21.5.2018 | 10:10
Bætt nýting orkukerfisins með betra flutningskerfi
Verulegt átak þarf til að bæta flutning og dreifingu á raforku um landið og Landsnet þarf að byggja upp traust gagnvart því að velja réttu leiðina fyrir nýjar háspennulínur. Þetta er álit forstjóra Landsvirkjunar (LV) og kom nýverið fram í viðtali á morgunútvarpi RÚV, en LV er einmitt langstærsti eigandi Landsnets. Við sama tækifæri sagði forstjóri LV að leita þurfi leiða til að setja háspennulínur í meira mæli í jörð og veita Landsneti aukið kostnaðarsvigrúm. Enda eru jarðstrengir oftast dýrari kostur en loftlínur.
Þessi áhersla LV á bætt flutningskerfi rafmagns á Íslandi kemur ekki á óvart. Með bættu flutningskerfi myndi nýting raforkukerfisins verða betri og kerfið skila meiri hagkvæmni. Þessari auknu hagkvæmni má skipta í tvo meginflokka:
- Annars vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að gera kleift að koma meiru af raforku frá núverandi virkjunum til notenda. Besta dæmið um þetta snýr sennilega að hinni nýju Þeistareykjavirkjun. Þar hyggst kísilver PCC á Bakka við Húsavík nota um 60 MW af heildarafli virkjunarinnar sem er alls 90 MW. Þarna verður talsvert afl sem ekki mun nýtast miðað við núverandi flutningsgetu. Núverandi háspennulínur frá Þeistareykjavirkjun myndu t.a.m. ekki ráða við að flytja umtalsvert aukið magn raforku til álversins á Reyðarfirði, loðnuverksmiðja á Austurlandi né til Eyjafjarðarsvæðisins.
- Hins vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að unnt yrði að nýta hagkvæmustu orkukostina við byggingu nýrra virkjana. Þar má t.d. nefna möguleikann á að byggja s.k. Blönduveitu. Með henni væri unnt að auka raforkuframleiðsluna í Blöndu verulega með hagkvæmum hætti. En eins og staðan er núna væri ekki unnt að koma raforkunni þaðan til þeirra svæða þar sem eftirspurnin er. Enn er óvíst hvenær Landsnet nær að mæta flutningsþörf þessarar hagkvæmu virkjunarframkvæmdar.
Einnig þarf að huga að styrkingu flutningskerfisins til að geta nýtt þann orkukost sem nú er að verða ódýrastur. Sem er vindorkan. Þar fer kostnaðurinn jafnt og þétt lækkandi og er nú svo komið að raforkuframleiðsla af því tagi (í samspili við núverandi vatnsaflskerfi) gæti mætt aukinni raforkuþörf á Íslandi með afar hagkvæmum hætti. Fyrir vikið má vænta þess að Landsnet sé farið að skoða hvar líklegast sé að stórir vindmyllugarðar komi til með rísa hér.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.
15.5.2018 | 13:30
Beðið eftir hærri arðgreiðslu frá Landsvirkjun
Landsvirkjun er nú að ljúka við hina nýju Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun er líka tilbúin. Skv. yfirlýsingum fyrirtækisins hyggst það ekki ráðast í neinar nýjar framkvæmdir fyrr en eftir um 3-4 ár. Þar með mun Landsvirkjun ekki þurfa að verja peningum úr rekstri í stórar framkvæmdir á næstu árum, né taka aukin lán.
Þá eru almenn rekstrarskilyrði fyrirtækisins sú um stundir mjög hagstæð. Landsvirkjun hefur því væntanlega góða möguleika til að auka arðgreiðslur verulega. Og hefur boðað það ítrekað. En hvenær skyldi það verða? Í þessari grein er farið yfir yfirlýsingar Landsvirkjunar um auknar arðgreiðslur og settar fram tilgátur um af hverju þær yfirlýsingar hafa enn ekki gengið eftir.
Biðin frá 2015
Það er farið að teygjast á biðinni eftir auknum arðgreiðslum Landsvirkjunar (LV) til eiganda síns; íslenska ríkisins. Í maí 2015, þ.e. fyrir þremur árum síðan, var boðað að arðgreiðslur LV myndu geta hækkað eftir tvö til þrjú ár og á nokkrum árum farið í 10-20 milljarða árlega.
Í reynd hélst arðgreiðslan lítt breytt 2016 og líka 2017 og líka 2018. Samt sagði LV í mars 2017 að arðgreiðslurnar myndu byrja að hækka á árinu 2018. Reyndin varð aftur á móti sú að arðgreiðslan 2018 var svo til hin sama þá eins og hún hafði verið árið áður.
Arðgreiðslan í ISK fór hæst vegna rekstrarársins 2011
Arðgreiðsla LV í íslenskum krónum hefur nú svo til staðið í stað í sjö ár. Og allt frá 2012 hefur arðgreiðsla LV meira að segja verið nokkru lægri í krónum talið en hún var það árið (2012), sbr. taflan hér til hliðar. Fram til þessa fór arðgreiðsla LV í krónum talið sem sagt hæst í kjölfar rekstrarársins 2011.
Núna þremur árum eftir að miklar hækkanir voru boðaðar á arðgreiðslugetu LV eru arðgreiðslurnar sem sagt ennþá svo til óbreyttar frá því sem var. Það breytir því þó ekki að geta fyrirtækisins til að greiða eiganda sínum arð hefur aukist. Og enn er hækkun á arðgreiðslu LV boðuð og nú að hún hækki á næsta ári.
Hærra raforkuverð, aukin sala og hagstæð ytri skilyrði
Síðustu misserin og árin hefur flest fallið með LV. Það var t.a.m. stórt skref þegar fyrirtækið náði árið 2016 að semja við Norðurál (Century Aluminum) um verðtengingu við norræna markaðsverðið (Elspot á Nord Pool Spot). Sá samningur tekur gildi síðla árs 2019 og ætti að auka arðgreiðslugetu LV umtalsvert. Sama gæti gerst vegna járnblendiverksmiðju Elkem, en þar verður raforkuverðið frá og með 2019 ákveðið af sérstökum gerðardómi. Þessar verðhækkanir munu verða að veruleika á næsta ári (2019).
Þá hefur verið sterk eftirspurn frá gagnaverum eftir raforku. Það hjálpar LV að hrista af sér það áfall þegar kísilverksmiðja United Silicon varð gjaldþrota og kaup á sem nemur 35 MW féllu niður. Svo eru góðar vonir um að álverð haldist nokkuð hátt næstu misserin, sem myndi hafa jákvæð áhrif á tekjur LV frá álverunum á Grundartanga og Reyðarfirði (þróun álverðs er að vísu alltaf afar óviss). Loks gæti ISK veikst gagnvart USD, sem myndi hafa jákvæð áhrif á rekstrakostnaðarliðinn í reikningum LV. Allt ætti þetta að hjálpa fyrirtækinu til að skila bættri afkomu og gefa tækifæri á meiri arðgreiðslum.
Margboðuð hækkun arðgreiðslu varð ekki í ár
Miðað við jákvæða þróunina á fjárhag LV síðustu árin og orð forstjóra fyrirtækisins árið 2017 um að arðgreiðslan byrji að hækka á árinu 2018 átti sá sem þetta skrifar von á því að arðgreiðslan í ár myndi hækka eitthvað frá því sem verið hafði. Og áleit að hún gæti orðið um 5 milljarðar í ár, þ.e. vegna rekstrarársins 2017. En reyndin varð sú að greiðslan hélst enn og aftur nálægt 1,5 milljarði króna.
