2.8.2018 | 11:17
Statoil orðið Jafnaðarnorður
Heimurinn er að breytast og líka Statoil. Sagði stjórnarformaður Statoil í mars s.l. þegar hann tilkynnti að senn fengi þetta stærsta fyrirtæki Norðurlandanna nýtt nafn. Sumir héldu jafnvel að um snemmborið aprílgabb væri að ræða. Hér er fjallað um þessa óvæntu nafnabreytingu og nýjar áherslur fyrirtækisins um að stórauka fjárfestingar í endurnýjanlegri orku.
Já - það kom mörgum á óvart þegar norski olíurisinn Statoil tilkynnti að fyrirtækið myndi brátt breyta um nafn og taka upp nafnið Equinor. Nýja nafnið tók formlega gildi með samþykkt aðalfundar Statoil um miðjan maí s.l. og þar með hætti nafn fyrirtækisins að endurspegla olíu og ríkiseign. Að sögn ljúflinganna hjá Statoil vísar nýja nafnið annars vegar til jöfnuðar (equi) og hins vegar til Noregs (nor) og er af þeirra hálfu sagt að þetta nýja nafn endurspegli vel bæði arfleifð og framtíðaráherslur fyrirtækisins. Þarna var þó augljóslega ekki farin jafn þjóðleg leið við nafnabreytinguna eins og þegar nafni danska orkufyrirtækisins Dong Energi var nýlega breytt í Ørsted.
Mögulega mætti þýða nýja nafnið Equinor sem Jafnaðarnorður? Um aðdraganda nafnabreytingarinnar er það að segja að undanfarin ár hefur Statoil m.a. verið að hasla sér völl í beislun vindorku á hafi úti. Fyrirtækið á nú þegar þrjá stóra vindmyllugarða við strendur Bretlands og er með fleiri í undirbúningi.
Einn af þessum vindmyllugörðum er Hywind, um 30 km utan við bæinn Peterhead í Skotlandi. Hywind hefur þá miklu sérstöðu að þar eru risavaxnar vindmyllurnar ekki festar í hafsbotninn, heldur eru þær fljótandi og liggja fyrir akkerum! Þetta er mikið frumkvöðlaverkefni og það er ekki síst þessi útfærsla á orkuframleiðslu sem Statoil - og nú Equinor - hyggst veðja á í framtíðinni. Auk þess auðvitað að halda áfram að vinna olíu og gas handa okkur að brenna.
Ennþá er það nær eingöngu vindorkan úti í sjó sem Equinor sinnir auk gömlu kjarnastarfseminnar. Nýlega byrjaði fyirtækið þó að höndla með raforku, þ.e. kaupa og selja rafmagn á norrænum raforkumarkaði. Áhugavert verður að sjá hvernig sú starfsemi Equinor mun þróast. Á komandi árum og áratugum er svo fyrirhugað að Equinor stórauki fjárfestingar í margvíslegri endurnýjanlegri orku.
Rétt er að taka fram að olíu- og gasvinnslan er áfram algert hryggjarstykki í starfsemi Equinor og allt annað nánast smáatriði í rekstrinum. Og það eru heldur engar grundvallarbreytingar að verða í eignarhaldi fyrirtækisins, þar sem norska ríkið er með sterkan meirihluta (2/3). Það er því kannski ekki að undra að sumum þyki nafnabreytingin óþarfi og jafnvel furðuleg. Einhver sagði nýja nafnið sæma betur ævintýrahesti í Game of Thrones fremur en þessu mikilvæga og gamalgróna fyrirtæki í norsku efnahagslífi.
Þess má í lokin geta að kostnaður vegna nafnabreytingarinnar er sagður hafa numið sem samsvarar um þremur milljörðum íslenskra króna. Kannski má segja að þetta séu algerir smáaurar í veltu Equinor, því til samanburðar voru heildartekjur fyrirtækisins fyrsta ársfjórðunginn með nýja nafnið, um 18 milljarðar USD eða sem nemur um 1.900 milljörðum íslenskra króna. Þriggja mánaða tekjur Equinor eru sem sagt meira en tvöfaldar árstekjur íslenska ríkisins!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 6.8.2018 kl. 12:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.