24.7.2018 | 14:04
Vindorkan orðin hagkvæmust
Fyrirtæki sem nota mikið rafmagn leggja eðlilega mikið upp úr því að leita eftir ódýrustu raforkunni. Um leið skiptir það þau miklu ef unnt er að tryggja að rafmagnsverðið rjúki ekki skyndilega upp. Þess vegna hafa slík fyrirtæki löngum sóst eftir langtímasamningum með föstu orkuverði eða að verðið sé tengt þeirra eigin afurðaverði. Þannig draga þau mjög úr áhættu sinni. En nú eru að verða athyglisverðar breytingar í þess háttar viðskiptum, þar sem vindorkan er að leysa vatnsaflið af hólmi sem hagkvæmasti kosturinn fyrir stóra raforkunotendur.
Frá vatnsafli til vindorku
Sögulega hafa samningar af þessu tagi, þ.e. um hagstætt raforkuverð til langs tíma, einkum verið við fyrirtæki sem reka stórar vatnsaflsvirkjanir. Slíkar virkjanir hafa boðið upp á það að selja raforku á hvað lægstu verði og það til langs tíma. Í dag er staðan aftur á móti víða orðin sú að vatnsaflsfyrirtæki sjá sér fremur hag í því að selja framleiðslu sína inn á almennan markað. Þess í stað eru það vindorkufyrirtæki sem nú bjóða oft hagkvæmustu samningana fyrir stórnotendur. Þetta er algerlega nýr raunveruleiki og mun vafalítið hafa veruleg áhrif á raforkuviðskipti víða um heim á komandi árum.
Norræn fyrirtæki í fararbroddi
Það eru sem sagt nýir vindmyllugarðar sem nú bjóða hagkvæmustu langtímasamningana í raforkuviðskiptum. Þetta á einkum við í Evrópu en þekkist þó víðar um heiminn. Þarna hafa norræn orkufyrirtæki verið brautryðjendur og einnig hafa svona samningar orðið algengari í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum.
Lengsti vindorkusamningurinn til þessa er til 29 ára
Bestu norrænu dæmin um svona langtímasamninga vindorkufyrirtækja og stórnotenda um raforkuviðskipti er raforkusala til álfyrirtækja í Noregi. Þar hafa bæði Alcoa og Norsk Hydro verið að gera samninga um kaup á miklu orkumagni frá vindmyllugörðum í Noregi og Svíþjóð. Nýjasti samningurinn af þessu tagi er jafnframt sá sem var að slá met í gildistíma. Þar samdi Norsk Hydro um kaup á nálægt 800 GWst árlega frá 235 MW vindmyllugarði í Svíþjóð.
Það er til marks um umfang þessa samnings að hann samsvarar um 75% af allri raforkunotkun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Og þessi nýjasti stóri vindorkusamningur í Skandinavíu er vel að merkja í takti við ýmsa aðra svipaða samninga sem gerðir hafa verið undanfarin misseri, nema hvað samningstíminn þarna er óvenju langur eða 29 ár. Talið er að þetta sé lengsti samningur um kaup á vindorku sem gerður hefur verið í heiminum til þessa.
Þróunin á Íslandi kann að verða svipuð
Þessi langi samningstími er mjög táknrænn fyrir það að tæknin í vindorkunni er ekki aðeins að verða sífellt betri og ódýrari, heldur eru vindmyllurnar líka að verða einfaldari í viðhaldi. Nú eru vindmyllugarðar sem sagt álitnir bæði hagkvæmir og lítt áhættusamir í rekstri.
Til að unnt sé að nýta ódýra vindorku í miklum mæli þurfa að vera fyrir hendi raforkuver sem geta jafnað út framleiðslusveiflur vindmyllugarða. Í sumum löndum eru það einkum gasorkuver sem eru í því hlutverki, en í Noregi og Svíþjóð eru það stóru vatnsaflsfyrirtækin sem sjá sér hag í því að sinna þessum hluta raforkumarkaðarins.
Með svipuðum hætti og hjá norrænu frændum okkar er líklegt að stóra íslenska vatnsaflsfyrirtækið, Landsvirkjun, sjái hag í svona viðskiptum. Það gæti bæði gerst með því að fyrirtækið reisi sína eigin vindmyllugarða og komi að samningum við önnur fyrirtæki um vindorkuviðskipti og/eða verði í hlutverki varafls. Þarna eru ýmsir áhugaverðir möguleikar.
Vegna einangrunar íslenska raforkumarkaðarins er sennilegt að hér verði þróunin ekki alveg með sama hætti og í Skandínavíu. En það er næsta víst að lækkandi kostnaður vindorkunnar muni óhjákvæmilega hafa áhrif á orkumarkaðinn hér, rétt eins og annars staðar.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:20 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Ketill
Hvað þyrfti margar vindmillur til að knýja stóriðjuna á Grundartanga?
Og hvað tæju þær vindmillur mikið landsvæði undir sig?
Gunnar Heiðarsson, 25.7.2018 kl. 07:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.