Hækkandi raforkuverð til stóriðju

Á nýlega afstöðnum ársfundi Lands­virkj­unar var til­kynnt að fyrir­tæk­ið hefði skil­aði met­tekj­um vegna rekstrar­árs­ins 2018. Líkt og grein­ar­höf­und­ur hafði áður spáð fyrir. Á fund­in­um kom einn­ig fram af hálfu Lands­virkj­unar að vind­orka á Ís­landi sé sam­keppn­is­hæf. Eins og grein­ar­höf­und­ur hafði áður lýst. Fram að þessu hafði Landsvirkjun látið nægja að segja að vind­orkan sé „að verða“ sam­keppn­is­hæf. Þarna var því um að ræða tíma­móta­yfir­lýs­ingu af hálfu Landsvirkjunar, um hagkvæmni vindorku.

Mikilvæg ástæða þess að tekj­ur Lands­virkj­un­ar slógu met árið 2018 og voru hærri það ár en 2017, er að meðal­verð á áli var hærra 2018 en árið á und­an. Þeg­ar horft er til 2019 er mögu­legt að ál­verð á þessu yfir­stand­andi ári verði eitt­hvað lægra en var 2018. Það myndi samt ekki endi­lega valda því að tekj­ur Lands­virkj­unar sígi mikið nið­ur á við. Því síðar á þessu ári, þ.e. 2019, mun raf­orku­verð Lands­virkj­unar til álvers Norð­ur­áls hækka verul­ega.

Í þess­ari grein er fjallað um þess­a þró­un. Og um leið bent á að auk­in nýt­ing vind­orku er­lend­is gæti senn farið að hafa áhrif á sam­keppn­is­hæfni ís­lenska raf­orku­mark­aðarins. Þetta segir okkur að senni­lega er virkun ís­lenskrar vind­orku bein­lín­is nauð­syn­leg til að við­halda sterkri sam­keppn­is­stöðu Ís­lands m.t.t. raf­orku.

Nýi raforkusamningurinn tekur gildi á þessu ári (2019)

Álver Norðuráls á Grundar­tanga, í eigu Cent­ury Alu­min­um, fær um þriðj­ung raf­orku sinn­ar frá Lands­virkj­un (LV). Gera má ráð fyrir að á liðnu ári (2018) hafi Norð­ur­ál greitt LV ná­lægt 25 USD/MWst fyrir rafmagnið. Flutn­ings­kostn­að­ur er þá með tal­inn, en þann kostn­að greið­ir LV til Lands­nets. Nettó­verð­ið sem LV fékk fyrir raf­ork­una til Norð­ur­áls í orku­við­skipt­um fyrir­tækj­anna árið 2018 var því ná­lægt 20 USD/MWst.

Síðar á þessu ári (2019) tekur gildi nýr raf­orku­samn­ingur Norð­ur­áls og LV. Þar er verð­lagn­ingin á raf­magn­inu gjör­breytt frá eldri samn­ingi fyrir­tækj­anna, sem er um tutt­ugu ára gamall. Eft­ir að nýi samn­ing­ur­inn geng­ur í gildi nú í haust, má gera ráð fyrir mikilli hækk­un á raf­orku­verð­i LV til Norð­ur­áls. Hversu mikil verð­hækk­un­in í þess­um við­skipt­um fyrir­tæk­janna verð­ur ræðst af þró­un raf­orku­verðs á norræna raf­orku­markaðnum; Nord Pool Spot. Þar hef­ur orku­verð­ið ver­ið nokk­uð hátt und­an­farna mán­uði, eink­um vegna þurrka í Nor­egi, en hvern­ig það mun þró­ast er óvíst.

Raforkukostnaður Norðuráls kann að tvöfaldast

Samkvæmt upplýsingum frá LV hljóð­ar nýi samn­ing­ur­inn við Norð­ur­ál upp á verð sem er bein­tengt verð­inu á norræna raf­orku­mark­aðnum, en þó með ein­hverjum af­slætti frá því verði. Með­al­verð­ið á norræna raf­orku­mark­aðnum 2018 var um 44 EUR/MWst, sem jafn­gildir rúmlega 50 USD/MWst m.v. með­al­gengi gjald­miðl­anna það ár. Og frá áramótunum síðustu hefur orkuverðið þarna á norræna raf­orku­mark­aðnum verið enn hærra en var 2018. Og væri mögulega enn­þá hærra ef Skandinavía hefði ekki teng­ing­ar sínar við fleiri lönd.

Eins og áður sagði gerir nýi raf­orku­samn­ing­ur­inn milli LV og Norð­ur­áls ráð fyrir ein­hverjum af­slætti frá norræna orku­verð­inu. Ef nýi samningurinn hefði verið kom­inn í gildi 2018 og afslátturinn nemur í nágrenni við 10-15%, má gera ráð fyr­ir að raf­orku­verð LV til Norð­ur­áls á því ári hefði ver­ið u.þ.b. 40-45 USD/MWst. M.ö.o. þá hefði raf­orku­verð LV til Norð­ur­áls á síð­asta ári mögu­lega ver­ið u.þ.b. tvö­falt það sem var í reynd, ef nýi samn­ing­ur­inn hefði ver­ið kom­inn í gildi þá.

Arðgreiðslugeta Landsvirkjunar eykst verulega

Þessi nýi samn­ing­ur milli LV og Norð­ur­áls tekur ekki gildi fyrr en síðla þetta ár (2019). Samn­ingurinn mun auka tekjur LV og það kannski mjög mikið. Það eru gleði­tíðindi fyrir orku­fyrir­tækið og eig­anda þess. Mögulega gerir LV sér von­ir um að verð­hækk­un­in muni leiða til þess að ár­legar tekjur fyrir­tæk­is­ins vegna raf­orku­söl­unn­ar til Norð­ur­áls auk­ist um u.þ.b. 30-40 milljónir USD frá því sem ver­ið hef­ur allra síð­ustu árin. Þar með gæti arð­greiðslu­geta LV hækkað á einu bretti um sem nemur um 4-5 milljörð­um króna (mið­að við nú­ver­andi geng­is­skrán­ingu krónu gagn­vart USD).

Það má sem sagt ætla að að þarna sjái LV tæki­færi til að hækka arð­greiðsl­u sína mjög verulega bara vegna Norð­ur­áls. Til sam­an­burðar má hafa í huga að und­an­far­in ár hef­ur arð­greiðsl­a LV verið 1,5 milljarð­ar króna og nú síð­ast var hún 4,25 milljarðar króna. Árið 2020 er fyrsta fulla rekstrar­árið sem nýi samn­ing­ur­inn verð­ur í gildi. Það verð­ur LV í hag ef orku­verð­ið á norræna mark­aðnum verð­ur hátt allt það ár. Og æskilegt fyrir fyrir­tæk­ið að svo verði allan samn­ings­tím­ann sem nýi samn­ing­ur­inn við Norðurál gildir (2019-2023).

Hagnaðaraukning Landsvirkjunar vegna Grundartanga ekki enn í hendi

Við vitum auðvitað ekki fyrir víst hvort nýi orku­samn­ing­ur­inn við Norð­ur­ál skili strax svo góðri hagn­að­ar­aukn­ingu til LV sem hér hef­ur ver­ið lýst. Það ræðst jú af því hvernig raf­orku­verðið á norræna mark­aðnum mun þró­ast á næstu árum. En LV get­ur a.m.k. verið von­góð um að þarna mynd­ist um­tals­verð­ur nýr hagn­aður og það strax á síð­ustu mánuðum 2019. Spurn­ing­in er bara hversu mik­ill þessi hagn­að­ur verður.

Við þetta bæt­ist svo mögu­leg hagn­að­ar­aukn­ing LV vegna senni­legrar hækk­un­ar á raf­orku­verði til járn­blend­iverk­smiðju Elkem á Grund­ar­tanga, því einn­ig þar tek­ur nýtt raf­orku­verð gildi á árinu 2019. Sú verð­ákvörð­un er vel að merkja í hönd­um sér­staks gerðar­dóms, sem mun vænt­an­lega senn kveða upp úr um nýtt raf­orku­verð. Sú nið­ur­staða mun senni­lega hækka raf­orku­verð Elkem veru­lega, en hversu mik­il hækk­un­in verð­ur er sem sagt enn ekki komið í ljós.

