21.5.2018 | 10:10
Bætt nýting orkukerfisins með betra flutningskerfi
Verulegt átak þarf til að bæta flutning og dreifingu á raforku um landið og Landsnet þarf að byggja upp traust gagnvart því að velja réttu leiðina fyrir nýjar háspennulínur. Þetta er álit forstjóra Landsvirkjunar (LV) og kom nýverið fram í viðtali á morgunútvarpi RÚV, en LV er einmitt langstærsti eigandi Landsnets. Við sama tækifæri sagði forstjóri LV að leita þurfi leiða til að setja háspennulínur í meira mæli í jörð og veita Landsneti aukið kostnaðarsvigrúm. Enda eru jarðstrengir oftast dýrari kostur en loftlínur.
Þessi áhersla LV á bætt flutningskerfi rafmagns á Íslandi kemur ekki á óvart. Með bættu flutningskerfi myndi nýting raforkukerfisins verða betri og kerfið skila meiri hagkvæmni. Þessari auknu hagkvæmni má skipta í tvo meginflokka:
- Annars vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að gera kleift að koma meiru af raforku frá núverandi virkjunum til notenda. Besta dæmið um þetta snýr sennilega að hinni nýju Þeistareykjavirkjun. Þar hyggst kísilver PCC á Bakka við Húsavík nota um 60 MW af heildarafli virkjunarinnar sem er alls 90 MW. Þarna verður talsvert afl sem ekki mun nýtast miðað við núverandi flutningsgetu. Núverandi háspennulínur frá Þeistareykjavirkjun myndu t.a.m. ekki ráða við að flytja umtalsvert aukið magn raforku til álversins á Reyðarfirði, loðnuverksmiðja á Austurlandi né til Eyjafjarðarsvæðisins.
- Hins vegar stuðlar bætt flutningskerfi að því að unnt yrði að nýta hagkvæmustu orkukostina við byggingu nýrra virkjana. Þar má t.d. nefna möguleikann á að byggja s.k. Blönduveitu. Með henni væri unnt að auka raforkuframleiðsluna í Blöndu verulega með hagkvæmum hætti. En eins og staðan er núna væri ekki unnt að koma raforkunni þaðan til þeirra svæða þar sem eftirspurnin er. Enn er óvíst hvenær Landsnet nær að mæta flutningsþörf þessarar hagkvæmu virkjunarframkvæmdar.
Einnig þarf að huga að styrkingu flutningskerfisins til að geta nýtt þann orkukost sem nú er að verða ódýrastur. Sem er vindorkan. Þar fer kostnaðurinn jafnt og þétt lækkandi og er nú svo komið að raforkuframleiðsla af því tagi (í samspili við núverandi vatnsaflskerfi) gæti mætt aukinni raforkuþörf á Íslandi með afar hagkvæmum hætti. Fyrir vikið má vænta þess að Landsnet sé farið að skoða hvar líklegast sé að stórir vindmyllugarðar komi til með rísa hér.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.