Spáin orðin að veruleika!

Umtalsverðar breytingar hafa nú orðið á raf­orku­við­skipt­um bæði ál­vers Norð­ur­áls og járn­blendi­verk­smiðu Elkem á Grund­ar­tanga. Þar er um að ræða eðli­lega þró­un, sem er í sam­ræmi við spár grein­ar­höf­undar

Bæði fyrir­tæk­in, þ.e. Elkem og Norðurál, hafa nú fram­lengt raf­orku­kaup sín frá Lands­virkj­un, en með breytt­um verð­skil­mál­um. Gera má ráð fyrir að sam­tals leiði þetta til þess að tekj­ur Lands­virkj­un­ar á árs­grund­velli hækki um þó nokkra milljarða króna. Sem er í samræmi við það sem ætla mátti að myndi ger­ast, þeg­ar gömlu orku­samn­ing­arn­ir rynnu út.

Þetta mun auðvitað draga úr hagn­aði stór­iðj­unn­ar á Grund­ar­tanga og um leið færa arð­semi Lands­virkj­un­ar til eðli­legra horfs. Í stað þess að verk­smiðj­urn­ar tvær á Grund­ar­tanga greiði næst­um helm­ingi lægra raf­orku­verð en ál­ver­ið í Straums­vík ger­ir, mun stór­iðjan á Grund­ar­tanga nú greiða svip­að orku­verð eins og Straums­vík. Og svip­að raf­orku­verð eins og ger­ist í helstu sam­keppn­is­löndum.

Hafa ber í huga að reikni­regl­urn­ar og við­mið­an­irn­ar að baki þess­um tekj­um Lands­virkj­un­ar (þ.e. verð pr. MWst) vegna við­skipt­anna við Grund­ar­tanga eru ekki ná­kvæm­lega þær sömu eins og í samn­ingn­um við Straums­vík. En gróf­lega má sem sagt ætla að nokk­urt jafn­ræði mynd­ist nú í orku­verð­inu milli Straums­vík­ur ann­ars veg­ar og Grund­ar­tanga hins vegar.

Að vísu er Norð­ur­ál enn svo­lít­ið sér á báti, því þar er um að ræða áhættu­meiri skamm­tíma­samn­ing. Sem lík­lega er til kom­in að ósk ál­fyr­ir­tæk­is­ins. Sú áhættu­taka kann að verða Norð­ur­áli viss fjötur um fót á næstu árum.

Gróf­lega áætl­að kunna heild­ar­tekj­ur Lands­virkj­un­ar vegna þess­ara tveggja samn­inga á Grundartanga að hækka um u.þ.b. 15% á árs­grund­velli. Verð­hækk­un­in á Grund­ar­tanga kom ekki til fram­kvæmda fyrr en nokkuð var lið­ið á árið (2019). Það verð­ur því ekki fyrr en á næsta ári, þ.e. 2020, að þessi tekju­aukn­ing mun að fullu skila já­kvæð­um áhrif­um á af­komu Lands­virkj­unar á árs­grund­velli.

Um leið mun árið 2020 marka viss kafla­skil í rekstrar­kostn­aði verk­smiðj­anna á Grund­ar­tanga. Þessi þróun er ekki óvænt, því hið breytta raf­orku­verð er í sam­ræmi við það sem búast mátti við þeg­ar gömlu samn­ing­arn­ir rynnu út. Rétt eins og grein­ar­höf­und­ur hafði spáð í grein hér á vef Morg­un­blaðs­ins strax árið 2015.

Eins og lesendur kunna að muna, þá ollu þau skrif nokkrum titringi hjá til­tekn­um ein­stakl­ing­um og fyr­ir­tækj­um. Það sem gerst hef­ur síð­an þá er auð­vit­að til marks um að grein­ar­höf­und­ur var ein­fald­lega að benda á stað­reyndir og sú þró­un sem þar var séð fyr­ir um þró­un raf­orku­verðs á Ís­landi er nú orð­in að raun­veru­leika.

