8.3.2020 | 11:05
Tekist á um 200 milljarða króna i Straumsvík
Risafyrirtækið Rio Tinto segist íhuga stöðu og jafnvel lokun álversins í Straumsvík. Vegna þess að álverið sé ekki samkeppnishæft og verði það ekki nema álverð hækki eða raforkuverð álversins lækki. Þar sem raforkusamningur álfyrirtækisins og Landsvirkjunar kveður á um háa kaupskyldu álversins á rafmagni og tilteknar ábyrgðir Rio Tinto þar að lútandi, eru þó sennilega meiri líkur en minni á því að álverið haldi áfram starfsemi. Þarna er þó ekkert öruggt.
Hvort sem álverið í Straumsvík er að fara að loka eður ei, er rétt að hafa í huga að offramboð af áli í heiminum er staðreynd. Og það offramboð virðist langvarandi. Offramboðið núna má fyrst og fremst rekja til Kína, þar sem álver hafa verið reist hraðar en sem nemur vexti í álnotkun. Ein afleiðing þessa offramboðs er að mörgum álverum utan Kína hefur verið lokað, svo sem í Bandaríkjunum. Enn er samt fátt sem bendir til þess að álverð muni hækka á næstunni. Þvert á móti virðist líklegra að offramboð af áli í Kína haldi enn áfram að aukast.
Ísland er stærsti álframleiðandi heims miðað við höfðatölu og vegna offjárfestinga í álverum í Kína er orðið mun áhættusamara en áður að reiða sig á álver sem orkukaupendur. Það er alls ekki öruggt að stærstu orkufyrirtækin í eigu okkar Íslendinga, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, geti áfram um langa framtíð selt stærstan hluta raforkuframleiðslu sinnar til álvera.
Samkvæmt orkusamningi Landsvirkjunar við álver Rio Tinto í Straumsvík ber orkufyrirtækinu að útvega álverinu raforku allt fram til ársins 2036. Raforkan sem fer til Straumsvíkur er á bilinu 20-25% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Fyrir fáeinum árum námu tekjurnar af þessum viðskiptum Landsvirkjunar og álfyrirtækisins um þriðjungi raforkutekna Landsvirkjunar. Í kjölfar tjóns í einum kerskála álversins um mitt síðasta ár (2019) minnkuðu viðskiptin og nema nú um fjórðungi allra tekna orkufyrirtækisins af raforkusölu. Sbr. taflan hér til hliðar.
Þarna er um mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir bæði Landsvirkjun og Rio Tinto. Verðmæti raforkusamnings fyrirtækjanna, sem er að uppistöðu frá 2010, nemur um 250-300 milljörðum króna að núvirði, þ.e. samanlagðar tekjur Landsvirkjunar og Landsnets af samningnum allan samningstímann. Þar af eiga um 150-200 milljarðar króna eftir að greiðast vegna samningstímans fram til 2036. Og það vel að merkja allt í beinhörðum erlendum gjaldeyri!
Álver nota gríðarlega mikið af raforku; eru s.k. stórnotendur eða stóriðja. Ef álver dregur verulega úr framleiðslu sinni eða lokar tekur langan tíma að t.a.m. nægjanlega mörg gagnaver rísi til að geta leyst álver af hólmi í raforkunotkun. Og meira að segja nýtt kísilver dugar þar skammt. Langvarandi offramboð af áli og sú staðreynd að stórfyrirtækið Rio Tinto skuli nú alvarlega íhuga lokun álversins í Stramsvík ætti að sýna okkur Íslendingum öllum hversu mikilvægt það er að Landsvirkjun eigi sem greiðastan aðgang að góðum og fjölbreyttum hópi viðskiptavina.
Í reynd er fyrst og fremst einn möguleiki sem gæti skapað ámóta eftirspurn eftir raforku Landsvirkjunar eins og álver gerir. Sem er sala á grænni orku um sæstreng til Evrópu. Það að Rio Tinto gefur nú í skyn að fyrirtækið hyggist mögulega gefast upp gagnvart offramboði á kínversu áli er mikilvæg áminning. Áminning um að hugað sé að nýjum stórum kaupanda að hluta þeirrar miklu endurnýjanlegu orku sem opinberu orkufyrirtækin, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, framleiða í virkjunum sínum.
Mögulega sér Rio Tinto að sér og tryggir farsæla starfsemi álversins í Straumsvík enn um langa framtíð. En í ljósi þess að kínverskur álútflutningur er líklegur til að halda áfram að vaxa, kann að vera að álverinu verði lokað, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Það væri því skynsamlegt að íslensk stjórnvöld leggi aukinn kraft í að kanna sæstrengsverkefnið. Þetta mál snýst um afar mikilvæga viðskiptahagsmuni okkar sem þjóðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.