24.7.2018 | 14:04
Vindorkan orðin hagkvæmust
Fyrirtæki sem nota mikið rafmagn leggja eðlilega mikið upp úr því að leita eftir ódýrustu raforkunni. Um leið skiptir það þau miklu ef unnt er að tryggja að rafmagnsverðið rjúki ekki skyndilega upp. Þess vegna hafa slík fyrirtæki löngum sóst eftir langtímasamningum með föstu orkuverði eða að verðið sé tengt þeirra eigin afurðaverði. Þannig draga þau mjög úr áhættu sinni. En nú eru að verða athyglisverðar breytingar í þess háttar viðskiptum, þar sem vindorkan er að leysa vatnsaflið af hólmi sem hagkvæmasti kosturinn fyrir stóra raforkunotendur.
Frá vatnsafli til vindorku
Sögulega hafa samningar af þessu tagi, þ.e. um hagstætt raforkuverð til langs tíma, einkum verið við fyrirtæki sem reka stórar vatnsaflsvirkjanir. Slíkar virkjanir hafa boðið upp á það að selja raforku á hvað lægstu verði og það til langs tíma. Í dag er staðan aftur á móti víða orðin sú að vatnsaflsfyrirtæki sjá sér fremur hag í því að selja framleiðslu sína inn á almennan markað. Þess í stað eru það vindorkufyrirtæki sem nú bjóða oft hagkvæmustu samningana fyrir stórnotendur. Þetta er algerlega nýr raunveruleiki og mun vafalítið hafa veruleg áhrif á raforkuviðskipti víða um heim á komandi árum.
Norræn fyrirtæki í fararbroddi
Það eru sem sagt nýir vindmyllugarðar sem nú bjóða hagkvæmustu langtímasamningana í raforkuviðskiptum. Þetta á einkum við í Evrópu en þekkist þó víðar um heiminn. Þarna hafa norræn orkufyrirtæki verið brautryðjendur og einnig hafa svona samningar orðið algengari í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum.
Lengsti vindorkusamningurinn til þessa er til 29 ára
Bestu norrænu dæmin um svona langtímasamninga vindorkufyrirtækja og stórnotenda um raforkuviðskipti er raforkusala til álfyrirtækja í Noregi. Þar hafa bæði Alcoa og Norsk Hydro verið að gera samninga um kaup á miklu orkumagni frá vindmyllugörðum í Noregi og Svíþjóð. Nýjasti samningurinn af þessu tagi er jafnframt sá sem var að slá met í gildistíma. Þar samdi Norsk Hydro um kaup á nálægt 800 GWst árlega frá 235 MW vindmyllugarði í Svíþjóð.
Það er til marks um umfang þessa samnings að hann samsvarar um 75% af allri raforkunotkun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Og þessi nýjasti stóri vindorkusamningur í Skandinavíu er vel að merkja í takti við ýmsa aðra svipaða samninga sem gerðir hafa verið undanfarin misseri, nema hvað samningstíminn þarna er óvenju langur eða 29 ár. Talið er að þetta sé lengsti samningur um kaup á vindorku sem gerður hefur verið í heiminum til þessa.
Þróunin á Íslandi kann að verða svipuð
Þessi langi samningstími er mjög táknrænn fyrir það að tæknin í vindorkunni er ekki aðeins að verða sífellt betri og ódýrari, heldur eru vindmyllurnar líka að verða einfaldari í viðhaldi. Nú eru vindmyllugarðar sem sagt álitnir bæði hagkvæmir og lítt áhættusamir í rekstri.
Til að unnt sé að nýta ódýra vindorku í miklum mæli þurfa að vera fyrir hendi raforkuver sem geta jafnað út framleiðslusveiflur vindmyllugarða. Í sumum löndum eru það einkum gasorkuver sem eru í því hlutverki, en í Noregi og Svíþjóð eru það stóru vatnsaflsfyrirtækin sem sjá sér hag í því að sinna þessum hluta raforkumarkaðarins.
Með svipuðum hætti og hjá norrænu frændum okkar er líklegt að stóra íslenska vatnsaflsfyrirtækið, Landsvirkjun, sjái hag í svona viðskiptum. Það gæti bæði gerst með því að fyrirtækið reisi sína eigin vindmyllugarða og komi að samningum við önnur fyrirtæki um vindorkuviðskipti og/eða verði í hlutverki varafls. Þarna eru ýmsir áhugaverðir möguleikar.
Vegna einangrunar íslenska raforkumarkaðarins er sennilegt að hér verði þróunin ekki alveg með sama hætti og í Skandínavíu. En það er næsta víst að lækkandi kostnaður vindorkunnar muni óhjákvæmilega hafa áhrif á orkumarkaðinn hér, rétt eins og annars staðar.
Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnur m.a. að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2018 | 09:10
Lögmál Ørsteds
Gömlu norrænu olíufyrirtækin eru skyndilega horfin. Að vísu ekki rekstur þeirra, heldur nöfnin. Fyrirtækið Statoil er ekki lengur til. Því nafni þessa norska olíurisa var nýverið breytt og heitir þetta tíunda stærsta olíu- og jarðgasfyrirtæki heimsins á hlutabréfamarkaði nú Equinor.
Hitt rótgróna norræna olíufyrirtækið, sem nú hefur skipt um nafn, er danska Dong Energi. Hér verður staldrað við vendingar Dong, sem nú hyggst alfarið kveðja skítugu kolvetnisorkuna og einbeita sér að grænni framtíð á alþjóðlegum markaði. Undir nýju perudönsku nafni; Ørsted!
Kolsvarta DONG
Danir fóru aðra leið en Norðmenn þegar olíuævintýrið byrjaði í Norðursjó fyrir næstum hálfri öld. Í stað þess að ríkisfyrirtæki yrði leiðandi í dönsku vinnslunni, líkt og Statoil varð í Noregi, var það einkafyrirtækið A.P. Møller Mærsk sem þar varð leiðandi. Engu að síður vildi danska ríkið líka stússa í vinnslu á svarta gullinu og fór sá rekstur fram undir merkjum Dansk olie og naturgas; síðar kennt við skammstöfunina Dong (sem mun reyndar eiga að skrifa með hástöfum; DONG).
Norska Statoil varð miklu stærra olíufyrirtæki en danska Dong og var svo skráð á hlutabréfamarkað, meðan Dong var áfram hefðbundnara ríkisfyrirtæki. Ýmislegt fleira hefur verið ólíkt með þessum norrænu fyrirtækjum og þá m.a. það að Dong var og er umsvifamikið í raforkuframleiðslu. Þar er fyrirtækið í yfirburðastöðu á danska raforkumarkaðnum. Lengst af var mestöll raforka Dong framleidd í fjölda kolaorkuvera og því má segja að öll kjarnastarfsemi fyrirtækisins hafi byggst á kolsvörtum kolvetnisbruna.
Danir virkja vindinn
Í kjölfar olíukreppunnar á 8. áratugnum fóru Danir að leita leiða til að verða sjálfbærari um orku. Það er þá sem danska fyrirtækið Vestas byrjar að hanna og þróa lilar vindmyllur. Og þar liggja rætur þess að í dag er Vestas einn stærsti vindmylluframleiðandi heimsins.
Annað dæmi um hugvit og verktækni Dana í vindorkunni er fyrirtækið LM Wind Power (áður LM Glasfiber). Þar þróaðist framleiðslan frá bátum og skútum yfir í vindmylluspaða og í dag er LM Wind Power í fararbroddi í framleiðslu stærstu vindmylluspaðanna. Fyrirtækið var selt til vindorkuarms risafyrirtækisins General Electric árið 2017.
Frá olíu og kolum yfir í vindorku
Eftir því sem vindorkutæknin þróaðist tók orkufyrirtækið Dong að setja upp vindmyllur í Danmörku og smám saman vann vindorkan á sem umtalsverður hluti raforkuframleiðslu Dong. Um 1990 reisti fyrirtækið fyrsta vindmyllugarð heims úti í sjó, við strönd dönsku eyjarinnar Lolland. Þar var afl hverrar vindmyllu 0,45 MW, sem er t.d. helmingi minna en vindmyllur Landsvirkjunar sem standa á Hafinu ofan við Búrfell. Það er ekki fyrr á síðustu tveimur áratugum sem byrjað er að framleiða það sem kalla má stórar nútímalegar vindmyllur, þar sem afl hverrar myllu er nokkur megavött (MW).
Dong varð sem sagt frumkvöðull í að nýta vindorkuna úti í sjó og í dag einbeitir Ørsted sér að slíkum stórum vindmyllugörðum. Það er nú stærsta fyrirtæki heims í þeim bransa og ætlar héðan í frá alfarið að einbeita sér að endurnýjanlegri orku. Meðal núverandi verkefna fyrirtækisins er s.k. Hornsea Wind verkefni á grynningunum utan við Jórvíkurskíri á Englandi. Fullbyggður á þessi risavaxni vindmyllugarður að verða allt að 6.000 MW. Dong, þ.e. Ørsted, er þó vel að merkja enn með mörg kolaorkuver í rekstri og ekki ráðgert þeim öllum verði lokað. Þess í stað stendur til að umbreyta þeim í lifmassaorkuver.
Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe kaupir dönsku ríkisolíuna
Olíuverðlækkunin sem varð í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008 kom mjög illa við ríkisfyrirtækið Dong Energi. Upp úr því ákvað danska ríkisstjórnin að selja hluta félagsins og skrá það á hlutabréfamarkað. Þetta gerðist með sölu á um fimmtungshlut í Dong til bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs árið 2013 og skráningu félagsins á markað í framhaldi þeirrar sölu. Þessi viðskipti við Goldman Sachs voru umdeild og ekki síður hvernig sumir stjórnendur Dong högnuðust hressilega á sölunni. En það er önnur saga.
Í kjölfar þessara viðskipta með ríkisfyrirtækið Dong var svo stigið það grundvallarskref að selja alla olíu- og gasvinnslu fyrirtækisins. Og sá sem keypti herlegheitin var enginn annar en Jim Ratcliffe, þ.e. fyrirtæki hans Ineos. Sá hinn sami og hefur verið stórtækur í jarðakaupum austur á landi, en Ratcliffe mun nú vera ríkasti einstaklingur á Bretlandi.
Alþjóðlega vindorkufyrirtækið Ørsted
Nýjasta vendingin hjá DONG var að fylgja áherslubreytingu sinni eftir með því að breyta nafni fyrirtækisins og taka upp hið þjála (sic) nafn Ørsted. Kannski má þó segja að Ørsted sé skemmtilegra og efnismeira nafn en hið ósjarmerandi nýja nafn Statoil; Equinor.
Nýja nafnið vísar til danska vísindamannsins Hans Christian Ørsted. Margir Íslendingar kannast sjálfsagt við það nafn úr ferðum sínum til Kóngsins Köben, þar sem við höfum bæði H.C. Ørstedsvej og Ørstedsparken! Utan Danmerkur er Ørsted þó sennilegar þekktastur fyrir lögmál sitt um hvernig segulsvið myndast umhverfis rafmagnsleiðara.
Og nú er Ørsted sem sagt heiðraður með því að stærsta orkufyrirtæki Danmerkur tekur upp nafn hans. Afkomendur gamla H.C. Ørsted eru reyndar lítt hrifnir af því að fyrirtæki úti í bæ taki nafn þeirra þannig traustataki. En hvað sem því líður, þá mega Danir eiga það að þeir standa mjög framarlega í margvíslegri tækni og þekkingu og það verður spennandi að fylgjast með hvernig Ørsted mun þróast og dafna.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)