Næsta stóra skrefið til auk­inn­ar arð­semi Lands­virkj­un­ar verð­ur senni­lega stig­ið ár­ið 2028, þegar raf­orku­verðið í lang­stærsta raf­orku­samn­ingi á Ís­landi kem­ur að öll­um lík­ind­um til end­ur­skoð­un­ar. Þar er um að ræða samn­ing­inn við Alcoa vegna álvers Fjarðaáls.

Þessi þróun á ekki að koma nein­um á óvart. Um leið hlýt­ur það að vera gleði­efni fyr­ir bæði stór­iðj­una á Ís­landi og aðra um­tals­verða not­end­ur raf­orku hér, að Ís­land hef­ur enn þá sér­stöðu að hér býðst stór­iðju og öðrum fyr­ir­tækjum trygg raf­orka á mjög sam­keppn­is­hæfu verði.


Raunveruleikinn á Norðurskauti

Nú stendur yfir ráð­stefnan Arctic Circle hér í Reykja­vík, þar sem athygl­in bein­ist að Norð­ur­skauts­svæð­inu. Í um­ræð­unni er mik­ið rætt um mik­il­vægi þess að vernda þetta merki­lega og ein­staka svæði. Stað­reynd­in er engu að síð­ur sú að nokkrum mik­il­væg­ustu lönd­un­um sem eiga lög­sögu á svæð­inu, er mjög í mun að nýta auð­lind­ir þeirra svæða sem lög­saga þeirra nær til.

Arctic-Oil-mapÞar er Rússland lík­lega ákaf­ast. Enda er gríð­ar­lega mik­ið af jarð­gasi og olíu að finna á heim­skauta­svæð­um Rúss­lands. Og eftir að Don­ald Trump komst til valda hef­ur Banda­ríkjastjórn einn­ig snú­ið frá vernd­ar­stefnu gagn­vart Alaska og vill opna vernduð ­svæði í Alaska fyrir olíu- og gas­vinnslu.

Enn eitt landið sem á stóra lög­sögu á svæð­inu er Nor­eg­ur og stjórn­völd þar í landi virð­ast áhuga­söm um að nálgast þá gríð­ar­legu olíu sem finna má undir botni Bar­ents­hafs­ins. Vinnsla þar er reynd­ar komin vel af stað og á vafa­lítið bara eftir að auk­ast á kom­andi ár­um og ára­tugum.

Þar að auki þrýsta tvö fjöl­menn­ustu lönd heims­ins á meiri auð­linda­nýt­ingu á Norð­ur­skauts­svæð­un­um, þó þau eigi ekki lög­sögu þar. Bæði Kína og Ind­land tala fyrir auk­inni auð­linda­nýt­ingu á þess­um svæð­um.

Það er senni­lega sterk­ur meiri­hluti með­al þjóða heims­ins fyr­ir því að vernda Norð­ur­skauts­svæð­in. Og í orði kveðnu tala flest­ir þjóð­ar­leið­tog­ar, stjórn­mála­menn og t.a.m. for­stjór­ar stór­fyr­ir­tækja fyrir slíku. Þetta er valda­mik­ill hóp­ur og því mætti ætla að það sé jafn­vel mjög breið sátt um vernd­un Norð­ur­skauts­svæð­anna. En þegar kem­ur að því að sam­þykkja raun­veru­legar að­gerð­ir eða ákvarð­an­ir heima fyr­ir, virð­ist allt ann­að uppi á teningnum.

Arctic-Oil-platforms-offsohreNú um stundir er aug­ljóst að stjórn­völd bæði í Rúss­landi og Banda­ríkj­un­um eru í reynd mjög viljug til að láta auð­linda­nýt­ingu á Norð­ur­slóð­um hafa for­gang fram yfir vernd­un. Og þar fá þau pólí­tísk­an stuðn­ing frá tveim­ur fjöl­menn­ustu ríkj­um heims­ins; Kína og Ind­landi. Þar að auki eru bæði norsk og græn­lensk stjórn­völd áhuga­söm um olíu­vinnslu svo til hvar­vetna í lög­sögu sinni.

Af ríkjun­um sem eiga lög­sög­una á heim­skauta­svæð­un­um í norðri er það ein­ung­is Kan­ada sem nú sýn­ir raun­veru­leg­an pólí­tísk­an vilja til vernd­un­ar þess­ara svæða. Um leið stunda reynd­ar Kanada­menn ein­hverja mest meng­andi olíu­vinnslu heims í Alberta­fylki, þar sem olía er unn­in með óvenju kostn­­ar­söm­um og lítt hag­kvæm­um hætti úr olíu­sandi. Þannig að ekki einu sinni kana­dísk stjórn­völd geta tal­ist sýna sterka vernd­ar­vitund. Þar að auki er mik­ill þrýst­ing­ur frá áhrifa­mikl­um hags­muna­­il­um þar í landi um að Kan­ada hverfi frá vernd­ar­stefnu sinni.

Þegar horft er til alls þess sem að ofan grein­ir virð­ist nokk­uð aug­ljóst að ríkin sem liggja að Norð­ur­skauts­svæð­un­um munu ekki grípa til rót­tækrar vernd­un­ar svæð­is­ins. Enda eru senni­lega a.m.k. einn og jafnvel tveir ára­tugir þar til olíu­eftir­spurn í heim­inum nær há­marki. Og jafn­vel löngu eftir þann tíma­punkt verð­ur vafa­lít­ið mik­il eft­ir­spurn eft­ir olíu­af­urð­um, jafn­vel þó svo raf­bíl­um fjölgi mjög. Hvort heim­skauta­olí­an, sem enn hvíl­ir óhreyfð, verð­ur ábata­söm er óljóst. En áhug­inn á henni (og jarðgasinu) er tví­mæla­laust fyr­ir hendi; ekki síst við strend­ur Sí­beríu, í Bar­ents­hafi og nyrst í Alaska.

Arctic-LNG-transport Arctic Circle er mik­il­væg­ur vett­vang­ur til að koma skila­boð­um á fram­færi og styrkja marg­vís­leg tengsl. Ráð­stefnu­hald­ið allt dregur t.a.m. fram margt gott um meint­an vilja til vernd­un­ar og er öfl­ug­ur vett­vang­ur fyr­ir kynn­ingu á ýmsum vís­inda­rann­sókn­um.

En það er fátt sem bend­ir til þess að þetta skili auk­inni vernd­un Norð­ur­slóða. Þvert á móti mun auð­linda­nýt­ing og skipa­um­ferð á Norð­ur­slóð­um að öllum líkindum auk­ast um­tals­vert á kom­andi ár­um og ára­tug­um. Mik­il­vægt er að við reyn­um að sjá fyrir helstu af­leið­ing­arnar af þeirri at­burða­rás.


Vatnaskil í raforkuöflun

Um langt skeið hefur raforku­fram­leiðsla mann­kyns byggst á kol­vetnis­bruna, nýt­ingu kjarn­orku og nýt­ingu vatns­afls. Kol­vetnis­brun­inn er fyrir­ferða­mestur, þar sem kol og jarð­gas ásamt olíu hafa lengi verið og eru enn mikil­væg­ustu orku­gjaf­arnir til raf­magns­framleiðslu.

Flestum er kunnugt um skyn­semi þess að auka hlut­fall hag­kvæmra orku­gjafa sem valda minni meng­un­ar­hættu og losa minna kol­­oxíð út í and­rúms­loftið.

Þar hefur eink­um vatns­aflið reynst vel, enda eru hér á jörðu fjölda­margir efna­hags­lega hag­kvæmir vatns­afls­kostir. Vatns­aflið er þó tak­mark­að og vegna um­hverfis­áhrifa viljum við ekki nýta alla vatns­afls­kosti. Þar að auki dugar vatns­aflið engan veg­inn til að mæta sí­vax­andi raf­orku­þörf okkar. Jarð­varmi býð­ur enn síð­ur upp á mikla aukn­ingu virkjana. Lengi vel var mjög horft til kjarnorku sem framtíðarorkugjafa. En nýting kjarnorkunnar er um margt flókin og þar að auki hefur þetta reynst dýr tækni.

Það hefur sem sagt reynst erfitt að finna leið til að mæta vaxandi þörf á raforku; leið sem getur bæði talist hagkvæm og hefur lítil neikvæð umhverfisáhrif. Til allrar hamingju hafa fundist tvær mikilvægara lausnir til að mæta vaxandi raforkuþörf. Sem eru sólarorka og vindorka.

Vegna tækni­fram­fara og stærð­ar­hag­kvæmni hefur náðst að lækka kostnað mjög veru­lega í bæði sólar­orku- og vind­orku­tækni á til­tölu­lega skömm­um tíma. Nú er svo kom­ið að nýt­ing vind­orku á svæð­um með góð­ar vind­­stæð­ur er ódýr­asta tækn­in til að auka raf­orku­fram­boð. Og sama má segja um sól­ar­ork­una á þeim svæð­um þar sem sól­geislun er hvað mest.

Að auki bend­ir flest til þess að kostn­­ur­inn í bæði sól og vindi eigi eftir að lækka um­tals­vert á næstu árum. Einnig skipt­ir máli að á síð­ustu árum hef­ur náðst afar góð­ur árang­ur í að byggja stóra og til­tölu­lega ódýra raf­geyma, sem gerir nýt­ingu sólar- og vind­orku enn­þá hag­kvæmari enn ella.

Hreyfiafl-BNEF-raforka-fram-til-2050Að mati Bloomber New Energy Finance (BNEF) ger­ir þessi þró­un það raun­veru­lega mögu­legt að unnt verði að mæta sí­vax­andi raf­orku­þörf mann­kyns með ódýrri end­ur­nýj­an­legri orku, þar sem nýt­ing  sól­ar­orku og vind­orku verð­ur í lykil­hlut­verki (líkt og kem­ur fram á graf­inu hér til hliðar).

Sjálfsagt og eðlilegt er að við Íslend­ing­ar tök­um þátt í þess­ari þró­un og verð­um þann­ig með í að draga úr þörf mann­kyns á sí­vax­andi kol­vetn­is­bruna til raf­orku­fram­leiðslu. Sá sið­ferð­is­legi drif­kraft­ur er þó ekki eina ástæð­an fyrir því að Ísland taki þátt í þess­ari þró­un. Það er nefni­lega svo að vind­­stæð­ur á Ís­landi eru með hag­felld­asta móti til að fram­leiða raf­orku. Nýt­ing ís­lenskrar vind­orku veitir því óvenju góð tæki­færi til að efla efna­hags­lífið hér.

Það eru tæki­færi af þessu tagi sem höf­und­ur sá vera að skap­ast þeg­ar hann byrjaði af alvöru að huga að mögu­legri vind­orku­nýt­ingu á Íslandi. Það var svo fyrr á þessu ári (2019) að vind­orku­fyrir­tækið Zephyr Ice­land hóf starfsemi. Fram­und­an er upp­setn­ing vind­mastra á nokkrum stöð­um á land­inu, til vind­rann­sókna, ásamt ýmsum öðrum rann­sókn­um og athug­un­um á mögu­leikum ís­lenskrar vind­orku.

Í reynd hefur kostnaður vind­ork­unn­ar lækk­að enn­þá hrað­ar en bú­ist var við og um leið hefur sí­fellt blás­ið betur á alþjóða­vett­vangi fyrir meiri nýt­ingu vind­orku til að auka hlut­fall end­ur­nýj­an­legrar orku. Ekki síður áhuga­vert er að nýt­ing vind­orku hentar að ýmsu leyti mjög vel fyrir litla ís­lenska raf­orku­kerfið, því vind­myllu­garðar af hóg­værri stærð eru um margt ein­fald­ari og áhættu­minni verk­efni en nýjar stór­ar vatns­afls­virkj­an­ir eða jarð­varma­virkj­anir. Það blæs sem sagt byr­lega fyrir íslenska vindorku. Og brátt veður meira að frétta af fyrstu verk­efnum Zephyr Iceland.

Höf­undur er fram­kvæmda­stjóri Zephyr á Íslandi


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband