Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
31.10.2022 | 10:18
Skákin er komin heim!
Fyrir rúmu ári síðan eða svo fór ég að hafa áhyggjur af því að hér yrði ekki með veglegum hætti þess minnst þegar hálf öld væri liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák í Reykjavík; sjálfu einvígi allra tíma. Því lítið sem ekkert heyrðist af slíkum áformum. Skemmst er frá að segja að þær áhyggjur reyndust óþarfar, því þrátt fyrir kóf og kostnað tókst Skáksambandi Íslands að koma hér á skákviðburði á afmælisárinu, sem varla hefði geta orðið betri. Þ.e. Heimsmeistaramótinu í slembiskák.
Mér þótti þetta mót heppnast frábærlega vel. Þátttakendurnir voru margir af bestu skákmönnum heims í dag og margir þeirra eru miklir karakterar. Það var dásamleg upplifun að vera á skákstaðnum; horfa á og vera í mikilli nálægð við meistarana, fylgjast með skákunum og spjalla við Sæma Rokk og aðra áhorfendur í hléum. Síðast en ekki síst voru lýsingar þeirra Björns Þorfinnssonar og Ingvars Þórs Jóhannessonar frábærlega skemmtilegar, skýrar og vel heppnaðar. Til hamingju með þennan vel heppnaða viðburð Skáksamband Íslands og öll þau sem að þessu stóðu.
Einu vonbrigði mín með Slembiskákmótið voru þau að ég vildi sjá aðra menn í úrslitum! Nefnilega þá Abdusattorov og Carlsen. Annar þeirra reyndist þó of reynslulítill enn, en á framtíðina fyrir sér. Og hinn, sjálfur heimsmeistarinn og ofurskákmennið, tefldi á köflum alls ekki vel. Þ.a. þegar upp er staðið var sennilega sanngjarnt hverjir kepptu til úrslita. Og rétt eins og 1972 vann sá bandaríski þann rússneska. Nakamura er vel að sigrinum kominn, þó svo ég sé litill aðdáandi þess að láta s.k. Armageddonskák ráða úrslitum á alvörumótum.
Hér í lokin má svo nefna að einhver skemmtilegasta skákmynd allra tíma var tekin nú á Slembiskákmótinu í Reykjavík. Þar sem Carlsen og Nepomniachtchi eru að byrja fyrstu skák sína í undanúrslitunum. Myndasmiðurinn hygg ég að sé Lennart Ootes og vona ég að ég sé ekki að brjóta gegn höfundarréttindum með því að láta þessa frábæru mynd fylgja hér. Og sama er að segja um myndasamsetninguna hér efst, en neðri myndin þar frá úrslitum Slembiskákmótsins er tekin af ljósmyndaranum David Lada.
Það kom mér reyndar á óvart hversu mikið frelsi ljósmyndarar höfðu til að spígspora um salinn og mynda keppendurna að tafli. Og nokkuð augljóst að þetta hefði Fischer aldrei heimilað! Því miður lifði hann ekki til að sjá þetta vel heppnaða afmæli Einvígis allra tíma og líklega er Spassky orðinn of hrumur til að ferðast. En minningin um heimsviðburðinn 1972 og þá báða lifir svo sannarlega.
Slembiskákin, sem að verulegu leiti er uppfinning Fischers, mun alveg örugglega eiga eftir að blómstra og verða enn vinsælli, enda mjög skemmtileg viðbót við annars fullkomna list. Og vonandi verður þetta mót einungis hið fyrsta í endurkomu Íslands sem meiriháttar skáklands. Næsta raunhæfa skref gæti verið að gera Reykjavíkurmótin ennþá flottari og sterkari.
12.8.2020 | 08:40
Rio Tinto kvartar undan gagnkvæmum ávinningi
Álrisinn Rio Tinto álítur að taka þurfi á misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu sinni á íslenskum raforkumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu um kvörtun fyrirtækisins til Samkeppniseftirlitsins.
Óskin um að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar
Í umræddri tilkynningu Rio Tinto endurómar sá tónn sem Samtök iðnaðarins hafa slegið um nokkurt skeið, þess efnis að Landsvirkjun sé með of stóra hlutdeild á raforkumarkaðnum og jafnvel beri að skipta orkufyrirtækinu upp. M.ö.o. þá miðar kvörtun Rio Tinto augljóslega að því að þrengja að tækifærum Landsvirkjunar til að hafa áhrif á raforkuverð til stóriðju. Og vafalítið myndi Rio Tinto helst vilja að Landsvirkjun yrði skipt upp, þ.a. samningsstaða orkufyrirtækisins myndi veikast frá því sem verið hefur.
Eiga álverin rétt á einu og sama botnorkuverðinu?
Fréttatilkynning Rio Tinto vegna kvörtunarinnar til Samkeppniseftirlitsins er mjög almennt orðuð og einkennist af órökstuddum fullyrðingum. Þar er enga tilvísun að finna til viðeigandi lagaákvæða sem álfyrirtækið virðist álíta að Landsvirkjun brjóti gegn. Fyrir utanaðkomandi er því erfitt að meta hvernig Samkeppniseftirlitið mun taka á kvörtuninni. En miðað við fréttatilkynninguna er einkum kvartað vegna eftirfarandi tveggja meginatriða:
- Að verðlagning Landsvirkjunar á raforku feli í sér óréttlætanlega mismunun og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Álverið í Straumsvík (ISAL) greiði umtalsvert hærra raforkuverð en aðrir álframleiðendur á Íslandi og þar með skaði Landsvirkjun samkeppnisstöðu ISAL. Af þessu virðist sem Rio Tinto álíti að öll álverin þrjú, sem hér starfa, eigi að greiða Landsvirkjun sama raforkuverð. Og þá líklega jafnt því verði sem lægst er hverju sinni (sem þessa dagana er raforkuverðið til Norðuráls, vegna verðtengingar við Nord Pool og lágt markaðsverð þar nú um stundir).
- Að langtímaorkusamningar bindi viðskiptavini Landsvirkjunar yfir langt tímabil, sem komi í veg fyrir að aðrir raforkuframleiðendur annað hvort komist inn á markaðinn eða auki framleiðslu sína. Af þessu virðist sem Rio Tinto álíti að með því að gera langtímasamninga við álver (og aðra stórnotendur) brjóti Landsvirkjun gegn öðrum raforkuframleiðendum á Íslandi og að langtímasamningar Landsvirkjunar séu þess eðlis að þeir séu andstæðir samkeppnislögum.
Loks kemur fram í fréttatilkynningunni um kvörtunina að Rio Tinto geti ekki haldið áfram að framleiða ál á Íslandi nema verðlagning Landsvirkjunar á raforku verði gegnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf. Ef Landsvirkjun láti ekki af misnotkun sinni eigi ISAL ekki annan kost en að íhuga uppsögn raforkusamningsins og hefja undirbúning að lokun álversins.
Hvað gerir Samkeppniseftirlitið?
Greinarhöfundur bíður þess auðvitað með nokkurri eftirvæntingu að sjá hvernig Samkeppniseftirlitið muni taka á kvörtun Rio Tinto. Fyrir allt áhugafólk um íslenskan og evrópskan samkeppnisrétt hlýtur þessi kvörtun að vera athyglisverð.
Ef Samkeppniseftirlitið myndi fallast á öll þau meginsjónarmið Rio Tinto sem nefnd eru hér að ofan yrðu sennilega allir raforkumarkaðir innan EES og ESB í nokkru uppnámi. Því þar tíðkast jú ýmiskonar samningar um raforkukaup til lengri og skemmri tíma, auk þess sem margskonar og mismunandi raforkuverð er í boði bæði til stærri og smærri raforkukaupenda.
Þarna er því líklega á brattan að sækja hjá álrisanum. Þar með er samt kannski ekki útilokað að Samkeppniseftirlitið geri einhverja athugasemd við fyrirkomulagið hér. En þó varla svo að það breyti miklu fyrir rekstur Rio Tinto á álveri ISAL í Straumsvík.
Á gagnkvæmur ávinningur ekki lengur við?
Það er óneitanlega nokkuð óvænt að nú árið 2020 álíti Rio Tinto allt í einu að raforkusamningurinn sem fyrirtækið átti frumkvæði að og gerði við Landsvirkjun árið 2010 (og var breytt árið 2014 að ósk álfyrirtækisins) hafi alls ekki uppfyllt samkeppnislög. Áðurnefnd sjónarmið og kvörtun Rio Tinto verða svo alveg sérstaklega umhugsunarverð þegar horft er til þess hvernig samningnum 2010 og viðbótarsamkomulaginu 2014 var lýst, en þá birti álverið eftirfarandi (leturbreyting er greinarhöfundar):
Í ljósi þessara yfirlýsinga forstjórans í Straumsvík 2010 og 2014 myndi kannski einhver segja að nú sé Rio Tinto að kvarta til Samkeppniseftirlitsins yfir sterkum stoðum álversins og gagnkvæmum umsömdum ávinningi Rio Tinto og Landsvirkjunar. Kvörtunin núna er a.m.k. varla í samræmi við fyrri yfirlýsingar álfyrirtækisins.
Landsvirkjun getur ekki tekið alla áhættuna
Rio Tinto er vissulega nokkur vorkunn, því það er augljóst að væntingar fyrirtækisins frá 2010 og 2014 um þróun álverðs hafa ekki gengið eftir. En þar er engum um að kenna nema þeim stjórnendum álfyrirtækisins sem sáu um og samþykktu samningana við Landsvirkjun 2010 og 2014, þegar þeir hinir sömu hefðu kannski átt að vera hófsamari í framtíðarsýn sinni um álverð.
Ef að álverð hefði rokið upp hefði það vel að merkja verið Landsvirkjun sem sæti nú svekkt með að hafa ekki samið betur. En þarna eru báðir aðilarnir í þeirri stöðu að þurfa að efna samningana og það hljóta bæði Landsvirkjun og Rio Tinto að gera.
Það blasir líka við að ef lækka á raforkuverðið til Rio Tinto vegna breyttra forsenda í formi lágs álverðs, má með sama hætti segja að orkuverð Landsvirkjunar til Alcoa, þ.e. Fjarðaáls, ætti að hækka vegna sömu forsendubreytinga. Þarna geta því komið upp ýmis konar sanngirnissjónarmið. Eftir stendur að samningar skulu standa og það er líka augljóst að gæta verður að sanngirni gagnvart Landsvirkjun ef uppi er forsendubrestur vegna lækkunar álverðs.
Straumsvík segist svikin um afslátt
Vert er einnig að nefna þann óvenjulega atburð nú síðast, þegar Rio Tinto og/eða ISAL gerði ágreining um það hvort Landsvirkjun hafi í reynd veitt álfyrirtækinu þann tímabundna afslátt af raforkuverði sem orkufyrirtækið ákvað einhliða að skyldi gilda frá byrjun maí til loka október á þessu ár (2020). Það væri auðvitað mjög furðulegt ef Landsvirkjun stæði ekki við yfirlýsingu sína um tímabundinn afslátt. Enda hefur orkufyrirtækið sagt að það sé rangt að Rio Tinto hafi ekki fengið afsláttinn. Hvorki ISAL né Rio Tinto hafa neitað þeirri fullyrðingu Landsvirkjunar, þ.a. það lítur út fyrir að þarna hafi álfyrirtækið beinlínis farið með rangt mál.
