9.8.2019 | 13:40
Ísland ræður sæstrengjum
Evrópusambandið byggir á viðamiklum samningum og öðrum réttarheimildum. Oft er lagatextinn flókinn og ekki augljóst hvernig á að túlka hann. Þetta á auðvitað líka við um íslenska löggjöf. Þess vegna þarf stundum að koma til kasta dómstóla. Sum meint ágreiningsefni eru þó þannig vaxin að einfalt er að sjá hver hinn rétti skilningur er.
Í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á reglum s.k. þriðja orkupakka hefur stundum heyrst að ef Ísland hafni því að veita raforkusæstreng frá Evrópu aðgang að Íslandi, geti það reynst brot á reglum sem eru skuldbindandi fyrir Ísland vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þetta er einfaldlega rangt. Íslandi er í sjálfsvald sett hvort slíkur sæstrengur yrði leyfður eða ekki.
Þetta kemur t.a.m. með skýrum hætti fram í Samningnum um starfshætti Evrópusambandsins (Treaty on the functioning of the European Union; TFEU). Í þessu sambandi má vísa í 194. gr. umrædds samnings, þar sem segir að skipan orkumála hvers aðildarríkis sé í þess höndum.
Hvorki samningar Evrópusambandsins, samningurinn um EES, þriðji orkupakkinn, reglurnar um frjáls vöru-og þjónustuviðskipti, né aðrar réttarheimildir Evrópuréttarins breyta neinu um þetta.
Sem sagt: Hvort Ísland ákveður að tengjast öðru Evrópulandi með sæstreng til raforkuflutninga er alfarið í höndum Íslendingra sjálfra. Eða öllu heldur á valdi Alþingis. Um þetta er enginn vafi.
Höfundur vinnur að raforkuverkefnum á Íslandi. Þau verkefni eru algerlega óháð því hvort þriðji orkupakkinn verður afgreiddur á Alþingi eður ei.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.