Engu að síður má sennilega gera ráð fyrir að á næsta ári (þ.e. 2019 í kjölfar rekstrarársins 2018) verði arðgreiðslan hærri. Enda hamrar LV ennþá á því að árlegar arðgreiðslur stefni í 10-20 milljarða. Að vísu gerði LV ráð fyrir því árið 2017 að arðgreiðslan yrði hærri strax árið 2018, þ.a. þarna er ekki alveg á vísan að róa. Á næsta ári verður vel að merkja komið 2019 og þá orðin fjögur ár síðan stórauknar arðgreiðslur LV voru boðaðar.
Viðkvæmt lánshæfismat og enn enginn auðlindasjóður
Hafa ber í huga það er ekki forstjóri eða framkvæmdastjórn LV sem ákveður arðgreiðsluna. Sú ákvörðun er á valdi stjórnar fyrirtækisins. Og stjórnin álítur bersýnilega ekki enn tímabært að arðgreiðslan hækki. Væntanlega er sú ákvörðun byggð á ráðum forstjórans.
Það er sennilega einkum tvennt sem veldur því að arðgreiðslan hefur enn ekki verið hækkuð. Annars vegar að enn hefur ekki verið stofnaður sá auðlindasjóður sem stjórnvöld hafa stefnt að í nokkur ár og núverandi ríkisstjórn virðist líka umhugað um. Hins vegar er að skynsamlegt kann að hafa þótt að bíða aðeins lengur með hækkun arðgreiðslunnar til að halda við uppganginum í lánshæfismati fyrirtæksins.
Kannski skiptir þetta síðastnefnda mestu um það að arðgreiðslan er enn ekki byrjuð að hækka. Lækkun skulda kemur sem sagt framar í forgangsröðinni en hækkun arðgreiðslna. Engu að síður kemur á óvart, miðað við síendurteknar yfirlýsingar LV s.l. þrjú ár, að enn skuli ekki sjást almennilegt skref í hækkun á arðgreiðslunni.
Hækkar arðgreiðsla Landsvirkjunar loksins á næsta ári?
Vegna boðaðs framkvæmdastopps LV næstu árin, líklegra verðhækkana á raforku til Norðuráls (og væntanlega einnig hækkun til Elkem) og að horfur eru á bærilegu álverði næstu misserin, ætti að verða einfalt að hækka arðgreiðslu LV verulega á komandi ári og árum. Við verðum þó enn að bíða í næstum heilt ár uns við sjáum hversu mikið fyrsta skref hækkunarinnar verður. Kannski má vonast eftir u.þ.b. 5 milljörðum króna í arð þá. Og jafnvel meiru.
Þarna gæti þó niðurstaða gerðardóms um raforkuverðið til Elkem haft áhrif, enda er bersýnilegt að LV gerir sér vonir um mikla hækkun á verðinu þar frá og með 2019. Bara sú hækkun ein og sér gæti skilað LV nálægt 2-2,5 milljörðum króna í auknar tekjur á ársgrundvelli. En verði hækkunin mun minni gæti hraðri aukningu arðgreiðslna LV kannski enn seinkað. Um þessa stöðu LV mun væntanlega eitthvað áhugavert koma fram á ársfundi fyrirtækisins, sem fram fer nú síðar í dag.
6.5.2018 | 14:08
Virkjanir vegna sæstrengs
Í umræðu um mögulegan raforkustreng milli Íslands og Bretlands, oft nefndur IceLink, hefur töluvert verið fjallað um flutningsgetu og raforkuþörf slíks sæstrengs. Minna hefur verið fjallað um það hvaðan raforkan fyrir strenginn myndi koma; hvaða virkjanaframkvæmdir þyrfti að ráðast í til að næg orka væri fyrir kapalinn. Um það er fjallað í þessari grein.
Eldri sviðsmynd er að einhverju marki orðin úrelt
Ítarlegustu upplýsingarnar sem birst hafa til þessa um hvað þyrfti að virkja fyrir sæstrenginn má sjá í yfirliti Orkustofnunar frá 2016 (sem fyrst og fremst byggir á upplýsingum frá Landsvirkjun). Sú sviðsmynd sem þar birtist er þó líklega að hluta til orðin úrelt. Því þar er gert ráð fyrir að raforkan frá Þeistareykjavirkjun verði nýtt fyrir strenginn, en sú raforka er nú þegar að mestu seld til kísilvers PCC á Bakka við Húsavík.