Landsvirkjun álítur eðlilegt stóriðjuverð um 30-35 USD/MWst

Hér verður ekki reynt að svara því hvaða áhrif mik­il hækk­un raf­orku­verðs LV mun hafa á rekst­ur ál­vers Norð­ur­áls og járn­blendi­verk­smiðj­u Elkem. LV álít­ur ber­sýni­lega að fyrir­tæk­in þarna á Grund­ar­tanga ráði vel við nýtt og hærra raf­orku­verð og verði áfram sam­keppn­is­hæf við aðrar slík­ar verk­smiðjur úti í heimi. Í þessu sam­bandi virð­ist sem LV álíti að stór­iðjan á Grund­ar­tanga eigi að greiða „á bil­inu 30 til 45 doll­ara í raf­orku­verð án flutn­ings“. Ef gert er ráð fyrir að stór­iðjan á Grund­ar­tanga muni greiða sem nemur lág­mark­inu þarna, yrði raf­orku­verð­ið með flutn­ingi ná­lægt 35 USD/MWst. Sem er mjög í nánd við það verð sem ál­ver­ið í Straums­vík greið­ir nú skv. raf­orku­samn­ingi frá 2010.

Verðhækkunin til stóriðjunnar var fyrirsjáanleg

Verðhækkun af þessu tagi er í sam­ræmi við það sem grein­ar­höf­und­ur taldi fyrir­sjá­an­legt þeg­ar við­ræð­ur LV og Norð­ur­áls um nýjan raf­orku­samn­ing voru yfir­stand­andi fyrir nokkrum ár­um. Í því sam­bandi leit grein­ar­höf­und­ur m.a. til raf­orku­verðs í nýjum samn­ing­um til ál­vera í Kanada  ásamt verð­þró­un í Nor­egi og víð­ar um heim. Sú spá eða sviðs­mynd sem sett var fram í þeim skrif­um gekk eftir, þrátt fyrir mikla and­stöðu af hálfu Norð­ur­áls.

Það verð sem for­stjóri LV seg­ir fyr­ir­tæk­ið nú miða við kemur sem sagt ekki á óvart. Þó ber að hafa í huga eina mik­il­væga breyt­ingu sem orð­in er á raf­orku­mörk­uð­um frá því sem var fyrir nokkrum ár­um; breyt­ingu sem gæti mögu­lega vald­ið því að sam­keppn­is­for­skot Ís­lands gagn­vart stór­um raf­orku­not­end­um fari heldur minnk­andi á kom­andi árum. Sem er vegna ódýrr­ar vind­orku er­lendis.

Samkeppnisforskot Íslands gagnvart Noregi gæti farið minnkandi

Þarna er saman­burður við Noreg áhuga­verður. Í Noregi starfa bæði ál­ver og kísil­ver og þau fyrir­tæki hafa sum á und­an­förn­um árum í aukn­um mæli þurft að reiða sig á raf­orku­kaup frá norræna orku­mark­aðnum (m.a. vegna norsku regln­anna um hjem­fall þar sem stór­iðjan hefur þurft að af­henda norska rík­inu eldri vatns­afls­virkj­anir). Í ljósi raf­orku­kaupa stór­iðju­fyrir­tækj­anna á Nord Pool má mögu­lega álykta sem svo að ef nýja raf­orku­verð­ið til fyrir­tækj­anna á Grund­ar­tanga helst eitt­hvað lægra en ger­ist á norræna raf­orku­mark­aðnum, hljóti orku­verðið til þeirra að vera prýði­lega sam­keppn­is­hæft. Og staða stór­iðjunn­ar á Grund­ar­tanga þar með trygg. Slík álykt­un er þó mögu­lega of víð­tæk, vegna mik­illa verð­lækk­ana á vind­orku.