Er stóriðja á Íslandi samkeppnishæf eða ekki?
Áhugavert verður að sjá hvernig málið þróast þegar Franhaufer mun loks skila skýrslu sinni um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Það er sannarlega enginn lognmolla þessa dagana í íslenska raforkugeiranum. Enda er hin endurnýjanlega, hagkvæma og örugga íslenska orka mjög eftirsóknarverð. Vissulega er samt offramleiðsla af áli í Kína að valda vandræðum. En það er því miður eitthvað sem hvorki Landsvirkjun né Ísland hafa á sínu valdi.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2020 | 11:05
Tekist á um 200 milljarða króna i Straumsvík
Risafyrirtækið Rio Tinto segist íhuga stöðu og jafnvel lokun álversins í Straumsvík. Vegna þess að álverið sé ekki samkeppnishæft og verði það ekki nema álverð hækki eða raforkuverð álversins lækki. Þar sem raforkusamningur álfyrirtækisins og Landsvirkjunar kveður á um háa kaupskyldu álversins á rafmagni og tilteknar ábyrgðir Rio Tinto þar að lútandi, eru þó sennilega meiri líkur en minni á því að álverið haldi áfram starfsemi. Þarna er þó ekkert öruggt.
Hvort sem álverið í Straumsvík er að fara að loka eður ei, er rétt að hafa í huga að offramboð af áli í heiminum er staðreynd. Og það offramboð virðist langvarandi. Offramboðið núna má fyrst og fremst rekja til Kína, þar sem álver hafa verið reist hraðar en sem nemur vexti í álnotkun. Ein afleiðing þessa offramboðs er að mörgum álverum utan Kína hefur verið lokað, svo sem í Bandaríkjunum. Enn er samt fátt sem bendir til þess að álverð muni hækka á næstunni. Þvert á móti virðist líklegra að offramboð af áli í Kína haldi enn áfram að aukast.
Ísland er stærsti álframleiðandi heims miðað við höfðatölu og vegna offjárfestinga í álverum í Kína er orðið mun áhættusamara en áður að reiða sig á álver sem orkukaupendur. Það er alls ekki öruggt að stærstu orkufyrirtækin í eigu okkar Íslendinga, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, geti áfram um langa framtíð selt stærstan hluta raforkuframleiðslu sinnar til álvera.
Samkvæmt orkusamningi Landsvirkjunar við álver Rio Tinto í Straumsvík ber orkufyrirtækinu að útvega álverinu raforku allt fram til ársins 2036. Raforkan sem fer til Straumsvíkur er á bilinu 20-25% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Fyrir fáeinum árum námu tekjurnar af þessum viðskiptum Landsvirkjunar og álfyrirtækisins um þriðjungi raforkutekna Landsvirkjunar. Í kjölfar tjóns í einum kerskála álversins um mitt síðasta ár (2019) minnkuðu viðskiptin og nema nú um fjórðungi allra tekna orkufyrirtækisins af raforkusölu. Sbr. taflan hér til hliðar.
Þarna er um mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir bæði Landsvirkjun og Rio Tinto. Verðmæti raforkusamnings fyrirtækjanna, sem er að uppistöðu frá 2010, nemur um 250-300 milljörðum króna að núvirði, þ.e. samanlagðar tekjur Landsvirkjunar og Landsnets af samningnum allan samningstímann. Þar af eiga um 150-200 milljarðar króna eftir að greiðast vegna samningstímans fram til 2036. Og það vel að merkja allt í beinhörðum erlendum gjaldeyri!
Álver nota gríðarlega mikið af raforku; eru s.k. stórnotendur eða stóriðja. Ef álver dregur verulega úr framleiðslu sinni eða lokar tekur langan tíma að t.a.m. nægjanlega mörg gagnaver rísi til að geta leyst álver af hólmi í raforkunotkun. Og meira að segja nýtt kísilver dugar þar skammt. Langvarandi offramboð af áli og sú staðreynd að stórfyrirtækið Rio Tinto skuli nú alvarlega íhuga lokun álversins í Stramsvík ætti að sýna okkur Íslendingum öllum hversu mikilvægt það er að Landsvirkjun eigi sem greiðastan aðgang að góðum og fjölbreyttum hópi viðskiptavina.
Í reynd er fyrst og fremst einn möguleiki sem gæti skapað ámóta eftirspurn eftir raforku Landsvirkjunar eins og álver gerir. Sem er sala á grænni orku um sæstreng til Evrópu. Það að Rio Tinto gefur nú í skyn að fyrirtækið hyggist mögulega gefast upp gagnvart offramboði á kínversu áli er mikilvæg áminning. Áminning um að hugað sé að nýjum stórum kaupanda að hluta þeirrar miklu endurnýjanlegu orku sem opinberu orkufyrirtækin, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, framleiða í virkjunum sínum.
Mögulega sér Rio Tinto að sér og tryggir farsæla starfsemi álversins í Straumsvík enn um langa framtíð. En í ljósi þess að kínverskur álútflutningur er líklegur til að halda áfram að vaxa, kann að vera að álverinu verði lokað, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Það væri því skynsamlegt að íslensk stjórnvöld leggi aukinn kraft í að kanna sæstrengsverkefnið. Þetta mál snýst um afar mikilvæga viðskiptahagsmuni okkar sem þjóðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2020 | 19:58
Ísland er land grænnar raforku
Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjallað um upprunavottorð grænnar raforku. Af umræðu í þættinum og eftir þáttinn er ljóst að margir eiga í nokkrum vandræðum með að skilja hvað felst í slíkum upprunavottorðum. Sem kannski er ekki skrýtið, því hagsmunaaðilum sem vilja fá þess konar vottorð frítt hefur tekist nokkuð vel að rugla fólk í ríminu um hvað vottorðin merkja.
Einfaldast er að lýsa upprunavottorði vegna grænnar raforku svo að með slíku vottorði er staðfest að tiltekin orkueining hefur verið framleidd með endurnýjanlegum hætti (svo sem fyrir tilverknað vatnafls, vindafls, jarðgufu eða sólar). Það er orkuframleiðandinn sem fær heimild til útgáfu slíks vottorðs. Og sá sem kaupir vottorðið er raforkunotandi sem vill styðja við endurnýjanlega raforkuframleiðslu og um leið fá tækifæri til að kynna þann stuðning sinn í samræmi við reglur þessarar evrópsku samvinnu (svipað kerfi má líka finna í löndum utan Evrópu).
Hvaðan nákvæmlega orkueiningin kemur, sem kaupandi vottorðsins notar, er ekki aðalatriði. Heldur snýst þetta kerfi um það að orkunotandinn hefur með kaupum á viðkomandi upprunavottorði stutt við framleiðslu á sama magni af grænni orku. Og raforkuframleiðandinn má auðvitað ekki selja upprunavottorð vegna þessarar tilteknu orkueiningar á ný, enda væri hann þá að tvíselja upprunavottorðið.
Umrætt kerfi er hluti af samstarfi Evrópuríkja til að sporna gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Í heild stuðlar kerfið að því að græn raforkuframleiðsla verður samkeppnishæfari en ella og því líkleg til að aukast meira eða hraðar en ella. Hversu áhrifamikið eða gott þetta kerfi er, er samt umdeilanlegt, rétt eins og á við um mörg önnur mannanna verk. En þetta er eitt atriði af mörgum sem hvetur til framleiðslu á meiri grænni orku og er því til þess fallið að spyrna gegn nýtingu kola eða jarðgass.
Greinarhöfundur lýsti þessu kerfi hér á vef Morgunblaðsins fyrir um hálfum áratug. En skilningur margra á kerfinu virðist lítt betri núna en var þá. Sem er kannski skiljanlegt því reglulega sprettur upp nokkuð þungur áróður gegn þessi kerfi. Sá áróður á einkum rætur að rekja til fyrirtækja sem vilja fá upprunaábyrgðirnar frítt. Þeir hinir sömu reyna að halda því fram að kerfið skerði græna ímynd Íslands. Slíkt er auðvitað fjarstæða. Enda er græn ímynd Íslands í dag a.m.k. jafn sterk og var fyrir fimm árum, þegar líka var mikið fjallað um hættu á skemmdum á ímynd Íslands vegna viðskipta með upprunavottorð.
Jafnvel þó svo þetta kerfi upprunaábyrgða sé til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi, þá er kerfið ekki skylda heldur valkvætt. Íslenskum orkufyrirtækjum ber engin skylda til að taka þátt. En hafa má í huga að sala á upprunavottorðum hefur aukið árlegar tekjur Landsvirkjunar um hundruð milljóna króna. Greiðendurnir, þ.e. kaupendur vottorðanna, eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki, meðan tekjurnar renna fyrst og fremst til fyrirtækis í eigu íslenska ríkisins. Hvort það er jákvætt eða neikvætt fyrir Ísland verður hver að meta fyrir sig.
Slíkar auknar tekjur Landsvirkjunar eru jákvæðar fyrir fyrirtækið, eiganda þess og þar með alla landsmenn. Um leið efla tekjurnar möguleika Landsvirkjunar til að bjóða raforku á lægra verði en ella. M.ö.o. þá verður Landsvirkjun samkeppnishæfari. Það væri nokkuð einkennileg afstaða ef íslenskir stjórnmálamenn vildu skera burt þessar tekjur Landsvirkjunar og þar með minnka arðsemi þessa mikilvæga fyrirtækis Íslendinga.
Ísland er land grænnar raforkuframleiðslu. Og orkuímynd Íslands er sú grænasta í heimi og vekur athygli sem slík. Upprunavottorð og viðskipti með slík vottorð skerða á engan hátt þá ímynd. Þvert á móti er geta íslenskra raforkufyrirtækja til að selja upprunavottorð til marks um hversu raforkuframleiðsla á Íslandi er græn. Í því liggja hrein og klár verðmæti.
Að afhenda stórnotendum raforku eða mengandi iðnaði þau verðmæti án endurgjalds væri undarleg ráðstöfun. Aftur á móti er umhverfisleg gagnsemi upprunavottorða varla afgerandi og því kannski ekki stór skaði ef þetta kerfi yrði lagt af. Munum samt að þetta kerfi styður við græna orku. Þess vegna er varla ástæða til að leggja kerfið af nema sýnt verði fram á óumdeilanleg og raunveruleg neikvæð áhrif þess. Það hefur ekki verið gert.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.
16.10.2019 | 12:10
Spáin orðin að veruleika!
Umtalsverðar breytingar hafa nú orðið á raforkuviðskiptum bæði álvers Norðuráls og járnblendiverksmiðu Elkem á Grundartanga. Þar er um að ræða eðlilega þróun, sem er í samræmi við spár greinarhöfundar
Bæði fyrirtækin, þ.e. Elkem og Norðurál, hafa nú framlengt raforkukaup sín frá Landsvirkjun, en með breyttum verðskilmálum. Gera má ráð fyrir að samtals leiði þetta til þess að tekjur Landsvirkjunar á ársgrundvelli hækki um þó nokkra milljarða króna. Sem er í samræmi við það sem ætla mátti að myndi gerast, þegar gömlu orkusamningarnir rynnu út.