Sú sviðsmynd sem kynnt er í þessari grein um það hvaðan raforka fyrir sæstreng gæti komið, er sú sem greinarhöfundar álítur hvað raunhæfasta. Þó ber að hafa í huga að ýmsar forsendur geta hæglega breyst og raunveruleg orkuöflun fyrir sæstreng gæti því orðið með öðrum hætti.
Tekið skal fram að í sviðsmyndinni sem hér birtist er bæði miðað við raforkuþörf sæstrengs og tillit tekið til þeirrar auknu innlendu eftirspurnar sem Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir. Og í því sambandi er viðmiðunarárið 2025, enda segir fyrirtækið Atlantic SuperConnection það ár geta orðið fyrsta rekstrarár sæstrengsins. Það er að vísu ansið bratt að unnt yrði að ljúka öllum nauðsynlegum framkvæmdum vegna sæstrengs fyrir það tímamark. En þó svo strengnum myndi seinka, yrði raforkuþörf þessa 1.000 MW strengs sú sama.
1.000 MW sæstrengur
Í umfjöllun um sæstrenginn hefur reyndar verið nokkuð mismunandi hvaða stærð af kapli er miðað við. Sjá hefur mátt tölur frá 800 MW upp í 1.200 MW. Eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir að eftir því sem strengurinn yrði stærri (flutningsgetan meiri) muni meiri raforka fara um strenginn. Og um leið meira flutt út af raforku framleiddri á Íslandi og því meiri raforkuþörf. Í þessari grein er miðað við að kapallinn yrði 1.000 MW. Þetta er sama stærð eins og meðaltalið sem gefið er upp á vef LV og líka sama stærð eins og miðað var við í skýrslu Kviku banka.
Raforkuþörf sæstrengs er um 5.800 GWst
Fræðilega séð gæti sæstrengur upp á 1.000 MW flutt nálægt 9 þúsund GWst af rafmagni árlega, þ.e. ef hann væri ávallt full nýttur (og ekkert orkutap). Nýting á svona strengjum er þó jafnan mun minni og er gjarnan gert ráð fyrir um 65% nýtingu. Enda álítur LV líklegt að kapallinn myndi nýtast til að flytja út um 5.700 GWst árlega. Að auki myndu, að mati Landsvirkjunar, um 100 GWst tapast við flutninginn á raforkunni til strengsins. Innlend raforkuframleiðsluþörf vegna kapalsins yrði því, að mati LV, um 5.800 GWst. Í skýrslu Kviku banka var gert ráð fyrir ennþá meiri útflutningi eða allt að 7.000 GWst. Tala LV virðist raunhæfari og er miðað við hana í þessari grein.
Nauðsynleg aflaukning að lágmarki um 1.100 MW
Rétt eins og á við um flutningstækið sæstreng, er nýting framleiðslutækisins virkjana misjöfn. Það er m.ö.o. misjafnt hversu vel afl virkjana nýtist í hverri virkjun fyrir sig. Nefna má að samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er meðalnýting afls íslenskra vatnsaflsvirkjana nálægt 66%. Í þeirri sviðsmynd sem hér er kynnt myndi þurfa nýtt afl upp á um 1.100 MW til að uppfylla raforkuþörf upp á 5.800 GWst.
Sú tala (1.100 MW) rímar nokkuð vel við sviðsmynd LV (sem Orkustofnun hefur líka kynnt). Þar er reyndar gert ráð fyrir ennþá meiri aflþörf, en sá munur skýrist aðallega af því að í sviðsmynd LV er gert ráð fyrir aðeins meiri vindorku en í sviðsmynd greinarhöfundar. Og að í sviðsmynd greinarhöfundar er gert ráð fyrir meira vatnsafli en LV gerir (þar skiptir Holtavirkjun mestu máli). Það má því líta á tölu greinarhöfundar sem algert lágmark. Og að lítið megi út af bregða til að aflþörf sæstrengs yrði í reynd aðeins meiri en umrædd 1.100 MW.
Aflþörfin gæti verið nær 1.300 MW
Mögulega yrði aflþörfin fyrir 1.000 MW streng sem sagt nokkru meiri en áðurnefnd 1.100 MW og jafnvel töluvert meiri (ca. 10-20% meiri). Hér má hafa í huga að í skýrslu Kviku banka var gert ráð fyrir aflþörf upp á um 1.450 MW. En þar var vel að merkja líka gert ráð fyrir töluvert meiri nýtingu á strengnum en LV gerir. Með vikmörk í huga og u.þ.b. 65% nýtingu á 1.000 MW sæstreng, má sem sagt ætla að hann myndi kalla á nýjar virkjanaframkvæmdir sem samtals yrðu a.m.k. 1.100 MW og mögulega allt að 20% meira eða nálægt 1.300 MW.
Bæði nýjar virkjanir og stækkun eldri virkjana
Umrætt afl, hvort sem það yrðu 1.100 MW eða nær 1.300 MW, myndi annars vegar verða í formi nýrra virkjana og hins vegar yrði hluta aflsins bætt við í eldri virkjanir. Nýju virkjanirnar yrðu líklega blanda af vatnsaflsvirkjunum, jarðvarmavirkjunum og vindmyllum. Að mati LV yrðu um 270 MW í nýjum hefðbundnum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum og um 449 MW yrðu vindmyllur ásamt óhefðbundnum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum (litlar rennslisvirkjanir og lághitavirkjanir). Loks yrði um 401 MW bætt við núverandi vatnsaflsvirkjanir. Samkvæmt LV yrði aflaukningin í eldri virkjunum mest í Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsstöð), en afgangur aflaukningarinnar myndi dreifast á nokkrar virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.
Hvaðan eiga þessar 5.800 GWst að koma?
Þær upplýsingar sem birst hafa opinberlega um hvernig unnt sé að uppfylla raforkuþörf sæstrengs hafa verið mjög grófar. Í skýrslunni sem Kvika banki vann fyrir stjórnvöld kom fram að hátt hlutfall af raforkunni myndi koma frá nýjum jarðvarmavirkjunum og vindmyllugörðum, en mjög takmarkaður hluti frá nýjum vatnsaflsvirkjunum. Í sviðsmynd LV hefur aftur á móti ekki verið greint þarna á milli nýrra jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana. Við vitum því ekki hvaða virkjanir það nákvæmlega eru sem LV horfir til vegna sæstrengs. En hin grófa sviðsmynd LV er að eftirfarandi framkvæmdir geti skilað umræddum 5.800 GWst fyrir sæstreng (tölur skv. sviðsmynd greinarhöfundar eru í sviga):
- 2.100 GWst (2.145) komi frá nýjum hefðbundnum virkjunum.
- 1.800 GWst (1.759) komi frá nýjum óhefðbundnum virkjunum.
- 1.900 GWst (1.900) komi með nýjum hverflum í núverandi virkjunum og bættri nýtingu miðlunarlóna.
Á grafinu hér til hliðar má sjá sviðsmynd greinarhöfundar um hvernig uppfylla mætti þessa auknu raforkuþörf. Þegar miðað er við að sæsrengur yrði kominn í rekstur 2025 er rétt að minnast þess að skv. Orkuspárnefnd er áætlað að fram til þess tíma muni raforkueftirspurn hér innanlands aukast um u.þ.b. 1.700 GWst frá því sem var 2017. Samtals þyrfti því að auka raforkuframboð á Íslandi um u.þ.b. 7.500 GWst til að uppfylla samanlagða innlenda raforkuþörf 2025 og raforkuþörf sæstrengs. Í sviðsmynd greinarhöfundar er gerð grein fyrir þessari auknu innlendu orkuþörf í lið A í töflunni (sbr. einnig fyrri skrif um þetta). Eftirfarandi er nánari útlistun á því hvernig orkuþörfinni yrði mætt:
Aukin innlend eftirspurn: Um 1.700 GWst (A)
Á töflunni eru fyrst (merkt A) tilgreindar virkjanir sem geta uppfyllt vöxtinn í raforkuþörf hér innanlands fram á 2025. Þær virkjanir eru, auk nýju Búrfellsvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar sem nú er verið að ljúka við, sambland af litlum vatnsaflsvirkjunum (ca. þrjár talsins með afl sem næmi um 25 MW), vindmyllum (ca. 100 MW) og ein jarðvarmavirkjun (ca. 50 MW) sem gæti t.a.m. verið virkjun HS Orku í Eldvörpum.
Þessar virkjanir myndu vel að merkja geta skilað nokkru meiri framleiðslu en þeim 1.733 GWst sem Orkuspárnefnd miðar við, eða alls um 2.000 GWst. Sá munur er eðlilegur í því ljósi að bæði litlu vatnsaflsvirkjanirnar og vindmyllugarðar eru líklegir til að skila nokkuð sveiflukenndri framleiðslu. Það skal áréttað að auðvitað má hugsa sér ýmsa aðra möguleika um það hvernig mæta skal aukinni raforkuþörf hér innanlands.
Nýjar hefðbundnar virkjanir fyrir sæstreng: Um 2.100 GWst (B)
Þær nýju hefðbundnu virkjanir sem myndu skila um 2.100 GWst fyrir sæstrenginn (merkt B í töflunni hér að ofan) gætu orðið fimm virkjanir; Hvammsvirkjun (ca. 93 MW) og Holtavirkjun (ca. 57 MW) í Þjórsá, Blönduveituvirkjun (ca. 30 MW) og nýjar jarðvarmavirkjanir í Kröflu (ca. 45 MW) og Bjarnarflagi (ca. 45 MW). Samanlagt má ætla að þessar fimm virkjanir myndu framleiða um 2.145 GWst árlega, þ.e. nálægt þeim 2.100 GWst sem LV álítur að koma þurfi frá nýjum hefðbundnum virkjunum. Og þetta yrðu þá mögulega fimm nýjar hefðbundnar virkjanir sem beinlínis yrðu reistar vegna sæstrengsins.
Nýjar óhefðbundnar virkjanir fyrir sæstreng: Um 1.800 GWst (D)
Þá er komið að s.k. óhefðbundnum virkjunum (sbr. liður D í töflunni að ofan). Í áætlunum sínum gerir LV ráð fyrir að megnið af óhefðbundnum virkjunum fyrir sæstreng verði í formi vindmyllugarða. Að auki gerir fyrirtækið ráð fyrir að unnt verði að reisa litlar vatnsaflsvirkjanir og lághitavirkjanir til að mæta raforkuþörf sæstrengsins.
Sviðsmynd greinarhöfundar hér fylgir þessum áætlunum LV í meginatriðum, en gerir þó ráð fyrir að þessar óhefðbundnu virkjanir myndu útvega örlítið minni raforku (þ.e. 1.759 GWst, en skv. áætlunum LV eiga þær að útvega um 1.800 GWst). Munurinn þarna er svo lítill að hann er eflaust innan óvissumarka LV og sviðsmyndirnar því sambærilegar.
Nýir hverflar og bætt nýting vegna sæstrengs: 1.900 GWst (C)
Afgangurinn sem vantar til að uppfylla raforkuþörf sæstrengsins fæst með bættri nýtingu núverandi vatnsaflskerfis (merkt C í töflunni að ofan). Þetta gerist annars vegar með því að stýra miðlun með öðrum hætti en gert er í hinu núverandi aflokaða íslenska raforkukerfi. Vegna þess að kerfið er nú einangrað og LV þarf að tryggja mjög áreiðanlega raforkuafhendingu til stóriðjunnar, eru stóru íslensku vatnsaflsvirkjanirnar í reynd hannaðar þannig að miðlunarlónin eru nokkru stærri en væri ef LV hefði haft aðgang að t.d. evrópsku varafli um sæstreng. M.ö.o. þá gæfi sæstrengurinn færi á að ná meiri raforku út úr hinu stóra kerfi miðlunarlóna hér.
Um leið gæfist tækifæri til að minnka mjög það vatn sem nú flæðir stundum á yfirfalli þegar miðlunarlón hér fyllast. Til að nýta þetta allt sem best myndi LV bæta hverflum (túrbínum) í bæði Fljótsdalsstöð og í nokkrar núverandi virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Samtals áætlar LV að sú aflaukning gæti orðið um 400 MW (sem yrðu vel að merkja miklar framkvæmdir). Og LV áætlar að heildaraukning framleiðslunnar vegna bættrar nýtingar núverandi vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins (þ.m.t. nýir hverflar) gæti að meðaltali numið um 1.900 GWst á ári.
Listi yfir mögulegar nýjar virkjanir
Hér í lokin eru teknar saman þær nýju virkjanir sem gera má ráð fyrir að þyrfti að ráðast í fram til 2025 ef áform um sæstrenginn ganga eftir (sjá töfluna hér að neðan). Þar eru umræddar virkjanir flokkaðar í þrennt; vatnsorku, jarðvarmaorku og vindorku.
Í sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að samanlagt nýtt afl vegna sæstrengsins yrði um 1.120 MW. Að auki þarf, eins og áður hefur komið fram, að virkja töluvert vegna vaxandi innlendrar orkueftirspurnar. Hér er gert ráð fyrir að sú eftirspurn muni koma frá blönduðum tegundum virkjana, sem nemi alls 365 MW (þar eru bæði Búrfellsvirkjun hin nýja og Þeistareykjavirkjun meðtaldar). Nýtt afl til að mæta bæði aukinni innlendri eftirspurn og eftirspurn sæstrengs, skv. þessari sviðsmynd, er samtals 1.485 MW.
Í þessu ljósi er athyglisvert að breska fyrirtækið Atlantic SuperConnection virðist gera ráð fyrir að sæstrengur kunni að kalla á fáar og jafnvel enga nýja virkjun á Íslandi. Það sjónarmið breska fyrirtækisins stenst ekki m.v. 1.000 MW kapal sem nýta á að mestu til útflutnings frá Íslandi. Og varla stendur til að sæstrengurinn eigi í miklum mæli að verða nýttur til að flytja raforku til Íslands.
Ýmsar sviðsmyndir mögulegar
Að sjálfsögðu má setja upp alls konar sviðsmyndir um það hvaða virkjanir og hvaða stækkanir núverandi virkjana myndu útvega nauðsynlega orku fyrir sæstreng. Hér mætti líka nefna að miðað við umræðuna undanfarin misseri taka sjálfsagt einhverjir lesendur eftir því að fyrirhuguð Hvalárvirkjun er ekki á þessum lista. Eins og áður segir má hugsa sér ýmsa samsetningu virkjana, en sviðsmyndin hér endurspeglar efa greinarhöfundar um að Hvalárvirkjun rísi í bráð vegna mikils kostnaðar við bæði virkjun og flutningskerfi.
Í reynd er ekki hægt að sjá fyrir hver hin raunverulega þróun nákvæmlega verður. En hér hefur sem sagt ein sviðsmynd verið kynnt. Og kannski ein sú raunhæfasta (að því gefnu að af sæstrengnum verði). Eins og áður sagði er þar gert ráð fyrir að sæstrengurinn myndi kalla á nýtt afl sem samtals nemi um 1.120 MW, en að mögulega myndi nýtt afl vegna kapalsins verða aðeins meira eða nær 1.300 MW. Að auki þarf svo að gera ráð fyrir nýju afi til að mæta aukinni innlendri raforkunotkun.