12.8.2020 | 08:40
Rio Tinto kvartar undan gagnkvæmum ávinningi
Álrisinn Rio Tinto álítur að taka þurfi á misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu sinni á íslenskum raforkumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu um kvörtun fyrirtækisins til Samkeppniseftirlitsins.
Óskin um að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar
Í umræddri tilkynningu Rio Tinto endurómar sá tónn sem Samtök iðnaðarins hafa slegið um nokkurt skeið, þess efnis að Landsvirkjun sé með of stóra hlutdeild á raforkumarkaðnum og jafnvel beri að skipta orkufyrirtækinu upp. M.ö.o. þá miðar kvörtun Rio Tinto augljóslega að því að þrengja að tækifærum Landsvirkjunar til að hafa áhrif á raforkuverð til stóriðju. Og vafalítið myndi Rio Tinto helst vilja að Landsvirkjun yrði skipt upp, þ.a. samningsstaða orkufyrirtækisins myndi veikast frá því sem verið hefur.
Eiga álverin rétt á einu og sama botnorkuverðinu?
Fréttatilkynning Rio Tinto vegna kvörtunarinnar til Samkeppniseftirlitsins er mjög almennt orðuð og einkennist af órökstuddum fullyrðingum. Þar er enga tilvísun að finna til viðeigandi lagaákvæða sem álfyrirtækið virðist álíta að Landsvirkjun brjóti gegn. Fyrir utanaðkomandi er því erfitt að meta hvernig Samkeppniseftirlitið mun taka á kvörtuninni. En miðað við fréttatilkynninguna er einkum kvartað vegna eftirfarandi tveggja meginatriða:
- Að verðlagning Landsvirkjunar á raforku feli í sér óréttlætanlega mismunun og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Álverið í Straumsvík (ISAL) greiði umtalsvert hærra raforkuverð en aðrir álframleiðendur á Íslandi og þar með skaði Landsvirkjun samkeppnisstöðu ISAL. Af þessu virðist sem Rio Tinto álíti að öll álverin þrjú, sem hér starfa, eigi að greiða Landsvirkjun sama raforkuverð. Og þá líklega jafnt því verði sem lægst er hverju sinni (sem þessa dagana er raforkuverðið til Norðuráls, vegna verðtengingar við Nord Pool og lágt markaðsverð þar nú um stundir).
- Að langtímaorkusamningar bindi viðskiptavini Landsvirkjunar yfir langt tímabil, sem komi í veg fyrir að aðrir raforkuframleiðendur annað hvort komist inn á markaðinn eða auki framleiðslu sína. Af þessu virðist sem Rio Tinto álíti að með því að gera langtímasamninga við álver (og aðra stórnotendur) brjóti Landsvirkjun gegn öðrum raforkuframleiðendum á Íslandi og að langtímasamningar Landsvirkjunar séu þess eðlis að þeir séu andstæðir samkeppnislögum.
Loks kemur fram í fréttatilkynningunni um kvörtunina að Rio Tinto geti ekki haldið áfram að framleiða ál á Íslandi nema verðlagning Landsvirkjunar á raforku verði gegnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf. Ef Landsvirkjun láti ekki af misnotkun sinni eigi ISAL ekki annan kost en að íhuga uppsögn raforkusamningsins og hefja undirbúning að lokun álversins.
Hvað gerir Samkeppniseftirlitið?
Greinarhöfundur bíður þess auðvitað með nokkurri eftirvæntingu að sjá hvernig Samkeppniseftirlitið muni taka á kvörtun Rio Tinto. Fyrir allt áhugafólk um íslenskan og evrópskan samkeppnisrétt hlýtur þessi kvörtun að vera athyglisverð.
Ef Samkeppniseftirlitið myndi fallast á öll þau meginsjónarmið Rio Tinto sem nefnd eru hér að ofan yrðu sennilega allir raforkumarkaðir innan EES og ESB í nokkru uppnámi. Því þar tíðkast jú ýmiskonar samningar um raforkukaup til lengri og skemmri tíma, auk þess sem margskonar og mismunandi raforkuverð er í boði bæði til stærri og smærri raforkukaupenda.
Þarna er því líklega á brattan að sækja hjá álrisanum. Þar með er samt kannski ekki útilokað að Samkeppniseftirlitið geri einhverja athugasemd við fyrirkomulagið hér. En þó varla svo að það breyti miklu fyrir rekstur Rio Tinto á álveri ISAL í Straumsvík.
Á gagnkvæmur ávinningur ekki lengur við?
Það er óneitanlega nokkuð óvænt að nú árið 2020 álíti Rio Tinto allt í einu að raforkusamningurinn sem fyrirtækið átti frumkvæði að og gerði við Landsvirkjun árið 2010 (og var breytt árið 2014 að ósk álfyrirtækisins) hafi alls ekki uppfyllt samkeppnislög. Áðurnefnd sjónarmið og kvörtun Rio Tinto verða svo alveg sérstaklega umhugsunarverð þegar horft er til þess hvernig samningnum 2010 og viðbótarsamkomulaginu 2014 var lýst, en þá birti álverið eftirfarandi (leturbreyting er greinarhöfundar):
Í ljósi þessara yfirlýsinga forstjórans í Straumsvík 2010 og 2014 myndi kannski einhver segja að nú sé Rio Tinto að kvarta til Samkeppniseftirlitsins yfir sterkum stoðum álversins og gagnkvæmum umsömdum ávinningi Rio Tinto og Landsvirkjunar. Kvörtunin núna er a.m.k. varla í samræmi við fyrri yfirlýsingar álfyrirtækisins.
Landsvirkjun getur ekki tekið alla áhættuna
Rio Tinto er vissulega nokkur vorkunn, því það er augljóst að væntingar fyrirtækisins frá 2010 og 2014 um þróun álverðs hafa ekki gengið eftir. En þar er engum um að kenna nema þeim stjórnendum álfyrirtækisins sem sáu um og samþykktu samningana við Landsvirkjun 2010 og 2014, þegar þeir hinir sömu hefðu kannski átt að vera hófsamari í framtíðarsýn sinni um álverð.
Ef að álverð hefði rokið upp hefði það vel að merkja verið Landsvirkjun sem sæti nú svekkt með að hafa ekki samið betur. En þarna eru báðir aðilarnir í þeirri stöðu að þurfa að efna samningana og það hljóta bæði Landsvirkjun og Rio Tinto að gera.
Það blasir líka við að ef lækka á raforkuverðið til Rio Tinto vegna breyttra forsenda í formi lágs álverðs, má með sama hætti segja að orkuverð Landsvirkjunar til Alcoa, þ.e. Fjarðaáls, ætti að hækka vegna sömu forsendubreytinga. Þarna geta því komið upp ýmis konar sanngirnissjónarmið. Eftir stendur að samningar skulu standa og það er líka augljóst að gæta verður að sanngirni gagnvart Landsvirkjun ef uppi er forsendubrestur vegna lækkunar álverðs.
Straumsvík segist svikin um afslátt
Vert er einnig að nefna þann óvenjulega atburð nú síðast, þegar Rio Tinto og/eða ISAL gerði ágreining um það hvort Landsvirkjun hafi í reynd veitt álfyrirtækinu þann tímabundna afslátt af raforkuverði sem orkufyrirtækið ákvað einhliða að skyldi gilda frá byrjun maí til loka október á þessu ár (2020). Það væri auðvitað mjög furðulegt ef Landsvirkjun stæði ekki við yfirlýsingu sína um tímabundinn afslátt. Enda hefur orkufyrirtækið sagt að það sé rangt að Rio Tinto hafi ekki fengið afsláttinn. Hvorki ISAL né Rio Tinto hafa neitað þeirri fullyrðingu Landsvirkjunar, þ.a. það lítur út fyrir að þarna hafi álfyrirtækið beinlínis farið með rangt mál.
Er stóriðja á Íslandi samkeppnishæf eða ekki?
Áhugavert verður að sjá hvernig málið þróast þegar Franhaufer mun loks skila skýrslu sinni um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Það er sannarlega enginn lognmolla þessa dagana í íslenska raforkugeiranum. Enda er hin endurnýjanlega, hagkvæma og örugga íslenska orka mjög eftirsóknarverð. Vissulega er samt offramleiðsla af áli í Kína að valda vandræðum. En það er því miður eitthvað sem hvorki Landsvirkjun né Ísland hafa á sínu valdi.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.