Þetta mun auðvitað draga úr hagnaði stóriðjunnar á Grundartanga og um leið færa arðsemi Landsvirkjunar til eðlilegra horfs. Í stað þess að verksmiðjurnar tvær á Grundartanga greiði næstum helmingi lægra raforkuverð en álverið í Straumsvík gerir, mun stóriðjan á Grundartanga nú greiða svipað orkuverð eins og Straumsvík. Og svipað raforkuverð eins og gerist í helstu samkeppnislöndum.
Hafa ber í huga að reiknireglurnar og viðmiðanirnar að baki þessum tekjum Landsvirkjunar (þ.e. verð pr. MWst) vegna viðskiptanna við Grundartanga eru ekki nákvæmlega þær sömu eins og í samningnum við Straumsvík. En gróflega má sem sagt ætla að nokkurt jafnræði myndist nú í orkuverðinu milli Straumsvíkur annars vegar og Grundartanga hins vegar.
Að vísu er Norðurál enn svolítið sér á báti, því þar er um að ræða áhættumeiri skammtímasamning. Sem líklega er til komin að ósk álfyrirtækisins. Sú áhættutaka kann að verða Norðuráli viss fjötur um fót á næstu árum.
Gróflega áætlað kunna heildartekjur Landsvirkjunar vegna þessara tveggja samninga á Grundartanga að hækka um u.þ.b. 15% á ársgrundvelli. Verðhækkunin á Grundartanga kom ekki til framkvæmda fyrr en nokkuð var liðið á árið (2019). Það verður því ekki fyrr en á næsta ári, þ.e. 2020, að þessi tekjuaukning mun að fullu skila jákvæðum áhrifum á afkomu Landsvirkjunar á ársgrundvelli.
Um leið mun árið 2020 marka viss kaflaskil í rekstrarkostnaði verksmiðjanna á Grundartanga. Þessi þróun er ekki óvænt, því hið breytta raforkuverð er í samræmi við það sem búast mátti við þegar gömlu samningarnir rynnu út. Rétt eins og greinarhöfundur hafði spáð í grein hér á vef Morgunblaðsins strax árið 2015.
Eins og lesendur kunna að muna, þá ollu þau skrif nokkrum titringi hjá tilteknum einstaklingum og fyrirtækjum. Það sem gerst hefur síðan þá er auðvitað til marks um að greinarhöfundur var einfaldlega að benda á staðreyndir og sú þróun sem þar var séð fyrir um þróun raforkuverðs á Íslandi er nú orðin að raunveruleika.
Næsta stóra skrefið til aukinnar arðsemi Landsvirkjunar verður sennilega stigið árið 2028, þegar raforkuverðið í langstærsta raforkusamningi á Íslandi kemur að öllum líkindum til endurskoðunar. Þar er um að ræða samninginn við Alcoa vegna álvers Fjarðaáls.
Þessi þróun á ekki að koma neinum á óvart. Um leið hlýtur það að vera gleðiefni fyrir bæði stóriðjuna á Íslandi og aðra umtalsverða notendur raforku hér, að Ísland hefur enn þá sérstöðu að hér býðst stóriðju og öðrum fyrirtækjum trygg raforka á mjög samkeppnishæfu verði.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2019 | 13:45
Raunveruleikinn á Norðurskauti
Nú stendur yfir ráðstefnan Arctic Circle hér í Reykjavík, þar sem athyglin beinist að Norðurskautssvæðinu. Í umræðunni er mikið rætt um mikilvægi þess að vernda þetta merkilega og einstaka svæði. Staðreyndin er engu að síður sú að nokkrum mikilvægustu löndunum sem eiga lögsögu á svæðinu, er mjög í mun að nýta auðlindir þeirra svæða sem lögsaga þeirra nær til.
Þar er Rússland líklega ákafast. Enda er gríðarlega mikið af jarðgasi og olíu að finna á heimskautasvæðum Rússlands. Og eftir að Donald Trump komst til valda hefur Bandaríkjastjórn einnig snúið frá verndarstefnu gagnvart Alaska og vill opna vernduð svæði í Alaska fyrir olíu- og gasvinnslu.
Enn eitt landið sem á stóra lögsögu á svæðinu er Noregur og stjórnvöld þar í landi virðast áhugasöm um að nálgast þá gríðarlegu olíu sem finna má undir botni Barentshafsins. Vinnsla þar er reyndar komin vel af stað og á vafalítið bara eftir að aukast á komandi árum og áratugum.
Þar að auki þrýsta tvö fjölmennustu lönd heimsins á meiri auðlindanýtingu á Norðurskautssvæðunum, þó þau eigi ekki lögsögu þar. Bæði Kína og Indland tala fyrir aukinni auðlindanýtingu á þessum svæðum.
Það er sennilega sterkur meirihluti meðal þjóða heimsins fyrir því að vernda Norðurskautssvæðin. Og í orði kveðnu tala flestir þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn og t.a.m. forstjórar stórfyrirtækja fyrir slíku. Þetta er valdamikill hópur og því mætti ætla að það sé jafnvel mjög breið sátt um verndun Norðurskautssvæðanna. En þegar kemur að því að samþykkja raunverulegar aðgerðir eða ákvarðanir heima fyrir, virðist allt annað uppi á teningnum.
Nú um stundir er augljóst að stjórnvöld bæði í Rússlandi og Bandaríkjunum eru í reynd mjög viljug til að láta auðlindanýtingu á Norðurslóðum hafa forgang fram yfir verndun. Og þar fá þau pólítískan stuðning frá tveimur fjölmennustu ríkjum heimsins; Kína og Indlandi. Þar að auki eru bæði norsk og grænlensk stjórnvöld áhugasöm um olíuvinnslu svo til hvarvetna í lögsögu sinni.
Af ríkjunum sem eiga lögsöguna á heimskautasvæðunum í norðri er það einungis Kanada sem nú sýnir raunverulegan pólítískan vilja til verndunar þessara svæða. Um leið stunda reyndar Kanadamenn einhverja mest mengandi olíuvinnslu heims í Albertafylki, þar sem olía er unnin með óvenju kostnaðarsömum og lítt hagkvæmum hætti úr olíusandi. Þannig að ekki einu sinni kanadísk stjórnvöld geta talist sýna sterka verndarvitund. Þar að auki er mikill þrýstingur frá áhrifamiklum hagsmunaaðilum þar í landi um að Kanada hverfi frá verndarstefnu sinni.
Þegar horft er til alls þess sem að ofan greinir virðist nokkuð augljóst að ríkin sem liggja að Norðurskautssvæðunum munu ekki grípa til róttækrar verndunar svæðisins. Enda eru sennilega a.m.k. einn og jafnvel tveir áratugir þar til olíueftirspurn í heiminum nær hámarki. Og jafnvel löngu eftir þann tímapunkt verður vafalítið mikil eftirspurn eftir olíuafurðum, jafnvel þó svo rafbílum fjölgi mjög. Hvort heimskautaolían, sem enn hvílir óhreyfð, verður ábatasöm er óljóst. En áhuginn á henni (og jarðgasinu) er tvímælalaust fyrir hendi; ekki síst við strendur Síberíu, í Barentshafi og nyrst í Alaska.
Arctic Circle er mikilvægur vettvangur til að koma skilaboðum á framfæri og styrkja margvísleg tengsl. Ráðstefnuhaldið allt dregur t.a.m. fram margt gott um meintan vilja til verndunar og er öflugur vettvangur fyrir kynningu á ýmsum vísindarannsóknum.
En það er fátt sem bendir til þess að þetta skili aukinni verndun Norðurslóða. Þvert á móti mun auðlindanýting og skipaumferð á Norðurslóðum að öllum líkindum aukast umtalsvert á komandi árum og áratugum. Mikilvægt er að við reynum að sjá fyrir helstu afleiðingarnar af þeirri atburðarás.
4.10.2019 | 17:58
Vatnaskil í raforkuöflun
Um langt skeið hefur raforkuframleiðsla mannkyns byggst á kolvetnisbruna, nýtingu kjarnorku og nýtingu vatnsafls. Kolvetnisbruninn er fyrirferðamestur, þar sem kol og jarðgas ásamt olíu hafa lengi verið og eru enn mikilvægustu orkugjafarnir til rafmagnsframleiðslu.
Flestum er kunnugt um skynsemi þess að auka hlutfall hagkvæmra orkugjafa sem valda minni mengunarhættu og losa minna koldíoxíð út í andrúmsloftið.
Þar hefur einkum vatnsaflið reynst vel, enda eru hér á jörðu fjöldamargir efnahagslega hagkvæmir vatnsaflskostir. Vatnsaflið er þó takmarkað og vegna umhverfisáhrifa viljum við ekki nýta alla vatnsaflskosti. Þar að auki dugar vatnsaflið engan veginn til að mæta sívaxandi raforkuþörf okkar. Jarðvarmi býður enn síður upp á mikla aukningu virkjana. Lengi vel var mjög horft til kjarnorku sem framtíðarorkugjafa. En nýting kjarnorkunnar er um margt flókin og þar að auki hefur þetta reynst dýr tækni.
Það hefur sem sagt reynst erfitt að finna leið til að mæta vaxandi þörf á raforku; leið sem getur bæði talist hagkvæm og hefur lítil neikvæð umhverfisáhrif. Til allrar hamingju hafa fundist tvær mikilvægara lausnir til að mæta vaxandi raforkuþörf. Sem eru sólarorka og vindorka.
Vegna tækniframfara og stærðarhagkvæmni hefur náðst að lækka kostnað mjög verulega í bæði sólarorku- og vindorkutækni á tiltölulega skömmum tíma. Nú er svo komið að nýting vindorku á svæðum með góðar vindaðstæður er ódýrasta tæknin til að auka raforkuframboð. Og sama má segja um sólarorkuna á þeim svæðum þar sem sólgeislun er hvað mest.
Að auki bendir flest til þess að kostnaðurinn í bæði sól og vindi eigi eftir að lækka umtalsvert á næstu árum. Einnig skiptir máli að á síðustu árum hefur náðst afar góður árangur í að byggja stóra og tiltölulega ódýra rafgeyma, sem gerir nýtingu sólar- og vindorku ennþá hagkvæmari enn ella.
Að mati Bloomber New Energy Finance (BNEF) gerir þessi þróun það raunverulega mögulegt að unnt verði að mæta sívaxandi raforkuþörf mannkyns með ódýrri endurnýjanlegri orku, þar sem nýting sólarorku og vindorku verður í lykilhlutverki (líkt og kemur fram á grafinu hér til hliðar).
Sjálfsagt og eðlilegt er að við Íslendingar tökum þátt í þessari þróun og verðum þannig með í að draga úr þörf mannkyns á sívaxandi kolvetnisbruna til raforkuframleiðslu. Sá siðferðislegi drifkraftur er þó ekki eina ástæðan fyrir því að Ísland taki þátt í þessari þróun. Það er nefnilega svo að vindaðstæður á Íslandi eru með hagfelldasta móti til að framleiða raforku. Nýting íslenskrar vindorku veitir því óvenju góð tækifæri til að efla efnahagslífið hér.
Það eru tækifæri af þessu tagi sem höfundur sá vera að skapast þegar hann byrjaði af alvöru að huga að mögulegri vindorkunýtingu á Íslandi. Það var svo fyrr á þessu ári (2019) að vindorkufyrirtækið Zephyr Iceland hóf starfsemi. Framundan er uppsetning vindmastra á nokkrum stöðum á landinu, til vindrannsókna, ásamt ýmsum öðrum rannsóknum og athugunum á möguleikum íslenskrar vindorku.
Í reynd hefur kostnaður vindorkunnar lækkað ennþá hraðar en búist var við og um leið hefur sífellt blásið betur á alþjóðavettvangi fyrir meiri nýtingu vindorku til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Ekki síður áhugavert er að nýting vindorku hentar að ýmsu leyti mjög vel fyrir litla íslenska raforkukerfið, því vindmyllugarðar af hógværri stærð eru um margt einfaldari og áhættuminni verkefni en nýjar stórar vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarmavirkjanir. Það blæs sem sagt byrlega fyrir íslenska vindorku. Og brátt veður meira að frétta af fyrstu verkefnum Zephyr Iceland.
Höfundur er framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2019 | 13:08
Eldar í eyðimörkinni
Fyrir margt löngu söfnuðust upp umfangsmikil og þykk lífræn setlög á svæði þar sem nú liggja sandauðnir Saudi Arabíu. Á næstu tugmilljónum ára, þegar Himalayafjöllin fóru að rísa og fyrstu aparnir að spranga um jörðina, ummynduðust þessi niðurgröfnu setlög smám saman í fljótandi olíu. Enn liðu milljónir ára og til varð mannapinn og loks hinn viti borni maður. Sem eftir nokkra íhugun áttaði sig á því að þessi umræddi ólystugi dökki vökvi gat nýst sem afar öflugt eldsneyti. Og the rest is history!
Stærsta olíusvæði heimsins, Ghawar í Saudi Arabíu, var uppgötvað árið 1948. Olíuframleiðslan hófst nokkrum árum síðar og alla tíð síðan hefur Ghawar verið mikilvægasta olíulind veraldar, enda skilaði hún lengi vel um helmingnum af allri olíuframleiðslu Saudi Arabíu. Eftir að Sádarnir yfirtóku framleiðsluna úr höndum bandarísku ólíufyrirtækjanna á áttunda áratug liðinnar aldar, hefur Ghawar verið lang mikilvægasta uppsprettan að ofsalegum olíuauði yfirstéttar landsins.
Mikil leynd hvílir um alla tölfræði um olíuna í Ghawar, en til þessa hafa líklega verið sóttar þangað um 65 milljarðar tunna af olíu. Mögulega á eftir að sækja þangað annað eins magn, þ.a. Ghawar skili á endanum um 130 milljörðum tunna af olíu. Um þetta er þó veruleg óvissa og hafa sumir spáð því að framleiðslunni í Ghawar eigi eftir að hnigna hratt á næstu árum. Til samanburðar má nefna að öll olíuframleiðslan á öllu norska landgrunninu til þessa nemur nálægt 25 milljörðum tunna.
Þetta umtalaða olíusvæði í Saudi Arabíu er ekki aðeins mikilvægasta tekjulind landsins, heldur afar þýðingarmikið fyrir efnahagslíf heimsins alls og verður það sennilega lengi enn. Og einmitt þess vegna fór um marga þegar drónaárás var gerð á vinnslustöðvar í Ghawar nú um liðna helgi og stór hluti framleiðslunnar stöðvaðist eða a.m.k. varð fyrir skakkaföllum.
Samhliða því að gengið hefur á olíuna í Ghawar hafa Sádarnir ráðist í fleiri umfangsmikil ólíuverkefni. Eitt það allra stærsta er einmitt í nágrenni Ghawar og nefnist það Khurais. Einnig þar var gerð drónaárás um helgina, sem mun þó hafa valdið litlu tjóni og ekki stórvægilegum truflunum á vinnslunni. Rétt eins og Ghawar er Khurais mikilvægt svæði fyrir efnahagslíf veraldarinnar. Því Khurais er ein af stærstu risalindum heimsins með um 20 milljarða tunna af vinnanlegri olíu.
Frá Ghawar og Khurais kemur um 50% af allri olíuvinnslu Sádanna og þessi tvö svæði skila um 5% af allri olíuvinnslu í heiminum. Það munar um minna og ekkert annað en stórkostlegt áfall fyrir efnahagslíf heimsins ef öll þessi olía hverfur af markaðnum í lengri tíma. Enda er líklega hvergi jafn umfangsmikil öryggisgæsla um neinn atvinnurekstur í heiminum. Það er blautur draumur hryðjuverkamanna að skaða rekstur af þessu tagi og ekkert nýtt að reynt sé að ráðast á svæðið.
Einmitt vegna þeirrar staðreyndar að þessi vinnslusvæði standa sífellt frammi fyrir hryðjuverkaógn, hafa Sádarnir komið sér upp verulegum varabirgðum af olíu til að mæta mögulegum og skyndilegum áföllum af þessu tagi. Þar að auki hafa þeir möguleika til að auka framleiðslu á öðrum vinnslusvæðum sínum án mikils fyrirvara. Tímabundin vandræði við Ghawar eru því ekki endilega ávísun á olíuskort.
Miðað við þróun olíuverðs síðasta sólarhringinn virðist sem flestir sem höndla með olíu geri ráð fyrir að Sádarnir kippi vinnslunni í liðinn nokkuð fljótt og örugglega. Sem er eins gott, því tryggur aðgangur að gnægð olíuafurða er einn allra mikilvægasti drifkraftur efnahagslífsins víðast hvar um heiminn. Um leið átta vonandi æ fleiri sig á því, að afar mikilvægt er að við drögum úr ægivaldi olíunnar og vinnum að metnaði að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku!
9.8.2019 | 13:40
Ísland ræður sæstrengjum
Evrópusambandið byggir á viðamiklum samningum og öðrum réttarheimildum. Oft er lagatextinn flókinn og ekki augljóst hvernig á að túlka hann. Þetta á auðvitað líka við um íslenska löggjöf. Þess vegna þarf stundum að koma til kasta dómstóla. Sum meint ágreiningsefni eru þó þannig vaxin að einfalt er að sjá hver hinn rétti skilningur er.
Í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á reglum s.k. þriðja orkupakka hefur stundum heyrst að ef Ísland hafni því að veita raforkusæstreng frá Evrópu aðgang að Íslandi, geti það reynst brot á reglum sem eru skuldbindandi fyrir Ísland vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þetta er einfaldlega rangt. Íslandi er í sjálfsvald sett hvort slíkur sæstrengur yrði leyfður eða ekki.
Þetta kemur t.a.m. með skýrum hætti fram í Samningnum um starfshætti Evrópusambandsins (Treaty on the functioning of the European Union; TFEU). Í þessu sambandi má vísa í 194. gr. umrædds samnings, þar sem segir að skipan orkumála hvers aðildarríkis sé í þess höndum.
Hvorki samningar Evrópusambandsins, samningurinn um EES, þriðji orkupakkinn, reglurnar um frjáls vöru-og þjónustuviðskipti, né aðrar réttarheimildir Evrópuréttarins breyta neinu um þetta.
Sem sagt: Hvort Ísland ákveður að tengjast öðru Evrópulandi með sæstreng til raforkuflutninga er alfarið í höndum Íslendingra sjálfra. Eða öllu heldur á valdi Alþingis. Um þetta er enginn vafi.
Höfundur vinnur að raforkuverkefnum á Íslandi. Þau verkefni eru algerlega óháð því hvort þriðji orkupakkinn verður afgreiddur á Alþingi eður ei.
26.7.2019 | 07:37
Fáfnir Viking verður Atlantic Harrier
Nú sér líklega loksins fyrir endann á sorgarsögunni um þjónustuskipið Fáfni Viking. Íslenska fyrirtækið Fáfnir Offshore pantaði á sínum tíma smíði á tveimur glæsilegum þjónustuskipum fyrir olíuiðnaðinn. Þar var samið við norsku skipasmíðastöðina Havyard í Fosnavogi. En varla var blekið þornað á þeim samningum þegar ljóst varð að sú fjárfesting íslenskra einkaaðila og lífeyrissjóða kæmi ekki til með að ganga upp.
Fáfnir Offshore tók við fyrra skipinu, Polarsyssel, árið 2014 og lenti strax í vandræðum með reksturinn vegna ónógra verkefna fyrir skipið. Brátt varð ljóst að ekki yrði unnt að greiða að fullu fyrir smíði á hinu skipinu, sem hafði verið kallað Fáfnir Viking.
Stjórn Fáfnis Offshore ákvað að fá smíðinni seinkað og greiða tafabætur til skipasmíðastöðvarinnar. Um leið fékkst heimild Havyard til að færa ábyrgðina vegna pöntunar skipsins frá Fáfni Offshore yfir í nýtt dótturfélag, sem nefnt var Polar Maritime. Vanefndir íslenska fyrirtækisins urðu svo til þess að í upphafi árs 2017 rifti Havyard smíðasamningnum.
Síðan þá hefur skrokkurinn af Fáfni Viking legið í reiðuleysi í Noregi, en þangað var hann dreginn frá Tyrklandi þar sem smíðin átti sér stað. Það var svo loks fyrr á þessu ári (2019) að tilkynnt var að kaupandi hafði fundist að skrokknum. Og nú hefur verið tilkynnt um að þar á ferð sé kanadíska þjónustuskipaútgerðin Atlantic Towing.
Kanadíska félagið fær fullbúið skipið afhent á næsta ári (2020) og fær það nafnið Atlantic Harrier. Af ýmsum tilkynningum um viðskiptin má ráða að kanadíska félagið fái skipið ódýrt, en um leið lágmarkar Havyard tjón sitt af því að sitja uppi með skipsskrokkinn ennþá lengur. Og nú er þessari dapurlegu viðskiptasögu vegna smíði Fáfnis Viking vonandi endanlega lokið.
Hvort íslenskt olíuævintýri vaknar á ný mun tíminn leiða í ljós. En það er augljóst að íslenska útrásin í þessum geira olíuvinnsluþjónustu og útgerðar varð því miður ekki til fjár. Og því tæplega jafn spennandi verkefni eins og sumir bankamenn hér fullyrtu síðla árs 2014.
Lærdómurinn af þessu hlýtur að vera sá að Íslendingar og aðrir eiga að fara alveg sérstaklega varlega þegar ráðist er i fjárfestingar í starfsemi sem viðkomandi hafa litla sem enga reynslu af. Um leið er mikilvægt fyrir Ísland að horfa til nýrra tækifæra. En þá þarf fagmennska og aðgætni að vera í fyrirrúmi.