26.7.2019 | 07:37
Fáfnir Viking verður Atlantic Harrier
Nú sér líklega loksins fyrir endann á sorgarsögunni um þjónustuskipið Fáfni Viking. Íslenska fyrirtækið Fáfnir Offshore pantaði á sínum tíma smíði á tveimur glæsilegum þjónustuskipum fyrir olíuiðnaðinn. Þar var samið við norsku skipasmíðastöðina Havyard í Fosnavogi. En varla var blekið þornað á þeim samningum þegar ljóst varð að sú fjárfesting íslenskra einkaaðila og lífeyrissjóða kæmi ekki til með að ganga upp.
Fáfnir Offshore tók við fyrra skipinu, Polarsyssel, árið 2014 og lenti strax í vandræðum með reksturinn vegna ónógra verkefna fyrir skipið. Brátt varð ljóst að ekki yrði unnt að greiða að fullu fyrir smíði á hinu skipinu, sem hafði verið kallað Fáfnir Viking.
Stjórn Fáfnis Offshore ákvað að fá smíðinni seinkað og greiða tafabætur til skipasmíðastöðvarinnar. Um leið fékkst heimild Havyard til að færa ábyrgðina vegna pöntunar skipsins frá Fáfni Offshore yfir í nýtt dótturfélag, sem nefnt var Polar Maritime. Vanefndir íslenska fyrirtækisins urðu svo til þess að í upphafi árs 2017 rifti Havyard smíðasamningnum.
Síðan þá hefur skrokkurinn af Fáfni Viking legið í reiðuleysi í Noregi, en þangað var hann dreginn frá Tyrklandi þar sem smíðin átti sér stað. Það var svo loks fyrr á þessu ári (2019) að tilkynnt var að kaupandi hafði fundist að skrokknum. Og nú hefur verið tilkynnt um að þar á ferð sé kanadíska þjónustuskipaútgerðin Atlantic Towing.
Kanadíska félagið fær fullbúið skipið afhent á næsta ári (2020) og fær það nafnið Atlantic Harrier. Af ýmsum tilkynningum um viðskiptin má ráða að kanadíska félagið fái skipið ódýrt, en um leið lágmarkar Havyard tjón sitt af því að sitja uppi með skipsskrokkinn ennþá lengur. Og nú er þessari dapurlegu viðskiptasögu vegna smíði Fáfnis Viking vonandi endanlega lokið.
Hvort íslenskt olíuævintýri vaknar á ný mun tíminn leiða í ljós. En það er augljóst að íslenska útrásin í þessum geira olíuvinnsluþjónustu og útgerðar varð því miður ekki til fjár. Og því tæplega jafn spennandi verkefni eins og sumir bankamenn hér fullyrtu síðla árs 2014.
Lærdómurinn af þessu hlýtur að vera sá að Íslendingar og aðrir eiga að fara alveg sérstaklega varlega þegar ráðist er i fjárfestingar í starfsemi sem viðkomandi hafa litla sem enga reynslu af. Um leið er mikilvægt fyrir Ísland að horfa til nýrra tækifæra. En þá þarf fagmennska og aðgætni að vera í fyrirrúmi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.