Ísland er land grænnar raforku

Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjall­að um upp­runa­vott­orð grænnar raforku. Af um­ræðu í þættinum og eft­ir þátt­inn er ljóst að marg­ir eiga í nokkrum vand­ræð­um með að skilja hvað felst í slík­um upp­runa­vott­orðum. Sem kannski er ekki skrýt­ið, því hags­muna­aðilum sem vilja fá þess konar vott­orð frítt hef­ur tek­ist nokk­uð vel að rugla fólk í rím­inu um hvað vott­orð­in merkja.

Einfaldast er að lýsa uppruna­vott­orði vegna grænn­ar raf­orku svo að með slíku vott­orði er stað­fest að til­tek­in orku­ein­ing hefur verið fram­leidd með end­ur­nýjan­leg­um hætti (svo sem fyrir til­verknað vatn­afls, vind­afls, jarð­gufu eða sól­ar). Það er orku­fram­leið­and­inn sem fær heim­ild til útgáfu slíks vott­orðs. Og sá sem kaupir vott­orð­ið er raf­orku­not­andi sem vill styðja við end­ur­nýj­an­lega raf­orku­fram­leiðslu og um leið fá tæki­færi til að kynna þann stuðn­ing sinn í sam­ræmi við regl­ur þess­ar­ar evrópsku sam­vinnu (svipað kerfi má líka finna í löndum utan Evrópu).

Hvaðan nákvæmlega orkueiningin kem­ur, sem kaup­andi vott­orðs­ins notar, er ekki aðal­atriði. Held­ur snýst þetta kerfi um það að orkunotandinn hef­ur með kaup­um á við­kom­andi upp­runa­vott­orði stutt við fram­leiðslu á sama magni af grænni orku. Og raf­orku­fram­leið­and­inn má auðvitað ekki selja upp­runa­vott­orð vegna þess­ar­ar til­teknu orku­ein­ing­ar á ný, enda væri hann þá að tví­selja upp­runa­vott­orðið.

Umrætt kerfi er hluti af sam­starfi Evrópu­ríkja til að sporna gegn los­un gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Í heild stuðl­ar kerf­ið að því að græn raf­orku­fram­leiðsla verður sam­keppn­is­hæf­ari en ella og því lík­leg til að auk­ast meira eða hrað­ar en ella. Hversu áhrifa­mik­ið eða gott þetta kerfi er, er samt um­deil­an­legt, rétt eins og á við um mörg önn­ur mann­anna verk. En þetta er eitt atriði af mörg­um sem hvet­ur til fram­leiðslu á meiri grænni orku og er því til þess fallið að spyrna gegn nýt­ingu kola eða jarð­gass.

Greinarhöfundur lýsti þessu kerfi hér á vef Morg­un­blaðs­ins fyrir um hálf­um ára­tug. En skiln­ing­ur margra á kerf­inu virð­ist lítt betri núna en var þá. Sem er kannski skiljan­legt því reglulega sprettur upp nokkuð þungur áróð­ur gegn þessi kerfi. Sá áróð­ur á einkum ræt­ur að rekja til fyrirtækja sem vilja fá upp­runa­ábyrgð­irnar frítt. Þeir hin­ir sömu reyna að halda því fram að kerf­ið skerði græna ímynd Ís­lands. Slíkt er auð­vit­að fjar­stæða. Enda er græn ímynd Íslands í dag a.m.k. jafn sterk og var fyrir fimm árum, þegar líka var mikið fjallað um hættu á skemmdum á ímynd Íslands vegna viðskipta með upprunavottorð.

Jafnvel þó svo þetta kerfi upprunaábyrgða sé til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi, þá er kerfið ekki skylda heldur valkvætt. Íslenskum orkufyrirtækjum ber engin skylda til að taka þátt. En hafa má í huga að sala á upprunavottorðum hefur aukið ár­leg­ar tekj­ur Lands­virkj­un­ar um hundruð milljóna króna. Greið­end­urnir, þ.e. kaup­end­ur vott­orð­anna, eru fyrst og fremst er­lend fyrir­tæki, með­an tekj­urnar renna fyrst og fremst til fyr­ir­tæk­is í eigu ís­lenska rík­is­ins. Hvort það er jákvætt eða neikvætt fyrir Ísland verður hver að meta fyrir sig.

Slíkar auknar tekjur Lands­virkj­un­ar eru jákvæðar fyrir fyrirtækið, eiganda þess og þar með alla landsmenn. Um leið efla tekjurnar mögu­leika Lands­virkj­un­ar til að bjóða raf­orku á lægra verði en ella. M.ö.o. þá verður Lands­virkj­un sam­keppn­is­hæf­ari. Það væri nokkuð ein­kenni­leg afstaða ef ís­lenskir stjórn­mála­menn vildu skera burt þessar tekj­ur Lands­virkj­un­ar og þar með minnka arð­semi þessa mik­il­væga fyr­ir­tæk­is Íslend­inga.

Ísland er land grænnar raforku­fram­leiðslu. Og orku­ímynd Ís­lands er sú græn­asta í heimi og vekur athygli sem slík. Upp­runa­vott­orð og við­skipti með slík vott­orð skerða á eng­an hátt þá ímynd. Þvert á móti er geta ís­lenskra raf­orku­fyrir­tækja til að selja upp­runa­vott­orð til marks um hversu raf­orku­fram­leiðsla á Ís­landi er græn. Í því liggja hrein og klár verð­mæti.

Að af­henda stór­not­end­um raf­orku eða meng­andi iðn­aði þau verð­mæti án end­ur­gjalds væri undarleg ráð­stöf­un. Aftur á móti er um­hverf­is­leg gagn­semi upp­runa­vott­orða varla afgerandi og því kannski ekki stór skaði ef þetta kerfi yrði lagt af. Munum samt að þetta kerfi styður við græna orku. Þess vegna er varla ástæða til að leggja kerfið af nema sýnt verði fram á óumdeilanleg og raunveruleg neikvæð áhrif þess. Það hefur ekki verið gert. 

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri vind­orku­fyrir­tækis­ins Zephyr Iceland.


Bloggfærslur 21. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband