Það er ekki heppilegt ef reyndin er sú að orkufyrirtæki þurfi að reisa svo dýra 55 MW virkjun norður á Ströndum til að mæta toppafli. Sennilega er til betri leið til að tryggja raforkugeiranum nægt rafmagn til að uppfylla orkusölusamninga sína. Hvernig væri t.a.m. að reyna að ná meiri hagkvæmni út úr hinu stóra íslenska vatnsaflskerfi? Kerfinu sem þegar er til staðar.
Í reynd liggur töluverð innbyggð offjárfesting í hinu stóra kerfi miðlunarlóna og vatnsaflsvirkjana sem Landsvirkjun ræður yfir. Sú offjárfesting kemur til af því að Landsvirkjun þarf að hafa borð fyrir báru til að geta uppfyllt orkusölusamninga sína á misgóðum vatnstímabilum. Þar skipta samningarnir við stóriðjufyrirtækin fjögur mestu máli.
Samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar er meðalnýting íslensku vatnsaflsvirkjananna um 66%. Það væri þjóðhagslega æskilegt að finna leiðir til að þetta stóra kerfi geti skilað meri raforku með lágmarks tilkostnaði. Þannig myndu allir fá ávinning; bæði Landsvirkjun, önnur raforkufyrirtæki og neytendur. Og það er reyndar augljóst hvernig þetta markmið gæti náðst með hagkvæmum hætti. Sem er með samspili þessa gríðarstóra vatnsaflskerfis og ódýrrar vindorku. Það ánægjulegasta við tíðindin af lækkandi kostnaði vindorku er tvímælalaust að þetta skapar hagkvæma leið til að auka hér raforkuframboð án eins mikils tilkostnaðar eins og ella væri.
----------------------------
Höfundur vinnur að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki. Hér til hliðar má sjá nýjasta kostnaðarmat Lazard á mismunandi virkjunarkostum og þar er vindorkan nú með lægstan kostnað; allt niður í 30 USD/MWst. Þessar tölur Lazard eru frá 2017, en þess má geta að nú eru vísbendingar um að raforkuframleiðsla með sólarsellum á hagkvæmum svæðum sé að verða ódýrasta tegundin af nýjum raforkuverkefnum. Svo myndi ekki vera á Íslandi (of lítil meðalgeislun), en hér á landi eru aftur á móti vindaðstæður með því besta sem gerist í heiminum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.