Vindorkan er hið nýja samkeppnishæfa orkuverð stórra notenda

Norska stór­iðjan hefur und­an­far­ið verið að færa sig yfir í að kaupa vind­orku með lang­tíma­samn­ing­um við vind­myllu­garða í Nor­egi og Sví­þjóð. Með því móti tryggir norska stór­iðjan sér fast og hóg­vært raf­orku­verð til langs tíma. Vind­orkan er sem sagt að sumu leyti að taka yfir það hlut­verk sem vatns­afls­virkj­an­irnar í Noregi höfðu áður fyrr. Um leið verða fyrir­tækin sem kaupa vind­ork­una síð­ur háð mark­aðs­verð­inu á norræna orku­mark­aðnum (Elspot á Nord Pool).

Ástæða þess­ar­ar þró­un­ar er sú að svona vind­orku­kaup eru nú ódýr­asti kost­ur­inn, þ.e. ódýr­ari kost­ur en að kaupa raf­orku sem tengd er verði á norræna raf­orku­mark­aðnum og ódýr­ari kost­ur en lang­tíma­samn­ing­ar við aðra tegund raf­orku­fram­leiðslu. Og þessi hag­kvæma vind­orka er í senn góð leið til að efla atvinnu­líf og hagvöxt.

Það er sem sagt norskri og sænskri vind­orku veru­lega að þakka að t.a.m. ál­ver í Nor­egi munu senni­lega lengi enn halda sam­keppnis­hæfni sinni í alþjóð­leg­um sam­an­burði. Þetta er til marks um hvern­ig lands­lagið í sam­keppn­is­hæfni raf­orku­mark­aða er að breyt­ast. Og þess má vænta að þess­ar breyt­ing­ar í orku­geir­an­um muni á ein­hverj­um tíma­punkti líka hafa áhrif á sam­keppnis­hæfni stórra raf­orku­not­enda og orku­fyrir­tækja á Íslandi.

Vindorka mun efla íslenskt atvinnulíf

Aukinn rekstrarkostnaður stóriðju vegna hærra raf­orku­verðs í nýjum samn­ing­um LV mun til að byrja með lík­lega eink­um birt­ast í hag­ræð­ing­ar­að­gerð­um hjá ein­hverj­um stór­iðju­fyrir­tækj­um hér. Eins og t.d. með fækk­un starfs­fólks. Mögu­lega eru ný­leg­ar upp­sagnir hjá Norð­ur­áli til marks um að þessi þró­un sé strax byrjuð (jafn­vel þó svo nýi orku­samn­ing­ur­inn gangi ekki í gildi fyrr en seint á þessu ári). Hér skipt­ir líka máli að verð á áli hefur far­ið lækk­andi und­an­farið ár, sem gæti kallað á hag­ræð­ing­ar­að­gerð­ir hjá Norð­ur­áli og öðrum álfyrirtækjum hér. Sams­konar þró­un gæti sést hjá Elkem þegar eða ef raf­orku­verðið þar hækk­ar mikið.

Því miður fyrir starfs­fólkið á Grund­ar­tanga er mögulegt að næstu ár geti orðið tilefni til meiri samdráttar­að­gerða í launa­kostn­aði fyrir­tækj­anna þar (Century er skráð á hluta­bréfa­mark­að vestra og þar er mikil áhersla á arð­semis­kröfu). Um leið er LV að skila met­tekjum, sem er mjög gott fyrir eig­anda henn­ar; ís­lenska rík­ið og þar með þjóð­ina. Þarna eru því ýmsar til­finn­ing­ar uppi. Um leið er vert að hafa í huga að þeg­ar kem­ur til virkj­un­ar vinds á Ís­landi er lík­legt að allir geti fagn­að. Því sú þró­un mun styrkja sam­keppn­is­hæfni Ís­lands og auka lík­ur á áfram­hald­andi sterkri eftir­spurn hér frá fyrir­tækjum sem nota mikið rafmagn.

Höfundur starfar sem ráð­gjafi á sviði orku­mála og vinn­ur m.a. að vind­orku­verk­efnum í sam­starfi við evrópskt vind­orku­fyrirtæki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ketill 

Þetta er meiriháttar góður og upplýsandi pistill frá þér.  Í komandi framtíð og með þá með samþykki Alþingis Orkupakka 3, þá mun koma frá ESB um að einkavæða raforkufyrirtæki landsis eins og er að gerast í Frakklandi núna. sjá link: https://energy.economictimes.indiatimes.com/news/power/frances-edf-warned-of-strike-at-its-hydropower-plants-rte/68788047

Hvað er þitt álit á framtíðarhorfum og framtíðartekjum Landsvirkunar og þá um leið arðgreiðslum fyrirtækisins til Ríkisins. 

Mun samþykki Orkupakka 3 ekki skekkja og/eða þinna út þessar arðgreiðslur til Ríkisins.

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 11:12

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sæll Eggert.

Tekjur LV fara vaxandi vegna hækkana á raforkuverði til stóriðjunnar. Stóriðjan kaupir um 75% allrar raforku sem LV framleiðir. Búið er að hækka verðið til ISAL og Norðuráls, verðið mun senn hækka til Elkem og svo 2028 mun verðið líklega hækka til Fjarðaáls.

Orkupakki 3 hefur engin áhrif á rétt til arðgreiðslna. Né hefur hann áhrif á rétt ríkja til að eiga orkufyrirtæki.

Rétt að vekja athygli á því að fréttin sem fjallað er um á India Times snertir mál sem lengi hefur verið til umfjöllunar. Þetta snýst ekki um bann ríkis að eiga raforkufyrirtæki, enda er slíkt alls ekki bannað innan Frakklands né ESB. Þetta snýst um að franska ríkið má ekki hygla einstökum fyrirtækjum. Þetta varðar sem sagt samkeppnisreglur og samskonar reglur gilda nú þegar hér á Íslandi. 

Svo má geta þess að norska ríkisorkufyrirtækið Statkraft er meðal fyrirtækja sem hefur lýst áhuga á að kaupa umrædd vatnsréttindi sem franska EDF hefur nýtt. Kannski upplagt að Landsvirkjun egeri tilboð í þessi réttindi?

Ketill Sigurjónsson, 17.4.2019 kl. 11:29

3 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þakka þér fyrir svarið. Snýst þetta þá um að Ríkin þurfi að bjóða út réttindin til virkja, og þá í tilfelli Íslands að bjóða þau út á Evrópska efnahagssvæðinu

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 11:53

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það er enn ekki búið að fastsetja hvernig fyrirkomulagið verður hér á landi; er til skoðunar í nefnd. En það má sem sagt ekki hygla ríkisfyrirtækinu. Slíkt er ólögmæt ríkisaðstoð. Þetta er almenn regla sem gildir í öllum aðildarríkjum EES og ESB.

Ketill Sigurjónsson, 17.4.2019 kl. 12:06

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ef það má ekki hygla neinum umfram aðra og ríkið þurfi að skapa jafnvægi á milli þeirra sem vilja nýta vatnsréttindin, hvort það sé íslenskur eða erlendur aðili, þá sýnist mér að Ríkisvaldið verði að bjóða út réttinn til nýtingar, eða eins og í fiskstjórnarkerfinu að búa til kvotakerfi og fá greitt auðlindargjald fyrir nýtingarréttinn. 

Ef svo verður, þá er gjaldið sem Ríkið eða einkaaðilar eingögnu bundið við afnotagjaldið.

Arðsemin mun liggja eftir hjá þeim sem munu hafa nýtingarréttinn í þann tíma sem þeir semja um.

Gæti þetta verið réttur skilningur hjá mér að þinu mati.

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 18:45

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ekki er unnt að fullyrða hvar arðsemin muni liggja. Þetta sem ég hef vikið að hér að ofan snýst um bann við ólögmætum ríkisstyrkjum. Segjum sem svo að um ríkisjörð renni vatnsfall. LV hefur áhuga á að virkja og HS Orka hefur áhuga á að virkja. Samkvæmt löggjöf sem gildir hér á landi (og allstaðar innan EES og ESB) má ríkið í þessu tilviki ekki búa svo um hnútana að LV fái virkjunarréttinn ódýrara en ef hann hefði gengið til HS Orku. Hvernig virkjunarréttinum er ráðstafað get ég ekki svarað; því ræður ríkið. En ríkið má ekki beita því valdi sínu með þeim hætti að ríkisaðstoð raski samkeppni. Þetta er hluti þeirra almennu reglna sem við undirgengumst með aðildinni að EES-samningnum.

Ketill Sigurjónsson, 17.4.2019 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband