Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skákin er komin heim!

Chess-David-Lada-Spassky-Fischer-1972_Nepo-Nakamura-2022-Reykjavik-IcelandFyrir rúmu ári síðan eða svo fór ég að hafa áhyggjur af því að hér yrði ekki með veg­leg­um hætti þess minnst þegar hálf öld væri liðin frá heims­meist­ara­ein­víginu í skák í Reykjavík; sjálfu ein­vígi allra tíma. Því lítið sem ekkert heyrð­ist af slíkum áform­um. Skemmst er frá að segja að þær áhyggjur reynd­ust óþarfar, því  þrátt fyrir kóf og kostnað tókst Skák­sam­bandi Íslands að koma hér á skák­við­burði á af­mæl­is­árinu, sem varla hefði geta orðið betri. Þ.e. Heims­meist­ara­mót­inu í slembi­skák.

Mér þótti þetta mót heppnast frábærlega vel. Þátt­tak­end­urnir voru marg­ir af bestu skák­mönn­um heims í dag og margir þeirra eru miklir kar­akt­erar. Það var dásam­leg upp­lif­un að vera á skák­staðnum; horfa á og vera í mikilli ná­lægð við meist­arana, fylgjast með skák­un­um og spjalla við Sæma Rokk og aðra áhorf­endur í hlé­um. Síð­ast en ekki síst voru lýs­ing­ar þeirra Björns Þor­finns­sonar og Ingvars Þórs Jóhannes­sonar frá­bær­lega skemmti­legar, skýr­ar og vel heppnaðar. Til hamingju með þennan vel heppnaða við­burð Skák­sam­band Íslands og öll þau sem að þessu stóðu.

Einu vonbrigði mín með Slembi­skák­mótið voru þau að ég vildi sjá aðra menn í úrslitum! Nefni­lega þá Abdusattorov og Carlsen. Annar þeirra reyndist þó of reynslu­lítill enn, en á fram­tíðina fyrir sér. Og hinn, sjálfur heims­meist­arinn og ofur­skák­mennið, tefldi á köflum alls ekki vel. Þ.a. þegar upp er staðið var senni­lega sann­gjarnt hverjir kepptu til úrslita. Og rétt eins og 1972 vann sá banda­ríski þann rússneska. Naka­mura er vel að sigrinum kom­inn, þó svo ég sé litill að­dá­andi þess að láta s.k. Arma­geddon­skák ráða úr­slit­um á alvöru­mótum.

Fischer-random-chess-960-Reykjavik-okt-29-2022-1Hér í lokin má svo nefna að einhver skemmti­leg­asta skák­mynd allra tíma var tekin nú á Slembi­skák­mótinu í Reykja­vík. Þar sem Carlsen og Nepomni­achtchi eru að byrja fyrstu skák sína í undan­úr­slit­unum. Mynda­smiður­inn hygg ég að sé Lennart Ootes og vona ég að ég sé ekki að brjóta gegn höf­undar­rétt­indum með því að láta þessa frábæru mynd fylgja hér. Og sama er að segja um myndasamsetninguna hér efst, en neðri myndin þar frá úrslitum Slembiskákmótsins er tekin af ljósmyndaranum David Lada.

Það kom mér reyndar á óvart hversu mikið frelsi ljós­mynd­arar höfðu til að spíg­spora um salinn og mynda kepp­endurna að tafli. Og nokk­uð augl­jóst að þetta hefði Fischer aldrei heim­ilað! Því miður lifði hann ekki til að sjá þetta vel heppnaða afmæli Einvígis allra tíma og líklega er Spassky orðinn of hrumur til að ferð­ast. En minn­ing­in um heims­við­burð­inn 1972 og þá báða lifir svo sann­ar­lega.

Slembiskákin, sem að verulegu leiti er uppfinning Fischers, mun alveg örugg­lega eiga eftir að blómstra og verða enn vin­sælli, enda mjög skemmtileg viðbót við annars fullkomna list. Og vonandi verður þetta mót ein­ungis hið fyrsta í endur­komu Íslands sem meiri­háttar skák­lands. Næsta raunhæfa skref gæti verið að gera Reykja­víkur­mótin enn­þá flottari og sterkari.


Rio Tinto kvartar undan gagnkvæmum ávinningi

Álrisinn Rio Tinto álítur að taka þurfi á „mis­notkun Lands­virkj­un­ar á mark­aðs­ráð­andi stöðu sinni“ á ís­lensk­um raf­orku­mark­aði. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu um kvört­un fyrir­tæk­is­ins til Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins.

Óskin um að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar

Í umræddri tilkynningu Rio Tinto endur­ómar sá tónn sem Sam­tök iðnað­ar­ins hafa sleg­ið um nokk­urt skeið, þess efn­is að Lands­virkj­un sé með of stóra hlut­deild á raf­orku­mark­aðn­um og jafnvel beri að skipta orkufyr­ir­tæk­inu upp. M.ö.o. þá mið­ar kvört­un Rio Tinto aug­ljós­lega að því að þrengja að tækifærum Lands­virkj­un­ar til að hafa áhrif á raforku­verð til stóriðju. Og vafa­lít­ið myndi Rio Tinto helst vilja að Lands­virkj­un yrði skipt upp, þ.a. samn­ings­staða orku­fyr­ir­tæk­isins myndi veik­ast frá því sem ver­ið hefur.

Eiga álverin rétt á einu og sama botnorkuverðinu?

Fréttatilkynning Rio Tinto vegna kvört­un­ar­inn­ar til Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins er mjög al­mennt orð­uð og ein­kenn­ist af órök­studd­um full­yrð­ing­um. Þar er enga til­vís­un að finna til við­eig­andi laga­ákvæða sem ál­fyr­ir­tæk­ið virð­ist álíta að Lands­virkj­un brjóti gegn. Fyr­ir utan­að­kom­andi er því erfitt að meta hvern­ig Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið mun taka á kvört­un­inni. En mið­að við frétta­til­kynn­ing­una er einkum kvart­að vegna eft­ir­far­andi tveggja meg­in­atriða:

  • Að verðlagning Lands­virkj­unar á raf­orku feli í sér órétt­læt­an­lega mis­mun­un og mis­not­kun á mark­aðs­ráð­andi stöðu. Ál­ver­ið í Straums­vík (ISAL) greiði um­tals­vert hærra raf­orku­verð en aðrir ál­fram­leið­end­ur á Ís­landi og þar með skaði Lands­virkj­un sam­keppn­is­stöðu ISAL. Af þessu virð­ist sem Rio Tinto álíti að öll ál­ver­in þrjú, sem hér starfa, eigi að greiða Lands­virkj­un sama raf­orku­verð. Og þá lík­lega jafnt því verði sem lægst er hverju sinni (sem þessa dag­ana er raf­orku­verð­ið til Norð­ur­áls, vegna verð­teng­ing­ar við Nord Pool og lágt mark­aðs­verð þar nú um stundir).

  • Að langtíma­orku­samn­ing­ar bindi við­skipta­vini Lands­virkj­un­ar yfir langt tíma­bil, sem komi í veg fyr­ir að aðrir raf­orku­fram­leið­end­ur ann­að hvort kom­ist inn á mark­að­inn eða auki fram­leiðslu sína. Af þessu virð­ist sem Rio Tinto álíti að með því að gera lang­tíma­samn­inga við ál­ver (og aðra stór­not­end­ur) brjóti Lands­virkj­un gegn öðrum raf­orku­fram­leið­end­um á Ís­landi og að lang­tíma­samn­ing­ar Landsvirkjunar séu þess eðlis að þeir séu and­stæð­ir sam­keppn­is­lögum.

Loks kemur fram í frétta­til­kynn­ing­unni um kvört­un­ina að Rio Tinto geti ekki hald­ið áfram að fram­leiða ál á Ís­landi nema verð­lagn­ing Lands­virkj­un­ar á raf­orku verði gegn­sæ, sann­gjörn og al­þjóð­lega sam­keppn­is­hæf. Ef Lands­virkj­un láti ekki af mis­notkun sinni eigi ISAL ekki ann­an kost en að íhuga upp­sögn raf­orku­samn­ings­ins og hefja und­ir­bún­ing að lok­un ál­vers­ins.

Hvað gerir Samkeppniseftirlitið?

Greinarhöfundur bíður þess auð­vit­að með nokk­urri eft­ir­vænt­ingu að sjá hvern­ig Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið muni taka á kvört­un Rio Tinto. Fyrir allt áhuga­fólk um ís­lensk­an og evrópskan sam­keppn­is­rétt hlýt­ur þessi kvört­un að vera athyglisverð.

Ef Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið myndi fall­ast á öll þau meg­in­sjón­ar­mið Rio Tinto sem nefnd eru hér að of­an yrðu sennilega all­ir raf­orku­mark­að­ir inn­an EES og ESB í nokkru upp­námi. Því þar tíðk­ast jú ýmiskon­ar samn­ing­ar um raf­orkukaup til lengri og skemmri tíma, auk þess sem margs­konar og mis­munandi raf­orku­verð er í boði bæði til stærri og smærri raf­orku­kaup­enda.

Þarna er því líklega á brattan að sækja hjá álrisanum. Þar með er samt kannski ekki útilokað að Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið geri einhverja athugasemd við fyrirkomulagið hér. En þó varla svo að það breyti miklu fyrir rekstur Rio Tinto á álveri ISAL í Straumsvík.

Á gagnkvæmur ávinningur ekki lengur við?

Það er óneitanlega nokkuð óvænt að nú árið 2020 álíti Rio Tinto allt í einu að raf­orku­samn­ing­urinn sem fyr­ir­tæk­ið átti frum­kvæði að og gerði við Lands­virkj­un árið 2010 (og var breytt árið 2014 að ósk ál­fyr­ir­tæk­is­ins) hafi alls ekki upp­fyllt sam­keppn­is­lög. Áður­nefnd sjón­ar­mið og kvört­un Rio Tinto verða svo alveg sér­stak­lega umhugsunar­verð þeg­ar horft er til þess hvern­ig samn­ingn­um 2010 og við­bót­ar­sam­komu­lag­inu 2014 var lýst, en þá birti álver­ið eftir­far­andi (letur­breyt­ing er grein­ar­höf­undar):

2010: „Þetta er mikil­vægur áfangi fyr­ir ál­ver­ið. Bæði fram­leng­ing­in á nú­ver­andi orku­kaup­um og ákvæð­in um við­bót­ar­orku renna sterk­ari stoð­um und­ir fram­tíð okkar,“ segir Rann­veig Rist for­stjóri [Rio Tinto] Alcan á Íslandi.

2014: Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi: "Sam­komu­lag­ið við Lands­virkj­un er enn ein stað­fest­ing þess að við­skipta­sam­band ál­iðn­að­ar og orku­fram­leiðslu á Ís­landi ein­kenn­ist af gagn­kvæmri virð­ingu og gagnkvæmum ávinningi."

Í ljósi þessara yfirlýsinga for­stjórans í Straumsvík 2010 og 2014 myndi kannski ein­hver segja að nú sé Rio Tinto að kvarta til Sam­keppn­is­eftir­litsins yfir sterk­um stoð­um ál­vers­ins og gagn­kvæm­um um­sömd­um ávinn­ingi Rio Tinto og Lands­virkj­un­ar. Kvörtunin núna er a.m.k. varla í samræmi við fyrri yfirlýsingar álfyrirtækisins.

Landsvirkjun getur ekki tekið alla áhættuna

Rio Tinto er vissulega nokkur vorkunn, því það er aug­ljóst að vænt­ing­ar fyrirtækisins frá 2010 og 2014 um þró­un ál­verðs hafa ekki geng­ið eft­ir. En þar er eng­um um að kenna nema þeim stjórn­end­um ál­fyr­ir­tæk­is­ins sem sáu um og sam­þykktu samn­ing­ana við Lands­virkj­un 2010 og 2014, þegar þeir hinir sömu hefðu kannski átt að vera hófsamari í framtíðarsýn sinni um álverð.

Ef að ál­verð hefði rok­ið upp hefði það vel að merkja verið Lands­virkj­un sem sæti nú svekkt með að hafa ekki sam­ið betur. En þarna eru báð­ir aðil­arn­ir í þeirri stöðu að þurfa að efna samn­ing­ana og það hljóta bæði Lands­virkj­un og Rio Tinto að gera.

Það blasir líka við að ef lækka á raforkuverðið til Rio Tinto vegna breyttra forsenda í formi lágs álverðs, má með sama hætti segja að orkuverð Landsvirkjunar til Alcoa, þ.e. Fjarðaáls, ætti að hækka vegna sömu forsendubreytinga. Þarna geta því komið upp ýmis konar sanngirnissjónarmið. Eftir stendur að samningar skulu standa og það er líka augljóst að gæta verður að sanngirni gagnvart Landsvirkjun ef uppi er forsendubrestur vegna lækkunar álverðs.

Straumsvík segist svikin um afslátt

Vert er einnig að nefna þann óvenju­lega atburð nú síðast, þegar Rio Tinto og/eða ISAL gerði ágrein­ing um það hvort Lands­virkj­un hafi í reynd veitt ál­fyr­ir­tæk­inu þann tíma­bundna af­slátt af raf­orku­verði sem orku­fyrirtækið ákvað ein­hliða að skyldi gilda frá byrj­un maí til loka októ­ber á þessu ár (2020). Það væri auð­vit­að mjög furðu­legt ef Lands­virkj­un stæði ekki við yfir­lýs­ingu sína um tíma­bund­inn af­slátt. Enda hefur orkufyrir­tæk­ið sagt að það sé rangt að Rio Tinto hafi ekki feng­ið af­slátt­inn. Hvorki ISAL né Rio Tinto hafa neitað þeirri fullyrðingu Landsvirkjunar, þ.a. það lítur út fyrir að þarna hafi álfyrirtækið beinlínis farið með rangt mál.

Er stóriðja á Íslandi samkeppnishæf eða ekki?

Áhuga­vert verð­ur að sjá hvern­ig mál­ið þró­ast þeg­ar Fran­haufer mun loks skila skýrslu sinni um sam­keppn­is­hæfni stór­iðju á Ís­landi. Það er sann­ar­lega eng­inn logn­molla þessa dag­ana í ís­lenska raf­orku­geir­an­um. Enda er hin end­ur­nýj­an­lega, hagkvæma og örugga ís­lenska orka mjög eftir­sókn­ar­verð. Vissulega er samt offramleiðsla af áli í Kína að valda vandræðum. En það er því miður eitthvað sem hvorki Landsvirkjun né Ísland hafa á sínu valdi.

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri vind­orku­fyrir­tækis­ins Zephyr Iceland og sem Íslend­ing­ur einn af óbein­um eig­end­um Lands­virkj­un­ar, rétt eins og lang­flestir ef ekki all­ir les­en­dur grein­ar­innar.


Tekist á um 200 milljarða króna i Straumsvík

Risafyrirtækið Rio Tinto segist íhuga stöðu og jafnvel lokun álversins í Straums­vík. Vegna þess að ál­ver­ið sé ekki sam­keppn­is­hæft og verði það ekki nema ál­verð hækki eða raf­orku­verð ál­vers­ins lækki. Þar sem raf­orku­samn­ing­ur álfyr­ir­tæk­is­ins og Lands­virkj­un­ar kveð­ur á um háa kaup­skyldu ál­vers­ins á raf­magni og til­tekn­ar ábyrgð­ir Rio Tinto þar að lút­andi, eru þó senni­lega meiri lík­ur en minni á því að ál­ver­ið haldi áfram starf­semi. Þarna er þó ekk­ert öruggt.

Hvort sem álverið í Straums­vík er að fara að loka eður ei, er rétt að hafa í huga að of­fram­boð af áli í heim­in­um er stað­reynd. Og það of­fram­boð virð­ist lang­var­andi. Of­fram­boðið núna má fyrst og fremst rekja til Kína, þar sem álver hafa verið reist hraðar en sem nemur vexti í álnotkun. Ein af­leið­ing þessa of­fram­boðs er að mörg­um ál­ver­um utan Kína hef­ur ver­ið lok­að, svo sem í Banda­ríkj­un­um. Enn er samt fátt sem bend­ir til þess að ál­verð muni hækka á næst­unni. Þvert á móti virðist lík­legra að of­fram­boð af áli í Kína haldi enn áfram að auk­ast.

Ís­land er stærsti ál­fram­leið­andi heims mið­að við höfða­tölu og vegna of­fjár­fest­inga í ál­ver­um í Kína er orð­ið mun áhættu­sam­ara en áð­ur að reiða sig á ál­ver sem orku­kaup­endur. Það er alls ekki öruggt að stærstu orku­fyr­ir­tæk­in í eigu okk­ar Ís­lend­inga, Lands­virkj­un og Orku­veita Reykja­vík­ur, geti áfram um langa fram­tíð selt stærst­an hluta raf­orku­fram­leiðslu sinn­ar til ál­vera. 

Landsvirkjun-tekjur-skipting-2019_Askja-Energ-Partners-2020-MBLSamkvæmt orku­samningi Lands­virkj­unar við ál­ver Rio Tinto í Straums­vík ber orku­fyr­ir­tæk­inu að út­vega ál­verinu raf­orku allt fram til árs­ins 2036. Raf­ork­an sem fer til Straums­vík­ur er á bil­inu 20-25% af allri raf­orku­fram­leiðslu Lands­virkj­un­ar. Fyr­ir fá­ein­um áru­m námu tekj­urn­ar af þess­um við­skipt­um Lands­virkj­un­ar og ál­fyr­ir­tæk­is­ins um þriðj­ungi raf­orku­tekna Lands­virkj­un­ar. Í kjöl­far tjóns í ein­um ker­skála ál­ver­sins um mitt síð­asta ár (2019) minnkuðu við­skiptin og nema nú um fjórð­ungi allra tekna orku­fyr­ir­tæk­is­ins af raf­orku­sölu. Sbr. tafl­an hér til hliðar.

Þarna er um mikla fjár­hags­lega hags­muni að ræða fyrir bæði Lands­virkj­un og Rio Tinto. Verð­mæti raf­orkusamn­ings fyr­ir­tækj­anna, sem er að uppistöðu frá 2010, nemur um 250-300 milljörð­um króna að nú­virði, þ.e. sam­an­lagð­ar tekj­ur Lands­virkj­un­ar og Lands­nets af samn­ingn­um all­an samn­ings­tím­ann. Þar af eiga um 150-200 milljarð­ar króna eft­ir að greið­ast vegna samn­ings­tím­ans fram til 2036. Og það vel að merkja allt í bein­hörð­um er­lend­um gjald­eyri!

Álver nota gríðarlega mikið af raforku; eru s.k. stórnotendur eða stóriðja. Ef ál­ver dreg­ur veru­lega úr fram­leiðslu sinni eða lok­ar tek­ur lang­an tíma að t.a.m. nægj­an­lega mörg gagna­ver rísi til að geta leyst álver af hólmi í raf­orku­notkun. Og meira að segja nýtt kís­il­ver dugar þar skammt. Lang­var­andi of­fram­boð af áli og sú stað­reynd að stór­fyr­ir­tæk­ið Rio Tinto skuli nú alvar­lega íhuga lok­un ál­vers­ins í Strams­vík ætti að sýna okk­ur Ís­lend­ing­um öll­um hversu mik­il­vægt það er að Lands­virkj­un eigi sem greið­ast­an að­gang að góð­um og fjöl­breytt­um hópi við­skipta­vina.

Í reynd er fyrst og fremst einn mögu­leiki sem gæti skap­að ámóta eft­ir­spurn eftir raf­orku Lands­virkj­un­ar eins og ál­ver ger­ir. Sem er sala á grænni orku um sæ­streng til Evrópu. Það að Rio Tinto gef­ur nú í skyn að fyrir­tæk­ið hygg­ist mögu­lega gef­ast upp gagn­vart of­fram­boði á kín­versu áli er mik­il­væg áminn­ing. Áminning um að hugað sé að nýj­um stór­um kaup­anda að hluta þeirr­ar miklu end­ur­nýj­an­legu orku sem opin­beru orku­fyr­ir­tæk­in, Lands­virkj­un og Orku­veita Reykja­vík­ur, fram­leið­a í virkj­unum sínum.

Mögulega sér Rio Tinto að sér og tryggir far­sæla starf­semi ál­vers­ins í Straums­vík enn um langa fram­tíð. En í ljósi þess að kín­versk­ur ál­út­flutn­ing­ur er lík­leg­ur til að halda áfram að vaxa, kann að vera að álverinu verði lokað, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Það væri því skyn­samlegt að ís­lensk stjórn­völd leggi auk­inn kraft í að kanna sæ­strengs­verk­efnið. Þetta mál snýst um afar mikil­væga við­skipta­hags­muni okkar sem þjóðar.

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri vind­orku­fyrir­tækis­ins Zephyr Iceland og sem Íslend­ing­ur einn af óbein­um eig­end­um Lands­virkj­un­ar, rétt eins og lang­flestir ef ekki all­ir les­en­dur grein­ar­innar.


Ísland er land grænnar raforku

Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjall­að um upp­runa­vott­orð grænnar raforku. Af um­ræðu í þættinum og eft­ir þátt­inn er ljóst að marg­ir eiga í nokkrum vand­ræð­um með að skilja hvað felst í slík­um upp­runa­vott­orðum. Sem kannski er ekki skrýt­ið, því hags­muna­aðilum sem vilja fá þess konar vott­orð frítt hef­ur tek­ist nokk­uð vel að rugla fólk í rím­inu um hvað vott­orð­in merkja.

Einfaldast er að lýsa uppruna­vott­orði vegna grænn­ar raf­orku svo að með slíku vott­orði er stað­fest að til­tek­in orku­ein­ing hefur verið fram­leidd með end­ur­nýjan­leg­um hætti (svo sem fyrir til­verknað vatn­afls, vind­afls, jarð­gufu eða sól­ar). Það er orku­fram­leið­and­inn sem fær heim­ild til útgáfu slíks vott­orðs. Og sá sem kaupir vott­orð­ið er raf­orku­not­andi sem vill styðja við end­ur­nýj­an­lega raf­orku­fram­leiðslu og um leið fá tæki­færi til að kynna þann stuðn­ing sinn í sam­ræmi við regl­ur þess­ar­ar evrópsku sam­vinnu (svipað kerfi má líka finna í löndum utan Evrópu).

Hvaðan nákvæmlega orkueiningin kem­ur, sem kaup­andi vott­orðs­ins notar, er ekki aðal­atriði. Held­ur snýst þetta kerfi um það að orkunotandinn hef­ur með kaup­um á við­kom­andi upp­runa­vott­orði stutt við fram­leiðslu á sama magni af grænni orku. Og raf­orku­fram­leið­and­inn má auðvitað ekki selja upp­runa­vott­orð vegna þess­ar­ar til­teknu orku­ein­ing­ar á ný, enda væri hann þá að tví­selja upp­runa­vott­orðið.

Umrætt kerfi er hluti af sam­starfi Evrópu­ríkja til að sporna gegn los­un gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Í heild stuðl­ar kerf­ið að því að græn raf­orku­fram­leiðsla verður sam­keppn­is­hæf­ari en ella og því lík­leg til að auk­ast meira eða hrað­ar en ella. Hversu áhrifa­mik­ið eða gott þetta kerfi er, er samt um­deil­an­legt, rétt eins og á við um mörg önn­ur mann­anna verk. En þetta er eitt atriði af mörg­um sem hvet­ur til fram­leiðslu á meiri grænni orku og er því til þess fallið að spyrna gegn nýt­ingu kola eða jarð­gass.

Greinarhöfundur lýsti þessu kerfi hér á vef Morg­un­blaðs­ins fyrir um hálf­um ára­tug. En skiln­ing­ur margra á kerf­inu virð­ist lítt betri núna en var þá. Sem er kannski skiljan­legt því reglulega sprettur upp nokkuð þungur áróð­ur gegn þessi kerfi. Sá áróð­ur á einkum ræt­ur að rekja til fyrirtækja sem vilja fá upp­runa­ábyrgð­irnar frítt. Þeir hin­ir sömu reyna að halda því fram að kerf­ið skerði græna ímynd Ís­lands. Slíkt er auð­vit­að fjar­stæða. Enda er græn ímynd Íslands í dag a.m.k. jafn sterk og var fyrir fimm árum, þegar líka var mikið fjallað um hættu á skemmdum á ímynd Íslands vegna viðskipta með upprunavottorð.

Jafnvel þó svo þetta kerfi upprunaábyrgða sé til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi, þá er kerfið ekki skylda heldur valkvætt. Íslenskum orkufyrirtækjum ber engin skylda til að taka þátt. En hafa má í huga að sala á upprunavottorðum hefur aukið ár­leg­ar tekj­ur Lands­virkj­un­ar um hundruð milljóna króna. Greið­end­urnir, þ.e. kaup­end­ur vott­orð­anna, eru fyrst og fremst er­lend fyrir­tæki, með­an tekj­urnar renna fyrst og fremst til fyr­ir­tæk­is í eigu ís­lenska rík­is­ins. Hvort það er jákvætt eða neikvætt fyrir Ísland verður hver að meta fyrir sig.

Slíkar auknar tekjur Lands­virkj­un­ar eru jákvæðar fyrir fyrirtækið, eiganda þess og þar með alla landsmenn. Um leið efla tekjurnar mögu­leika Lands­virkj­un­ar til að bjóða raf­orku á lægra verði en ella. M.ö.o. þá verður Lands­virkj­un sam­keppn­is­hæf­ari. Það væri nokkuð ein­kenni­leg afstaða ef ís­lenskir stjórn­mála­menn vildu skera burt þessar tekj­ur Lands­virkj­un­ar og þar með minnka arð­semi þessa mik­il­væga fyr­ir­tæk­is Íslend­inga.

Ísland er land grænnar raforku­fram­leiðslu. Og orku­ímynd Ís­lands er sú græn­asta í heimi og vekur athygli sem slík. Upp­runa­vott­orð og við­skipti með slík vott­orð skerða á eng­an hátt þá ímynd. Þvert á móti er geta ís­lenskra raf­orku­fyrir­tækja til að selja upp­runa­vott­orð til marks um hversu raf­orku­fram­leiðsla á Ís­landi er græn. Í því liggja hrein og klár verð­mæti.

Að af­henda stór­not­end­um raf­orku eða meng­andi iðn­aði þau verð­mæti án end­ur­gjalds væri undarleg ráð­stöf­un. Aftur á móti er um­hverf­is­leg gagn­semi upp­runa­vott­orða varla afgerandi og því kannski ekki stór skaði ef þetta kerfi yrði lagt af. Munum samt að þetta kerfi styður við græna orku. Þess vegna er varla ástæða til að leggja kerfið af nema sýnt verði fram á óumdeilanleg og raunveruleg neikvæð áhrif þess. Það hefur ekki verið gert. 

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri vind­orku­fyrir­tækis­ins Zephyr Iceland.


Spáin orðin að veruleika!

Umtalsverðar breytingar hafa nú orðið á raf­orku­við­skipt­um bæði ál­vers Norð­ur­áls og járn­blendi­verk­smiðu Elkem á Grund­ar­tanga. Þar er um að ræða eðli­lega þró­un, sem er í sam­ræmi við spár grein­ar­höf­undar

Bæði fyrir­tæk­in, þ.e. Elkem og Norðurál, hafa nú fram­lengt raf­orku­kaup sín frá Lands­virkj­un, en með breytt­um verð­skil­mál­um. Gera má ráð fyrir að sam­tals leiði þetta til þess að tekj­ur Lands­virkj­un­ar á árs­grund­velli hækki um þó nokkra milljarða króna. Sem er í samræmi við það sem ætla mátti að myndi ger­ast, þeg­ar gömlu orku­samn­ing­arn­ir rynnu út.

Þetta mun auðvitað draga úr hagn­aði stór­iðj­unn­ar á Grund­ar­tanga og um leið færa arð­semi Lands­virkj­un­ar til eðli­legra horfs. Í stað þess að verk­smiðj­urn­ar tvær á Grund­ar­tanga greiði næst­um helm­ingi lægra raf­orku­verð en ál­ver­ið í Straums­vík ger­ir, mun stór­iðjan á Grund­ar­tanga nú greiða svip­að orku­verð eins og Straums­vík. Og svip­að raf­orku­verð eins og ger­ist í helstu sam­keppn­is­löndum.

Hafa ber í huga að reikni­regl­urn­ar og við­mið­an­irn­ar að baki þess­um tekj­um Lands­virkj­un­ar (þ.e. verð pr. MWst) vegna við­skipt­anna við Grund­ar­tanga eru ekki ná­kvæm­lega þær sömu eins og í samn­ingn­um við Straums­vík. En gróf­lega má sem sagt ætla að nokk­urt jafn­ræði mynd­ist nú í orku­verð­inu milli Straums­vík­ur ann­ars veg­ar og Grund­ar­tanga hins vegar.

Að vísu er Norð­ur­ál enn svo­lít­ið sér á báti, því þar er um að ræða áhættu­meiri skamm­tíma­samn­ing. Sem lík­lega er til kom­in að ósk ál­fyr­ir­tæk­is­ins. Sú áhættu­taka kann að verða Norð­ur­áli viss fjötur um fót á næstu árum.

Gróf­lega áætl­að kunna heild­ar­tekj­ur Lands­virkj­un­ar vegna þess­ara tveggja samn­inga á Grundartanga að hækka um u.þ.b. 15% á árs­grund­velli. Verð­hækk­un­in á Grund­ar­tanga kom ekki til fram­kvæmda fyrr en nokkuð var lið­ið á árið (2019). Það verð­ur því ekki fyrr en á næsta ári, þ.e. 2020, að þessi tekju­aukn­ing mun að fullu skila já­kvæð­um áhrif­um á af­komu Lands­virkj­unar á árs­grund­velli.

Um leið mun árið 2020 marka viss kafla­skil í rekstrar­kostn­aði verk­smiðj­anna á Grund­ar­tanga. Þessi þróun er ekki óvænt, því hið breytta raf­orku­verð er í sam­ræmi við það sem búast mátti við þeg­ar gömlu samn­ing­arn­ir rynnu út. Rétt eins og grein­ar­höf­und­ur hafði spáð í grein hér á vef Morg­un­blaðs­ins strax árið 2015.

Eins og lesendur kunna að muna, þá ollu þau skrif nokkrum titringi hjá til­tekn­um ein­stakl­ing­um og fyr­ir­tækj­um. Það sem gerst hef­ur síð­an þá er auð­vit­að til marks um að grein­ar­höf­und­ur var ein­fald­lega að benda á stað­reyndir og sú þró­un sem þar var séð fyr­ir um þró­un raf­orku­verðs á Ís­landi er nú orð­in að raun­veru­leika.

Næsta stóra skrefið til auk­inn­ar arð­semi Lands­virkj­un­ar verð­ur senni­lega stig­ið ár­ið 2028, þegar raf­orku­verðið í lang­stærsta raf­orku­samn­ingi á Ís­landi kem­ur að öll­um lík­ind­um til end­ur­skoð­un­ar. Þar er um að ræða samn­ing­inn við Alcoa vegna álvers Fjarðaáls.

Þessi þróun á ekki að koma nein­um á óvart. Um leið hlýt­ur það að vera gleði­efni fyr­ir bæði stór­iðj­una á Ís­landi og aðra um­tals­verða not­end­ur raf­orku hér, að Ís­land hef­ur enn þá sér­stöðu að hér býðst stór­iðju og öðrum fyr­ir­tækjum trygg raf­orka á mjög sam­keppn­is­hæfu verði.


Raunveruleikinn á Norðurskauti

Nú stendur yfir ráð­stefnan Arctic Circle hér í Reykja­vík, þar sem athygl­in bein­ist að Norð­ur­skauts­svæð­inu. Í um­ræð­unni er mik­ið rætt um mik­il­vægi þess að vernda þetta merki­lega og ein­staka svæði. Stað­reynd­in er engu að síð­ur sú að nokkrum mik­il­væg­ustu lönd­un­um sem eiga lög­sögu á svæð­inu, er mjög í mun að nýta auð­lind­ir þeirra svæða sem lög­saga þeirra nær til.

Arctic-Oil-mapÞar er Rússland lík­lega ákaf­ast. Enda er gríð­ar­lega mik­ið af jarð­gasi og olíu að finna á heim­skauta­svæð­um Rúss­lands. Og eftir að Don­ald Trump komst til valda hef­ur Banda­ríkjastjórn einn­ig snú­ið frá vernd­ar­stefnu gagn­vart Alaska og vill opna vernduð ­svæði í Alaska fyrir olíu- og gas­vinnslu.

Enn eitt landið sem á stóra lög­sögu á svæð­inu er Nor­eg­ur og stjórn­völd þar í landi virð­ast áhuga­söm um að nálgast þá gríð­ar­legu olíu sem finna má undir botni Bar­ents­hafs­ins. Vinnsla þar er reynd­ar komin vel af stað og á vafa­lítið bara eftir að auk­ast á kom­andi ár­um og ára­tugum.

Þar að auki þrýsta tvö fjöl­menn­ustu lönd heims­ins á meiri auð­linda­nýt­ingu á Norð­ur­skauts­svæð­un­um, þó þau eigi ekki lög­sögu þar. Bæði Kína og Ind­land tala fyrir auk­inni auð­linda­nýt­ingu á þess­um svæð­um.

Það er senni­lega sterk­ur meiri­hluti með­al þjóða heims­ins fyr­ir því að vernda Norð­ur­skauts­svæð­in. Og í orði kveðnu tala flest­ir þjóð­ar­leið­tog­ar, stjórn­mála­menn og t.a.m. for­stjór­ar stór­fyr­ir­tækja fyrir slíku. Þetta er valda­mik­ill hóp­ur og því mætti ætla að það sé jafn­vel mjög breið sátt um vernd­un Norð­ur­skauts­svæð­anna. En þegar kem­ur að því að sam­þykkja raun­veru­legar að­gerð­ir eða ákvarð­an­ir heima fyr­ir, virð­ist allt ann­að uppi á teningnum.

Arctic-Oil-platforms-offsohreNú um stundir er aug­ljóst að stjórn­völd bæði í Rúss­landi og Banda­ríkj­un­um eru í reynd mjög viljug til að láta auð­linda­nýt­ingu á Norð­ur­slóð­um hafa for­gang fram yfir vernd­un. Og þar fá þau pólí­tísk­an stuðn­ing frá tveim­ur fjöl­menn­ustu ríkj­um heims­ins; Kína og Ind­landi. Þar að auki eru bæði norsk og græn­lensk stjórn­völd áhuga­söm um olíu­vinnslu svo til hvar­vetna í lög­sögu sinni.

Af ríkjun­um sem eiga lög­sög­una á heim­skauta­svæð­un­um í norðri er það ein­ung­is Kan­ada sem nú sýn­ir raun­veru­leg­an pólí­tísk­an vilja til vernd­un­ar þess­ara svæða. Um leið stunda reynd­ar Kanada­menn ein­hverja mest meng­andi olíu­vinnslu heims í Alberta­fylki, þar sem olía er unn­in með óvenju kostn­­ar­söm­um og lítt hag­kvæm­um hætti úr olíu­sandi. Þannig að ekki einu sinni kana­dísk stjórn­völd geta tal­ist sýna sterka vernd­ar­vitund. Þar að auki er mik­ill þrýst­ing­ur frá áhrifa­mikl­um hags­muna­­il­um þar í landi um að Kan­ada hverfi frá vernd­ar­stefnu sinni.

Þegar horft er til alls þess sem að ofan grein­ir virð­ist nokk­uð aug­ljóst að ríkin sem liggja að Norð­ur­skauts­svæð­un­um munu ekki grípa til rót­tækrar vernd­un­ar svæð­is­ins. Enda eru senni­lega a.m.k. einn og jafnvel tveir ára­tugir þar til olíu­eftir­spurn í heim­inum nær há­marki. Og jafn­vel löngu eftir þann tíma­punkt verð­ur vafa­lít­ið mik­il eft­ir­spurn eft­ir olíu­af­urð­um, jafn­vel þó svo raf­bíl­um fjölgi mjög. Hvort heim­skauta­olí­an, sem enn hvíl­ir óhreyfð, verð­ur ábata­söm er óljóst. En áhug­inn á henni (og jarðgasinu) er tví­mæla­laust fyr­ir hendi; ekki síst við strend­ur Sí­beríu, í Bar­ents­hafi og nyrst í Alaska.

Arctic-LNG-transport Arctic Circle er mik­il­væg­ur vett­vang­ur til að koma skila­boð­um á fram­færi og styrkja marg­vís­leg tengsl. Ráð­stefnu­hald­ið allt dregur t.a.m. fram margt gott um meint­an vilja til vernd­un­ar og er öfl­ug­ur vett­vang­ur fyr­ir kynn­ingu á ýmsum vís­inda­rann­sókn­um.

En það er fátt sem bend­ir til þess að þetta skili auk­inni vernd­un Norð­ur­slóða. Þvert á móti mun auð­linda­nýt­ing og skipa­um­ferð á Norð­ur­slóð­um að öllum líkindum auk­ast um­tals­vert á kom­andi ár­um og ára­tug­um. Mik­il­vægt er að við reyn­um að sjá fyrir helstu af­leið­ing­arnar af þeirri at­burða­rás.


Vatnaskil í raforkuöflun

Um langt skeið hefur raforku­fram­leiðsla mann­kyns byggst á kol­vetnis­bruna, nýt­ingu kjarn­orku og nýt­ingu vatns­afls. Kol­vetnis­brun­inn er fyrir­ferða­mestur, þar sem kol og jarð­gas ásamt olíu hafa lengi verið og eru enn mikil­væg­ustu orku­gjaf­arnir til raf­magns­framleiðslu.

Flestum er kunnugt um skyn­semi þess að auka hlut­fall hag­kvæmra orku­gjafa sem valda minni meng­un­ar­hættu og losa minna kol­­oxíð út í and­rúms­loftið.

Þar hefur eink­um vatns­aflið reynst vel, enda eru hér á jörðu fjölda­margir efna­hags­lega hag­kvæmir vatns­afls­kostir. Vatns­aflið er þó tak­mark­að og vegna um­hverfis­áhrifa viljum við ekki nýta alla vatns­afls­kosti. Þar að auki dugar vatns­aflið engan veg­inn til að mæta sí­vax­andi raf­orku­þörf okkar. Jarð­varmi býð­ur enn síð­ur upp á mikla aukn­ingu virkjana. Lengi vel var mjög horft til kjarnorku sem framtíðarorkugjafa. En nýting kjarnorkunnar er um margt flókin og þar að auki hefur þetta reynst dýr tækni.

Það hefur sem sagt reynst erfitt að finna leið til að mæta vaxandi þörf á raforku; leið sem getur bæði talist hagkvæm og hefur lítil neikvæð umhverfisáhrif. Til allrar hamingju hafa fundist tvær mikilvægara lausnir til að mæta vaxandi raforkuþörf. Sem eru sólarorka og vindorka.

Vegna tækni­fram­fara og stærð­ar­hag­kvæmni hefur náðst að lækka kostnað mjög veru­lega í bæði sólar­orku- og vind­orku­tækni á til­tölu­lega skömm­um tíma. Nú er svo kom­ið að nýt­ing vind­orku á svæð­um með góð­ar vind­­stæð­ur er ódýr­asta tækn­in til að auka raf­orku­fram­boð. Og sama má segja um sól­ar­ork­una á þeim svæð­um þar sem sól­geislun er hvað mest.

Að auki bend­ir flest til þess að kostn­­ur­inn í bæði sól og vindi eigi eftir að lækka um­tals­vert á næstu árum. Einnig skipt­ir máli að á síð­ustu árum hef­ur náðst afar góð­ur árang­ur í að byggja stóra og til­tölu­lega ódýra raf­geyma, sem gerir nýt­ingu sólar- og vind­orku enn­þá hag­kvæmari enn ella.

Hreyfiafl-BNEF-raforka-fram-til-2050Að mati Bloomber New Energy Finance (BNEF) ger­ir þessi þró­un það raun­veru­lega mögu­legt að unnt verði að mæta sí­vax­andi raf­orku­þörf mann­kyns með ódýrri end­ur­nýj­an­legri orku, þar sem nýt­ing  sól­ar­orku og vind­orku verð­ur í lykil­hlut­verki (líkt og kem­ur fram á graf­inu hér til hliðar).

Sjálfsagt og eðlilegt er að við Íslend­ing­ar tök­um þátt í þess­ari þró­un og verð­um þann­ig með í að draga úr þörf mann­kyns á sí­vax­andi kol­vetn­is­bruna til raf­orku­fram­leiðslu. Sá sið­ferð­is­legi drif­kraft­ur er þó ekki eina ástæð­an fyrir því að Ísland taki þátt í þess­ari þró­un. Það er nefni­lega svo að vind­­stæð­ur á Ís­landi eru með hag­felld­asta móti til að fram­leiða raf­orku. Nýt­ing ís­lenskrar vind­orku veitir því óvenju góð tæki­færi til að efla efna­hags­lífið hér.

Það eru tæki­færi af þessu tagi sem höf­und­ur sá vera að skap­ast þeg­ar hann byrjaði af alvöru að huga að mögu­legri vind­orku­nýt­ingu á Íslandi. Það var svo fyrr á þessu ári (2019) að vind­orku­fyrir­tækið Zephyr Ice­land hóf starfsemi. Fram­und­an er upp­setn­ing vind­mastra á nokkrum stöð­um á land­inu, til vind­rann­sókna, ásamt ýmsum öðrum rann­sókn­um og athug­un­um á mögu­leikum ís­lenskrar vind­orku.

Í reynd hefur kostnaður vind­ork­unn­ar lækk­að enn­þá hrað­ar en bú­ist var við og um leið hefur sí­fellt blás­ið betur á alþjóða­vett­vangi fyrir meiri nýt­ingu vind­orku til að auka hlut­fall end­ur­nýj­an­legrar orku. Ekki síður áhuga­vert er að nýt­ing vind­orku hentar að ýmsu leyti mjög vel fyrir litla ís­lenska raf­orku­kerfið, því vind­myllu­garðar af hóg­værri stærð eru um margt ein­fald­ari og áhættu­minni verk­efni en nýjar stór­ar vatns­afls­virkj­an­ir eða jarð­varma­virkj­anir. Það blæs sem sagt byr­lega fyrir íslenska vindorku. Og brátt veður meira að frétta af fyrstu verk­efnum Zephyr Iceland.

Höf­undur er fram­kvæmda­stjóri Zephyr á Íslandi


Eldar í eyðimörkinni

Fyrir margt löngu söfnuðust upp um­fangs­mikil og þykk líf­ræn set­lög á svæði þar sem nú liggja sand­auðnir Saudi Arabíu. Á næstu tug­milljón­um ára, þeg­ar Hima­laya­fjöll­in fóru að rísa og fyrstu aparn­ir að spranga um jörð­ina, um­mynd­­ust þessi nið­ur­gröfnu set­lög smám sam­an í fljót­andi olíu. Enn liðu milljón­ir ára og til varð mann­apinn og loks hinn viti borni maður. Sem eftir nokkra íhug­un átt­aði sig á því að þessi um­ræddi ólyst­ugi dökki vökvi gat nýst sem afar öfl­ugt elds­neyti. Og the rest is history!

Saudi-Arabia-Oil-discovery-ghawar_Askja-EnergyStærsta olíusvæði heimsins, Ghawar í Saudi Arabíu, var upp­götvað árið 1948. Olíu­fram­leiðsl­an hófst nokkrum ár­um síð­ar og alla tíð síð­an hefur Ghawar ver­ið mik­il­væg­asta olíu­lind ver­ald­ar, enda skil­aði hún lengi vel um helm­ingnum af allri olíu­fram­leiðslu Saudi Arabíu. Eftir að Sád­arn­ir yfir­tóku fram­leiðsl­una úr hönd­um banda­rísku ólíu­fyrir­tækj­anna á átt­unda ára­tug lið­inn­ar ald­ar, hef­ur Ghawar ver­ið lang mikil­væg­asta upp­sprett­an að ofsa­leg­um olíu­auði yfir­stétt­ar lands­ins.

Mikil leynd hvílir um alla töl­fræði um olí­una í Ghawar, en til þessa hafa lík­lega ver­ið sótt­ar þang­að um 65 milljarð­ar tunna af olíu. Mögu­lega á eft­ir að sækja þang­að ann­að eins magn, þ.a. Ghawar skili á end­an­um um 130 milljörð­um tunna af olíu. Um þetta er þó veru­leg óvissa og hafa sum­ir spáð því að fram­leiðsl­unni í Ghawar eigi eft­ir að hnigna hratt á næstu árum. Til sam­an­burðar má nefna að öll olíu­fram­leiðsl­an á öllu norska land­grunn­inu til þessa nem­ur nálægt 25 milljörð­um tunna.

Aramco-factory-in-Abqaiq-Saudi-ArabiaÞetta umtalaða olíu­svæði í Saudi Arabíu er ekki að­eins mik­il­væg­asta tekju­lind lands­ins, held­ur afar þýð­ing­ar­miki­ð fyrir efna­hags­líf heims­ins alls og verð­ur það senni­lega lengi enn. Og ein­mitt þess vegna fór um marga þegar dróna­árás var gerð á vinnslu­stöðvar í Ghawar nú um liðna helgi og stór hluti fram­leiðsl­unn­ar stöðv­­ist eða a.m.k. varð fyrir skakka­föllum.

Samhliða því að geng­ið hefur á olí­una í Ghawar hafa Sád­arn­ir ráð­ist í fleiri um­fangs­mikil ólíu­verk­efni. Eitt það allra stærsta er ein­mitt í ná­grenni Ghawar og nefn­ist það Khurais. Einn­ig þar var gerð dróna­árás um helg­ina, sem mun þó hafa vald­ið litlu tjóni og ekki stór­vægi­leg­um trufl­un­um á vinnsl­unni. Rétt eins og Ghawar er Khur­ais mik­il­vægt svæði fyrir efna­hags­líf ver­ald­ar­inn­ar. Því Khurais er ein af stærstu risa­lind­um heims­ins með um 20 milljarða tunna af vinn­an­legri olíu.

Aramco-factory-in-Abqaiq-Ghawar-drone_strikes_saudi_arabia-mapFrá Ghawar og Khurais kem­ur um 50% af allri olíu­vinnslu Sádanna og þessi tvö svæði skila um 5% af allri olíu­vinnslu í heim­in­um. Það mun­ar um minna og ekk­ert annað en stór­kost­legt áfall fyrir efna­hags­líf heims­ins ef öll þessi olía hverf­ur af mark­aðnum í lengri tíma. Enda er líkl­ega hvergi jafn um­fangs­mikil öryggis­gæsla um neinn atvinnu­rekstur í heim­in­um. Það er blaut­ur draum­ur hryðju­verka­manna að skaða rekst­ur af þessu tagi og ekk­ert nýtt að reynt sé að ráð­ast á svæðið.

Einmitt vegna þeirrar stað­reyndar að þessi vinnslu­svæði standa sí­fellt frammi fyrir hryðju­verka­ógn, hafa Sád­arn­ir kom­ið sér upp veru­leg­um vara­birgð­um af olíu til að mæta mögu­legum og skyndi­leg­um áföll­um af þessu tagi. Þar að auki hafa þeir mögu­leika til að auka fram­leiðslu á öðrum vinnslu­svæð­um sínum án mikils fyrir­vara. Tímabundin vandræði við Ghawar eru því ekki endilega ávísun á olíuskort.

Miðað við þróun olíuverðs síðasta sólar­hring­inn virð­ist sem flest­ir sem höndla með olíu geri ráð fyrir að Sád­arn­ir kippi vinnsl­unni í lið­inn nokk­uð fljótt og örugg­lega. Sem er eins gott, því trygg­ur að­gang­ur að gnægð olíu­afurða er einn allra mikil­væg­asti drif­kraft­ur efna­hags­lífsins víð­ast hvar um heim­inn. Um leið átta von­andi æ fleiri sig á því, að afar mikil­vægt er að við drög­um úr ægi­valdi olí­unnar og vinn­um að metn­aði að því að auka hlut­fall end­ur­nýj­an­legrar orku!


Ísland ræður sæstrengjum

Evrópusambandið byggir á viða­miklum samn­ingum og öðrum rétt­ar­heim­ild­um. Oft er laga­text­inn flók­inn og ekki aug­ljóst hvernig á að túlka hann. Þetta á auð­vit­að líka við um ís­lenska lög­gjöf. Þess vegna þarf stund­um að koma til kasta dóm­stóla. Sum meint ágrein­ings­efni eru þó þann­ig vax­in að ein­falt er að sjá hver hinn rétti skiln­ing­ur er.

Í tengslum við fyrir­hug­aða  inn­leið­ingu Ís­lands á regl­um s.k. þriðja orku­pakka hef­ur stund­um heyrst að ef Ísland hafni því að veita raf­orku­sæ­streng frá Evrópu að­gang að Ís­landi, geti það reynst brot á regl­um sem eru skuld­bind­andi fyrir Ísland vegna að­ild­ar okkar að Evrópska efna­hags­svæð­inu (EES). Þetta er ein­fald­lega rangt. Íslandi er í sjálfs­vald sett hvort slík­ur sæ­streng­ur yrði leyfð­ur eða ekki.

HVDC-subsea-interconnectorÞetta kemur t.a.m. með skýr­um hætti fram í Samn­ingnum um starfs­hætti Evrópu­sam­bands­ins (Treaty on the functioning of the European Union; TFEU). Í þessu sam­bandi má vísa í 194. gr. um­rædds samn­ings, þar sem segir að skip­an orku­mála hvers að­ildar­ríkis sé í þess hönd­um.

Hvorki samn­ingar Evrópu­sam­bands­ins, samn­ing­ur­inn um EES, þriðji orku­pakk­inn, regl­urnar um frjáls vöru-og þjón­ustu­við­skipti, né aðrar réttar­heim­ildir Evrópu­rétt­arins breyta neinu um þetta.

Sem sagt: Hvort Ísland ákveð­ur að tengjast öðru Evrópu­landi með sæ­streng til raf­orku­flutn­inga er alfarið í hönd­um Ís­lend­ingra sjálfra. Eða öllu heldur á valdi Al­þingis. Um þetta er enginn vafi.

Höfundur vinnur að raforku­verk­efnum á Ís­landi. Þau verk­efni eru alger­lega óháð því hvort þriðji orku­pakk­inn verð­ur af­greidd­ur á Alþingi eður ei.


Fáfnir Viking verður Atlantic Harrier

Nú sér líklega loks­ins fyrir endann á sorgar­sög­unni um þjón­ustu­skipið Fáfni Viking. Íslenska fyr­ir­tæk­ið Fáfnir Off­shore pant­aði á sín­um tíma smíði á tveim­ur glæsi­legum þjón­ustu­skip­um fyrir olíu­iðn­að­inn. Þar var sam­ið við norsku skipa­smíða­stöð­ina Havyard í Fosna­vogi. En varla var blek­ið þorn­að á þeim samn­ing­um þeg­ar ljóst varð að sú fjár­fest­ing ís­lenskra einka­aðila og líf­eyris­sjóða kæmi ekki til með að ganga upp.

Fáfnir Offshore tók við fyrra skipinu, Polar­syssel, árið 2014 og lenti strax í vand­ræð­um með rekstur­inn vegna ónógra verk­efna fyrir skip­ið. Brátt varð ljóst að ekki yrði unnt að greiða að fullu fyrir smíði á hinu skip­inu, sem hafði ver­ið kall­að Fáfnir Viking.

Stjórn Fáfnis Off­shore ákvað að fá smíð­inni seink­að og greiða tafa­bæt­ur til skipa­smíða­stöðvar­innar. Um leið fékkst heim­ild Hav­yard til að færa ábyrgð­ina vegna pönt­unar skips­ins frá Fáfni Off­shore yfir í nýtt dótt­ur­félag, sem nefnt var Polar Mari­time. Van­efndir ís­lenska fyrir­tæk­is­ins urðu svo til þess að í upp­hafi árs 2017 rifti Hav­yard smíða­samn­ingnum.

Atlantic-Harrier-illustrationSíðan þá hefur skrokk­ur­inn af Fáfni Viking leg­ið í reiðu­leysi í Nor­egi, en þang­að var hann dreg­inn frá Tyrk­landi þar sem smíð­in átti sér stað. Það var svo loks fyrr á þessu ári (2019) að til­kynnt var að kaup­andi hafði fund­ist að skrokknum. Og nú hef­ur verið til­kynnt um að þar á ferð sé kana­díska þjón­ustu­skipa­út­gerð­in Atlantic Tow­ing.

Kana­díska fél­ag­ið fær full­búið skip­ið afhent á næsta ári (2020) og fær það nafnið Atlantic Harrier. Af ýmsum tilkynn­ingum um við­skiptin má ráða að kana­díska fél­ag­ið fái skip­ið ódýrt, en um leið lág­mark­ar Hav­yard tjón sitt af því að sitja uppi með skips­skrokk­inn enn­þá leng­ur. Og nú er þess­ari dap­ur­legu við­skipta­sögu vegna smíði Fáfnis Viking von­andi end­an­lega lok­ið.

Hvort ís­lenskt olíu­ævintýri vakn­ar á ný mun tím­inn leiða í ljós. En það er aug­ljóst að ís­lenska út­rás­in í þess­um geira olíu­vinnslu­þjón­ustu og út­gerð­ar varð því mið­ur ekki til fjár. Og því tæplega jafn „spennandi verkefni“ eins og sum­ir banka­menn hér full­yrtu síðla árs 2014.

Lær­dóm­ur­inn af þessu hlýt­ur að vera sá að Íslend­ing­ar og aðrir eiga að fara alveg sér­stak­lega var­lega þeg­ar ráð­ist er i fjár­fest­ing­ar í starf­semi sem við­kom­andi hafa litla sem enga reynslu af. Um leið er mikil­vægt fyrir Ísland að horfa til nýrra tæki­færa. En þá þarf fag­mennska og að­gætni að vera í fyrir­rúmi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband