18.5.2019 | 09:08
Frá Reins til Rivian
Rafmagnsbílum fer fjölgandi og verða sífellt betri. Í síðustu grein hér var rakið hvernig Noregur er í fararbroddi rafbílavæðingarinnar. Kannski munum við brátt sjá svipaða þróun hér á Íslandi. Og kannski getum við meira að segja bráðum rennt inn á hálendið - á rafmagnsjeppa!
Biðin eftir alvöru rafmagnsjeppa
Sá sem þetta skrifar hefur litið rafbíla hornauga. Einkum vegna þess að drægi þeirra er ekki enn orðin nóg. þ.e. ekki ennþá unnt að aka mjög langt án þess að endurhlaða. En líka vegna þess að enn eru ekki komnir fram raunverulegir hagkvæmir rafmagnsjeppar. Það kann þó að vera að breytast. Og þar er kannski áhugaverðastur bíll sem kallast Rivian. Þetta er ansið laglegur jeppi, sem á að geta farið um 600 km á einni hleðslu.
Flottur rafmagnsjeppi dregur að sér fjárfesta
Það er athyglisvert að nýverið setti Ford 500 milljónir dollara í þróun Rivian. Og örfáum mánuðum fyrr fjárfesti Amazon fyrir 700 milljónir dollara í Rivian. Það eru sem sagt margir öflugir að veðja á Rivian.
Rivian jeppinn er hugarsmíð ungs verkfræðings,Robert J. Scaringe, sem hefur nú unnið að undirbúningi Rivian í heilan áratug. Og nú virðist sem draumurinn sé loksins að verða að veruleika. Fyrsti Rivian jeppinn á að verða afgreiddur til kaupanda á næsta ári (2020).
Rivian minnir á gamla góða græna Reinsinn
Greinarhöfundur er talsvert spenntur fyrir þessum Rivian. Ekki bara af því þarna er um að ræða flottan bíl og mikilvæg tímamót í bifreiðaframleiðslu. Það er nefnilega svo að þessi græni Rivian minnir töluvert á gamla góða Reinsinn. Sem var árgerð 1971 og tryggur fararskjóti fjölskyldunnar í yfir aldarfjórðung og meira en 400 þúsund km.
Range Rover var sannkallaður tímamótajeppi fyrir næstum fimmtíu árum. Og kannski er nú loks að koma að því að fallegur og stílhreinn rafmagnsjeppi líti dagsins ljós. En mun hann endast jafn vel og fyrsta týpan af Range Rover?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.